Danir fögnuðu mjög úrslitunum í leik Íslendinga og Tékka en gleðin breyttist í vonbrigði þegar niðurstaðan í leik Dana og N-Íra á Parken í Kaupmannahöfn varð 1:1 jafntefli.

Danir fögnuðu mjög úrslitunum í leik Íslendinga og Tékka en gleðin breyttist í vonbrigði þegar niðurstaðan í leik Dana og N-Íra á Parken í Kaupmannahöfn varð 1:1 jafntefli. Stigin tvö sem Danir töpuðu gætu reynst þeim dýrkeypt en á morgun mæta Danir Búlgörum í Sofiu og í síðasta leiknum taka þeir á móti Íslendingum.

Danir fengu óskabyrjun þegar Dennis Rommendahl skoraði með skalla eftir aðeins þriggja mínútna leik en þrátt fyrir talverða pressu á köflum tókst Dönum ekki að bæta við öðru marki. N-Írar, sem taka á móti Íslendingum á morgun, léku sterkan varnarleik og beittu skyndisóknum. Upp úr einni slíkri jafnaði Philip Mulryne metin á 73. mínútu með laglegu skallamarki eftir góða fyrirgjöf frá Keith Gillespie. Morten Olsen, þjálfari danska landsliðsins, var mjög vonsvikinn með úrslitin og vandaði sínum mönnum ekki kveðjurnar í viðtölum eftir leikinn.

"Með sigri í þessum leik hefðum við getað verið í góðri stöðu til að tryggja okkur inn á HM, sérstaklega þar sem Tékkar töpuðu fyrir Íslendingum, en leikur liðsins í dag var ekki nógu góður til þess að leggja N-Írana. Sjö til átta af mínum leikmönnum léku undir getu en hefðu þeir leikið eðlilega hefðum við farið með sigur af hólmi. N-Írarnir voru skipulagðir í sínum leik og vörðust vel og einhvern veginn sofnuðu mínir menn á verðinum eftir að hafa náð draumabyrjun," sagði Olsen eftir leikinn.

"Ég er mjög hreykinn af strákunum. Þeir gáfu sig allir 100% í leikinn og börðust fram í rauðan dauðann. Ég get ekki verið annað en ánægður með að sækja stig til Danmerkur og sjá baráttuna sem mínir menn sýndu," sagðiSammy McIllroy, landsliðsþjálfari N-Íra, eftir leikinn.

Thomas Sørensen, markvörður Dana, þurfti að yfirgefa völlinn eftir aðeins 16 mínútna leik. Hann nefbrotnaði og var fluttur á sjúkrahús og ljóst þykir að hann verður ekki með Dönum í leiknum við Búlgara annað kvöld.

Búlgarar nýttu sér ófarir Dana og skutust upp í toppsætið með því að leggja Möltumenn að velli í Valetta, 2:0. Vörn heimamanna hélt í klukkutíma en þá tókst Dimitar Berbatov að skora og hann bætti við öðru tíu mínútum síðar. Möltumenn sem spiluðu sinn fyrsta alvörulandsleik undir stjórn Þjóðverjans Sigfrieds Held, fyrrverandi þjálfara íslenska landsliðsins, voru skeinuhættir í fyrri hálfleik en í þeim síðari tóku Búlgarar öll völd á vellinum og innkoma Krassimirs Balakov hafði góð áhrif á liðið.