Gerrit Schuil og Sólrún Bragadóttir.
Gerrit Schuil og Sólrún Bragadóttir.
Sólrún Bragadóttir og Gerrit Schuil fluttu söngverk eftir Faure, Duparc. Sibelíus, Korngold og Grieg. Sunnudagurinn 2. september 2001.

LJÓÐASÖNGVAR (Lieder) er afmörkuð gerð söngverka, nokkuð frábrugðin því sem kölluð eru sönglög, þar sem laglínan er fullgilt og sjálfstætt tónverk, og mögulegt að flytja það án umbúnaðs eða útsetningar. Lieder, eins og hann er skilgreindur frá og með Schubert, er í flestum tilfellum tónverk, gegnunnið, oftlega í mörgum þáttum, samofið textanum og jafnvel leikrænt að allri gerð. þennan mun má sjá í sönglögum Schuberts, t.d. í laginu Heiðarrósin, sem er sjálfbært lag og svo Álfakóngurinn, sem er margslungin og leikræn tónsmíð en bæði þessi "lög" samdi Schubert er hann var átján ára. Það má segja, að í gerð Lieder tósmíða hafi tónskáld vaxið frá hinu einfalda sönglagi til tónsmíða, sem oftlega urðu í höndum þeirra að viðamiklum söngverkum.

Á fyrstu síðdegistónleikunum í Ými, fluttu Sólrún Bragadóttir og Gerrit Schuil franska og norræna lieder-söngva ásamt smá innslagi eftir Korngold, þýskan tónsmið, er á sér sögu bæði vestan hafs og austan. Tónleikarnir hófust á söngverkum eftir Gabriel Faure. Söngverk hans eru með því fegursta sem ritað hefur verið, þar sem píanó og söngrödd verða eitt og er ljóst hvar einn frægasti nemandi hans, Ravel, hefur fengið sitt fagurfræðilega uppeldi. Fyrsta lagið Aprés un rève var glæsilega flutt og sama má segja um önnur, sem voru Les berceaux, Autmme, Nell, sem var aburða vel flutt, Recontre, Toujours og Adieu, þar sem samleikurinn hjá Sólrúnu og Gerrit náði hámarki, hvað snertir túlkun og fallega tónmótun.

Einn eftirtektarverðasti þáttur tónleikanna var flutningur fimm söngverka eftir Henri Duparc, sem öll eru viðamiklar og margþættar tónsmíðar, og hófst á sérkennilega hófstilltu söngverki, Extace, sem merkir að vera frá sér numinn, í leiðslu og var flutningurinn allur merktur þessari stemmningu, annað söngverkið var Soupir og það þriðja La vie antérieure, stórbrotið lag, sem spannar í tóntaki frá hinu einfalda til mikilla átaka, er síðan hverfur aftur til sérkennilegrar friðsældar, þrátt fyrir sáran trega. Þetta lag var eitt glæsilegasta framlag tónleikanna. Næstu lög voru Lamento og síðasta söngverkið eftir Duparc, var Au pays ou se fait la guerre, áhrifamikill ástarsöngur er var glæsilega fluttur.

Það hefur verið sagt um Sibelíus að í söngverkum sínum sé hann nokkuð misjafn en þar koma í móti einstaklega glæsileg verk, sem mörg hver voru samin í kringum þrítugsaldurinn. Tvö fyrstu lög Sibelíusar Ilalle (Til kvöldsins) og Lastu lainehilla (Rekaviður), teljast til finnsku laganna (op. 17) ásamt þriðja laginu Souda, souda, sinisorsa, (Syntu, syntu önd), sem er án ópusnúmers en samið 1899. Flest einsöngverk sín samdi Sibelíus við sænska texta og var sænska skáldið Runeberg í miklu uppáhaldi hjá tónskáldinu en einmitt þrjú síðari söngverkin eftir Sibelíus, Norden, Vem styrde hit din väg og Sommernatten, eru úr Runbergssöngvunum frá 1917 op. 90, sem eru síðustu einsöngsverk meistarans. Öll lögin voru glæsilega flutt sérstaklegs Runebergslögin en á eftir þeim kom sérkennilegt innslag, fimm ljóðasöngvar eftir Korngold (1897-1957), sem áttu ekki heima í þessari dagskrá. Þessi verk eru því miður ekki sérlega áhugaverð að gerð, þó þau væru auðvitað mjög vel flutt.

Hljómasnillingurinn Grieg, átti fimm snilldarverk, Våren, Med en vandlilje, En svane og En dröm, er öll voru frábærlega flutt og til að bæta ögn við, fluttu þau söng Sólveigar sem aukalag og endurtóku svo einnig listaverkið Extace, eftir Duparc.

Það er í raun óþarft að taka eitthvað sérstaklega fram varðandi þessa tónleika, þeir voru samleikur, þar sem listfengi fær dýpri merkingu en glæsilegt, og því ná engin orð að lýsa, nema sem skugga þess sem upplifunin sjálf er.

Jón Ásgeirsson