Blikakonur fögnuðu ákaft er þær fengu afhentan Íslandsmeistarabikarinn á sunnudag í Kópavogi.
Blikakonur fögnuðu ákaft er þær fengu afhentan Íslandsmeistarabikarinn á sunnudag í Kópavogi.
BLIKAKONUR voru allar sammála um að liðsheildin hefði verið mikilvægasti hlekkurinn í að vinna Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu í ár.

BLIKAKONUR voru allar sammála um að liðsheildin hefði verið mikilvægasti hlekkurinn í að vinna Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu í ár. Liðið tapaði reyndar síðasta leiknum gegn Stjörnunni á sunnudag, 4:0, en það kom ekki að sök þar sem liðið hafði fyrir leikinn tryggt sér titilinn. "Liðsheildin skóp þennan sigur," sagði Björg Ásta Þórðardóttir sem er ein af ungu og efnilegu leikmönnum liðsins. "Þetta er frábær tilfinning, sú besta í heimi. Það er búið að vera erfitt að stilla þessu saman en það tókst."

Blikar þurftu að hafa meira fyrir titlinum í ár en oft áður. Miklar mannabreytingar áttu sér stað fyrir tímabilið auk þess sem liðið missti marga leikmenn meðan á tímabilinu stóð, bæði í nám utan og í meiðsli. "Þetta var upp og niður en það er góður andi í liðinu og góður liðsandi færði okkur þennan titil. Þótt úrslitin hafi ekki verið neitt sérstök í síðasta leiknum ætlum við að taka sigur í bikarúrslitaleiknum," sagði Björg Ásta en Blikar leika til úrslita í bikarkeppni KSÍ hinn 15. september.

Jafngaman og í fyrra

"Þetta er ekkert síðra en í fyrra - alltaf jafnyndisleg tilfinning," sagði Laufey Ólafsdóttir Bliki. Hún lék lykilhlutverk með liðinu framan af en meiðsli í hné tóku sig upp er hún lék með ungmennalandsliði Íslands í júlí og því hefur hún ekkert getað leikið síðan. "Það hefur haft einhver áhrif á okkur hvað við höfum misst marga en það kemur maður í manns stað og það tekur bara tíma að ná saman aftur. Það er leiðinlegt að enda með tapi en við fögnum samt. Ég stefni að því að ná mér fyrir bikarúrslitaleikinn," sagði Laufey jafnframt.

Fínt að spila í grænu

"Þetta er frábært. Það hefði verið skemmtilegra að vinna Stjörnuna en titillinn er okkar, það er ljóst," sagði Margrét Ákadóttir, fyrirliði Blika. "Það er ekkert annað en liðsheildin sem færði okkur þennan titil. Við höfum náð að þjappa okkur vel saman þrátt fyrir að hafa misst menn út. Við erum með fullt af ungum stelpum og framtíðin er björt. Eftir tvær vikur er svo bikarúrslitaleikurinn og við eigum titil að verja þar. Að sjálfsögðu ætlum við að landa honum líka, en við þurfum að gera mun betur en gegn Stjörnunni ætlum við að ná því. Það er vel búið að öllum hlutum hér, einnig erum við með frábæran þjálfara, við náum vel saman og þetta hefur allt haldist í hendur til að landa titlinum."

Margrét lék áður með ÍA en hefur staðið sig vel með Blikum í sumar. "Ég var að koma inn í nýtt lið og þegar upp er staðið er ég nokkuð ánægð með útkomuna. Það kannski skiptir ekki máli hvernig ég hef staðið mig persónulega heldur að liðið vinni. Það er fínt að spila í grænu," sagði Margrét Ákadóttir.

Eftir Írisi Björk Eysteinsdóttur