Menntamálaráðuneytið stendur fyrir viku símenntunar. Björn Bjarnason hóf dagskrána formlega í NTV-skólanum í Hafnarfirði í gær. Hópur félagsmanna BSRB byrjaði svo á tölvunámskeiði í skólanum.
Menntamálaráðuneytið stendur fyrir viku símenntunar. Björn Bjarnason hóf dagskrána formlega í NTV-skólanum í Hafnarfirði í gær. Hópur félagsmanna BSRB byrjaði svo á tölvunámskeiði í skólanum.
Vika símenntunar/ Ástæðan fyrir áherslunni á tungamál í viku símenntunar er sögð vera lega landsins og sérstaða tungumálsins. Kunnátta í erlendum tungumálum sé því nauðsynleg hverjum Íslendingi, sem ætlar að eiga samskipti við fólk annarrar tungu.

Ísland og umheimurinn - tungumál og tölvukunnátta, er þema viku símenntunar sem menntamálaráðuneytið stendur fyrir í annað í sinn. Áður var dagur símenntunar haldinn árlega. Markmiðið er að hvetja fólk til að leggja stund á símenntun, en að þessu sinni er athyglinni beint sérstaklega að þætti tungumála og tölvutækni. Vikan var sett í gær af Birni Bjarnasyni menntamálaráðherra í Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum í Hafnarfirði. Opnunin var í tengslum við átaksverkefni BSRB í tölvu- og upplýsingatækni fyrir félagsmenn sína. Átakið felst í að bjóða félagsmönnum um land allt fjölbreytt námskeið um tölvur og tölvunotkun. Hver félagsmaður á að verða fær um að nýta sér tölvur og algengustu tölvuforrit í leik og starfi, þannig að hann geti verið virkur þátttakandi í upplýsinga- og þekkingarsamfélaginu. Áætlað er að fara af stað með um 100 námskeið á þessu ári.

Víðtæk dagskrá hafin

Vika símenntunar stendur 3.-9. september og er á vegum menntamálaráðuneytisins. MENNT - samstarfsvettvangur atvinnulífs og skóla sér um skipulagningu og framkvæmd vikunnar í samvinnu við símenntunarmiðstöðvar víða um land. Víðtæk dagskrá hófst í dag.

Hugmyndafræðin á bak við símenntun er að í samfélagi upplýsinga-, fjarskipta- og stafrænna tækja þar sem örar tækniframfarir og alþjóðavæðing efnahagslífsins á sér stað sé mikilvægt fyrir fyrirtæki og starfsmenn þeirra að viðhalda menntun sinni og þekkingu. Það geti skilið á milli feigs og ófeigs á markaðinum.

Ástæðan fyrir áherslunni á tungumál er að vegna legu landsins og sérstöðu tungumálsins sé kunnátta í erlendum tungumálum nauðsynleg hverjum Íslendingi, sem ætlar að eiga samskipti við aðrar þjóðir. Árið 2001 er jafnframt Evrópskt tungumálaár. Dagskrá viku símenntunar á að höfða til sem felstra. Á dagskrá hennar eru námskynningar, símenntunardagur í fyrirtækjum, málþing, fræðsluhátíð o.fl.

Nefna má að dagurinn í dag verður helgaður bókasöfnum landsins. Á Reykjavíkursvæðinu hefur Borgarbókasafnið skipulagt dagskrá á bókasöfnum borgarinnar.

Málþing á miðvikudag

Málþing verður á morgun á Hótel Loftleiðum 5. september 2001 kl. 13-16, sem ber yfirskriftina "Ísland og umheimurinn - tungumál og tölvukunnátta". Hver er framtíðin - hvert stefnir? Páll Kr. Pálsson forstjóri 3p Fjárhús, Una Eyþórsdóttir, starfsmannastjóri Flugleiða, Eyþór Eðvarðsson IMG, Guðrún Magnúsdóttir forstjóri ESTeam AB, Arthúr Björgvin Bollason, Sögusetrinu á Hvolsvelli, og Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, verða meðal fyrirlesara, auk ávarps Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra.

Umfjöllunarefnin verða m.a. alþjóðlega umhverfið og fyrirtækin, mannauður, staða íslenskunnar í alheimssamfélaginu, ferðaþjónustan og tölvur og breyttir kennsluhættir

Símenntunardagurinn 6/9

Á símenntunardaginn 6. september, er búist við að fyrirtæki tileinki daginn fræðslumálum starfsmanna sinna, og hugi sérstaklega að tungumála- og tölvukunnáttu þeirra. Daginn geta fyrirtæki einnig notað t.d. til að kynna starfsmönnum fræðslustefnu sína, haldið námskeið fyrir starfsmenn eða fengið námskeiðshaldara til liðs við sig til að kynna það sem boðið er upp á í tungumála- og tölvunámi. Einnig er þetta talið kjörið tækifæri fyrir fulltrúa stéttarfélaga til að heimsækja fyrirtæki og kynna með hvaða hætti þau styðja við og stuðla að símenntun félagsmanna sinna.

Fræðsluhátíð í Kringlunni

Fræðsluhátíðir verða haldnar í víða um land helgina 7.-8. september. Hátíðin á höfuðborgarsvæðinu verður haldin í Kringlunni 8. september. Námsframboð á sviði tungumála- og tölvunáms verður kynnt þar sérstaklega, bæði í kynningarbásum og með lifandi kynningum auk almennrar kynningar á möguleikum til símenntunar. Einnig eiga að vera ýmsar skemmtilegar uppákomur. Verslanir og veitingastaðir Kringlunnar taka líklega þátt í hátíðinni með ýmsum hætti, auk þess að hafa opið á meðan á hátíðinni stendur.

Námskeið gefin á Rás 2

Aðstandendur átaksins eru í samstarfi við Ríkísútvarpið í viku símenntunar. Í þættinum "Brot úr degi", sem er á dagskrá virka daga á Rás 2 geta hlustendur hringt inn og unnið námskeið í tungumálum eða tölvum um land allt. Þessi leikur verður einnig á dagskrá í helgarútvarpinu helgina 8.-9. september. Þóra Ragnheiður Stefánsdóttir, verkefnisstjóri viku símenntunar hjá Mennt, segir að hlustendur hafi tekið þessari nýbreytni mjög vel. Hún segir að 5 námskeið víða á landinu verði gefin daglega á Rás 2.

"Vika símenntunar er ætluð öllum," segir Þóra Ragnheiður, og vonast er til að sem flestir verði með; fyrirtæki, starfsmenn og almenningur. Sérstök vefsíða til upplýsingar hefur verið sett upp af þessu tilefni: www.mennt.is/simenntun.