Atkvæði talin í fyrstu frjálsu kosningunum í sögu Austur-Tímor. Þátttaka var um 90%.
Atkvæði talin í fyrstu frjálsu kosningunum í sögu Austur-Tímor. Þátttaka var um 90%.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Miklar vonir eru bundnar við Xanana Gusmao, frelsishetju Austur-Tímor, sem loks hefur fallist á að bjóða sig fram til forseta þessa bláfátæka ríkis. Margrét Heinreksdóttir var í hópi blaðamanna sem ræddu við Gusmao í Dili, höfuðstað Austur-Tímor.

Í dulitlum garði við látlaust hús sitja nokkrir blaða- og fréttamenn á lágum stólum kringum lítið borð. Við enda þess viðmælandinn, fremur fíngerður, fríður maður með grásprengt hár og skegg, dökkbrún augu, rólegur og yfirvegaður í fasi og framsögn, talar hægt lágum rómi og velur orð sín vandlega til að forðast gildrurnar sem fréttamenn reyna að lokka hann í með spurningum sínum í þeirri von að hann tali af sér og segi eitthvað sem slá megi upp og selja. Stundum er erfitt að heyra hvað hann segir vegna hávaða í kring; hundgá og hanagal í öllum áttum og börn að leik, hlæjandi og skríkjandi.

Við erum stödd heima hjá Xanana Gusmao, frelsishetju og verðandi forseta Austur-Tímor, en svo sem fram hefur komið í fréttum lýsti hann því yfir sl. laugardag að hann hefði ákveðið að verða við þrábeiðni stjórnmálaflokka landsins um að bjóða sig fram til forseta - þ.e.a.s. ef þeir viðurkenndu úrslit kosninganna til stjórnlagaþingsins, sem fram fóru hér 30. ágúst. Yfirlýsingu Xananas - sem hann las á fundi með fréttamönnum í beinu framhaldi af stórum kosningafundi allra flokka - var tekið af slíkum fögnuði að þakið virtist ætla af húsinu.

Vinsældir hans fara ekkert á milli mála; margir hér kalla hann forsetann sinn ("my president" segja þeir) og líta á hann sem sinn "Mandela". Þeir minna gjarnan á að Nelson Mandela hafi - fyrstur þjóðarleiðtoga - heimsótt Xanana Gusmao þegar hann sat í fangelsi í Indónesíu og einnig talað máli Austur-Tímora af einurð á alþjóðavettvangi. Eftir það hafi þau komið til hans hvert af öðru fyrirmennin, meðal annars ráðherrar þeirra ríkja sem á sínum tíma lögðu blessun sína yfir hernám Indónesa og sáu þeim fyrir vopnum til að murrka lífið úr Tímorbúum. Nú á að slá striki yfir þá sögu því að þessi sömu ríki fara nú í fararbroddi fyrir þeim sem vilja styðja þá til sjálfstæðis. Örlagahjólið snýst.

Xanana fer greinilega hjá sér þegar samanburðinn við Mandela ber á góma, segir að þeir eigi það eitt sameiginlegt að hafa setið í fangelsi og barist fyrir frelsi þjóða sinna.

Ekki í mínu eðli að óttast ábyrgð

Hann gætir hæversku til hins ýtrasta, minnir ítrekað á að hann sé ekki forseti heldur aðeins forsetaframbjóðandi. Því telur hann sig hvorki geta svarað spurningum um stjórnarmyndun, hvers eðlis forsetaembættið verði eða annað slíkt sem komið sé undir úrslitum kosninganna og þeirri stjórnarskrá sem stjórnlagaþingið kemur sér saman um. Hann muni lúta vilja þingsins.

Spurður hvort hann sé undir forsetaembættið búinn er hann fljótur að svara því neitandi. Hvernig honum líði gagnvart öllum þeim væntingum, sem menn hafi um hann; heimamenn, alþjóðasamfélagið, fjölmiðlarnir; hvort hann óttist þá ábyrgð, sem hann þarf að axla? "Það er ekki í eðli mínu að óttast ábyrgð," segir hann að bragði en bætir við að sér finnist hann ósköp lítill, of lítill til að rísa undir þessari ábyrgð og hann sé ekki besti maðurinn í starfið. Hver mun þá bestur, er spurt og honum vefst tunga um tönn. Þótt hann fáist ekki til að viðurkenna það veit hann að enginn nema hann getur - að sinni a.m.k. - sameinað þjóðina til átaka við þau feiknarlegu vandamál sem við henni blasa. Þess vegna verður hann að taka að sér þetta hlutverk, þess vegna hafa forystumenn stjórnmálaflokkanna ekki hlustað á mótbárur hans, þess vegna er höfðað til skyldutilfinningar hans og hann nánast neyddur til að afsala sér nýfengnu frelsi sínu. Hvort hann harmi það? "Já, að sumu leyti."

Xanana hefur síðustu tvö árin marglýst því yfir að hann hafi aldrei haft áhuga á að verða stjórnmálamaður og vilji helst fá að lifa eðlilegu lífi með fjölskyldu sinni, gerast bóndi eða ljósmyndari. Hann sýndi strax sem ungur maður áhuga í þá átt, filmaði m.a. athöfnina 28. nóvember 1975 - sem var reyndar afar látlaus - þegar FRETELIN lýsti yfir sjálfstæðu ríki á Austur-Tímor, níu dögum áður en Indónesar hernámu landið.

Sumir segja þetta leikaraskap, því að vitaskuld vilji hann verða forseti landsins, en þeir sem nær honum standa efast ekki um einlægni hans. Þeir benda á hvílíkar fórnir hann hafi þegar fært með áralangri baráttu sinni í stöðugri lífshættu og einangrun í fjöllum og skógum landsins og síðan margra ára fangavist í höndum Indónesa. Vitaskuld vilji hann gjarnan verða frjáls maður eftir allt þetta og það verði hann ekki sem forseti A-Tímors, bláfátæks lands, sem við blasi margháttaðir langvarandi erfiðleikar og vafalaust flokkadrættir og e.t.v. innbyrðis átök stjórnmálafylkinganna.

Spurður um þessar mismunandi skoðanir aftók Xanana með öllu að hann væri með leikaraskap, við yrðum að skilja að það væri óskaplega erfitt fyrir sig að verða forseti, og horfa upp á erfiðleika átján þúsund félaga sinna úr stríðinu, fyrrverandi hermanna og skæruliða FALINTIL (frelsishersins) sem lifðu í sárri fátækt, komnir upp á aðstoð annarra til að fá dregið fram lífið. Hann kvaðst vera forseti samtaka þeirra og þeir hefðu beðið sig að gegna því starfi áfram, a.m.k. næstu þrjú árin, þeir þörfnuðust hans.

Þess má geta að í bréfi sem Xanana skrifaði Jose Ramos Horta í nóvember 1990 (birt með sjálfsævisögu hans "To resist is to win", sem hann skrifaði í fangelsinu, útg. 2000) aftók hann með öllu að sér væri líkt við "statesman" hvað þá að hann yrði settur í slíkt hlutverk; að ala með sér persónulegan metnað í þá veru væri vanvirðing við þjáningar hermanna sinna og það mundi hann aldrei gera. Og í áramótaávarpi 1998/99 til landa sinna sagði hann, að það hefði verið algengt í Þriðja heiminum að hetjur frelsibaráttunar væru gerðar að hetjum sjálfstæðisins - og það hefði í flestum tilvikum verið mistök, sem Austur-Tímorar ættu að læra af.

Í bréfinu til Ramos Horta má einnig sjá, að þegar Gusmao ákvað að taka forystu fyrir skæruhernaðinum heima fyrir árið 1982 taldi hann sjálfan sig ótvírætt best til þess fallinn af þeim sem þá komu til greina - þá hafði mjög verið þrengt að skæruliðum og þeir sundrast í allar áttir eftir að fyrsta kynslóð forystumannanna var öll fallin í valinn, en Xanana safnaði þeim saman á ný og endurskipulagði hreyfinguna frá grunni. Hann virðist því óhikað gangast við þeim hæfileikum sem hann telur sig hafa - sem gerir málflutning hans trúverðugan.

Uppreisnargjarn og sjálfstæður

Xanana fæddist 20. eða 21. júní 1946 í þorpinu Laleia, skammt frá bænum Manatuto á norðurströndinni, næstelstur átta barna foreldra sinna. Hann var á sínum tíma skírður José Alexandre Gusmao. Xanana er gælunafn fyrir Alexandre en sem forseti frelsisfylkingarinnar skrifaði hann sig Kay Rala Xanana Gusmao. Foreldrar hans voru tímorískir, en faðir hans, einkasonur fátæks bónda, var "assimilado", þ.e. hann hafði lært portúgölsku, verið skírður til kaþólskrar trúar og tekið upp portúgalskt nafn. Hann var maður bókhneigður, hlaut kennaramenntun hjá kaþólsku kirkjunni og var sendur til starfa á ýmsum stöðum í landinu meðan Xanana var að alast upp. Faðirinn tamdi hann til bókar en móðir hans innrætti honum munnlega sögu og menningu þjóðarinnar.

Hann segist hafa verið uppreisnargjarn í æsku, lítt gefinn fyrir að kyssa á vendi valdsmanna, hvort heldur voru kennarar, skólastjórar eða ráðamenn opinberra stofnana þar sem hann leitaði eftir störfum í stjórnsýslunni. Af fjárhagsástæðum tókst honum ekki að ljúka menntaskólanámi en vann alls konar störf og tók mikinn þátt í íþróttum.

Eftir nellikubyltinguna í Portúgal dróst hann inn í stjórnmálalíf ungmenna í Dili og endaði - þó framan af með hálfum huga - í herbúðum FRETELIN, þar sem ungir vinstrisinnaðir menntamenn nýkomnir heim frá Portúgal náðu fljótt áhrifum. Af ævisögu hans er að sjá, að hann hafi verið andvígur hvers konar öfgum og haft áhyggjur af ofbeldisverkum sinna eigin flokksmanna ekki síður en andstæðinga þeirra. Enda þótt Xanana hafi í skæruhernaðinum dregið mikinn lærdóm af baráttusögu kínverskra kommúnista (segist hafa gengið með Rauða kverið eftir Mao Tse Tung upp á vasann) hóf hann fljótlega eftir að hann tók við forystu skæruherins að vinna að pólitískri stefnubreytingu FRETELIN. 7. desember 1987, þegar tólf ár voru liðin frá innrás Indónesa, sendi hann út boð til sjálfstæðissinna heima og erlendis þar sem hann gerði upp hugmyndafræðilegan feril flokksins, með kostum og göllum, hvatti til þess að hann félli endanlega frá marxisma og endurskoðaði hugmyndafræði sína með það fyrir augum að allar stjórnmálaskoðanir fengju þrifist innan vébanda hans. Ennfremur vildi hann að skæruliðaherinn - FALINTIL - yrði óháður stjórnmálaflokkum. Þessar breytingar náðu fram að ganga ári síðar og þá hófst á ný samvinna flokkanna sem áttust við í borgarastyrjöldinni 1975.

Í sjálfsævisögu Xananas, sem nær til ársins 1981, er að finna bréf og ýmislegt fleira sem hann hefur sent frá sér síðan. Er athyglisvert að sjá hvílíkum framförum hann hefur tekið bæði í hugsun, tjáningu og ritstíl - segist enda hafa orðið að læra af reynslunni. Honum mun fleira til lista lagt, hefur m.a. fengist við ljóðagerð og myndlist.

Fangelsi eða framfarir?

Mikið hefur verið rætt um það á Austur-Tímor hvaða stefnu beri að taka gagnvart vígasveitunum sem rústuðu landið í september 1999. Hjá deild þeirri innan saksóknaraembættis Sameinuðu þjóðanna, sem fjallar um meiriháttar glæpi (Serious Crimes Unit) er unnið að rannsókn fjölmargra mála sem flokkast undir svokallaða "glæpi gegn mannkyninu" og þegar verið gefnar út einar sex ákærur fyrir slíka glæpi. En málin eru svo mörg að fyrirsjáanlegt er að áraraðir munu líða áður en unnt verður að afgreiða þau öll. Þess vegna hefur verið skipuð svonefnd sannleiks- og sáttanefnd (Reception, Truth and Reconcilliation Commission) sem er ætlað að leita annarra leiða en dómstólameðferðar til að gera upp fortíðina. Xanana er því mjög hlynntur og var spurður ítarlega út í þá afstöðu sína. Hann virtist ekki hafa eða a.m.k. ekki vera tilbúinn að láta uppi skýrt markaðar tillögur þar að lútandi, en röksemdafærslan var nokkurn veginn þessi: Við þurfum að finna leiðir til að sameina réttlæti og sættir (justice and reconciliation) og líta á þessi mál öll í heild, raunsæjum augum. Við getum ekki aðeins litið til þess sem gerðist í september 1999, það væri ekki réttlátt gagnvart þeim sem liðu þjáningar og fórnir á 24 ára valdaskeiði Indónesa. Athugið það líka að eldri kynslóðin í þessu landi hefur upplifað þrjú gereyðingartímabil, hið fyrsta var hernám Japana, sem skildi hér eftir sviðna jörð, hið næsta var innrás Indónesa og styrjöldin við þá og hið þriðja vígasveitirnar í september 1999. Margir eru orðnir óskaplega þreyttir á þessum endalausu átökum - og hví þá ekki að breyta hugarfarinu, horfa til framtíðar og snúa baki við fortíðinni. Ef við finnum ekki leiðir til þess að samræma réttlæti og sættir höldum við sárunum endalaust opnum.

Framtíðarsýn

Við verðum líka að líta til þess sem við höfum bolmagn til að gera. Við stöndum andspænis fólkinu í landinu, sem biður um mat, menntun, heilbrigðisþjónustu og annað sem þarf til mannsæmandi lífs. Minnumst þess að 54% þjóðarinnar eru undir 25 ára aldri og 44% undir 14 ára aldri, þið sjáið því hvað er framundan á sviði menntamála, þar er verk að vinna. Ef við ætlum að reyna að byggja upp þjóðfélagið er þá vit í því að verja stórfé til að halda fjölda manna í fangelsum? En ég tek það skýrt fram að án réttlætis verða engar sættir - spurningin er aðeins hvers konar réttlæti við getum sætt okkur við.

Hvort hann héldi að menn væru tilbúnir að byrja að búa og lifa með þeim sem hefðu brennt heimilin þeirra til grunna? Hann svaraði: Er ekki nær að segja við þann sem brenndi húsið mitt - reistu það við á ný - en að setja hann í fangelsi? Xanana var spurður hvort hann væri því fylgjandi að settur yrði á laggirnar alþjóðlegur stríðsglæpadómstóll fyrir Austur-Tímor eins og gert hefði verið fyrir fyrrverandi Júgóslavíu og Rwanda. Það sagði hann alfarið mál alþjóðasamfélagsins - og á sama hátt réðu Indónesar því hvernig þeir færu með mál herforingja sinna, sem ábyrgð hefðu borið á glæpaverkum í Austur-Tímor í innrásinni 1975 og síðar á 24 ára valdaferli þeirra.

Talið snerist að efnahagsmálum og hversu lengi hann teldi að Austur-Tímor yrði háð aðstoð erlendis frá. Hann sagði erfitt að segja til um það, alla vega yrði svo fyrstu árin meðan verið væri að undirbúa nýtingu þeirra auðlinda sem í landinu væru. Hann kvaðst vongóður um að alþjóðasamfélagið yrði þeim hjálplegt ef þeim tækist að byggja upp lýðræðislegt þjóðfélag.

Aðspurður hvort hann teldi alþjóðasamfélagið hafa áfram skyldur við Tímora kvað hann svo ótvírætt vera og því mætti það ekki yfirgefa þá um leið og þeir lýstu yfir sjálfstæði sínu, það yrði að gerast í áföngum.

Hver er hans framtíðarsýn fyrir land sitt og þjóð var spurt á ýmsan veg og svarið var í stuttu máli þetta: Kosningarnar, sem nú fara fram, marka endalok sjálfstæðisbaráttunnar og um leið nýja byrjun. Fyrir mér hefst uppbyggingarstarfið fyrir alvöru þann dag sem lýst verður yfir sjálfstæði og það nun taka langan tíma. En sjálfstæðið mun því aðeins hafa einhverja þýðingu að þjóðin sjái fram á betra líf eftir svo sem 10-15 ár; að þá hafi orðið umtalsverðar framfarir, að fólkið hafi eignast heimili, njóti heilsugæslu, menntunar og aldraðir fái umönnun. Hvar við eigum að byrja er erfitt að segja - því svo ótalmargt er aðkallandi.