HVERFISSAMTÖK Vatnsenda, "Sveit í borg", mótmæla fyrirhugaðri uppbyggingu athafnasvæðis í Vatnsendahvarfi og hafa afhent skipulagsyfirvöldum í Kópavogi athugasemdir sínar við tillögur að svæðinu.

HVERFISSAMTÖK Vatnsenda, "Sveit í borg", mótmæla fyrirhugaðri uppbyggingu athafnasvæðis í Vatnsendahvarfi og hafa afhent skipulagsyfirvöldum í Kópavogi athugasemdir sínar við tillögur að svæðinu.

Í fréttatilkynningu frá samtökunum segir að athugasemdirnar gangi meðal annars út á að háreist og þétt byggð á fyrirhuguðu svæði sé í hrópandi ósamræmi við staðsetningu svæðisins og byggðina í kring. Svæðið sé hluti af útivistarsvæði höfuðborgarbúa og byggðin í nágrenni þess hafi verið skipulögð undir formerkjunum "sveit í bæ". Því komi mjög á óvart hversu mikil byggð sé áætluð á svæðinu.

Breytingar á rennsli ofanvatns

Samtökin gagnrýna að breytingar á vegakerfi Vatnsendasvæðisins hafi einungis verið auglýstar að hluta í skipulagstillögunum en betra hefði verið að auglýsa þær í víðara samhengi, m.a. vegna þess að umferðarþungir vegir virðist fyrirhugaðir á vatnsverndarsvæði.

Þá benda samtökin á að breytingar verði á rennsli ofanvatns á svæðinu þar sem rigningarvatn muni lenda á 1300 bílastæðum, þökum og götum. Hafa samtökin efasemdir um að nægjanlegar rannsóknir liggi fyrir um afleiðingar þess fyrir vatnsbúskap svæðisins.

Í fréttatilkynningunni segir að undirskriftir 170 manns í hverfinu, þar sem uppbyggingunni á svæðinu sé mótmælt, hafi einnig verið afhentar skipulagsyfirvöldum.