Gestur Þorsteinsson tekur við gjafabréfi úr hendi Björns Eiríkssonar. Viðstaddar eru Kolbrún Marelsdóttir forstöðuþroskaþjálfi og Eygló Guðrún Þorsteinsdóttir.
Gestur Þorsteinsson tekur við gjafabréfi úr hendi Björns Eiríkssonar. Viðstaddar eru Kolbrún Marelsdóttir forstöðuþroskaþjálfi og Eygló Guðrún Þorsteinsdóttir.
BÓKAÚTGÁFAN Skjaldborg hefur gefið Lyngseli í Sandgerði vísi að bókasafni. Svæðisskrifstofa Reykjaness rekur skammtímavistun fyrir fötluð börn í Lyngseli.

BÓKAÚTGÁFAN Skjaldborg hefur gefið Lyngseli í Sandgerði vísi að bókasafni. Svæðisskrifstofa Reykjaness rekur skammtímavistun fyrir fötluð börn í Lyngseli.

Tilgangur skammtímavistunarinnar er að veita fötluðum börnum frístundir við hæfi og hvíla heimilin, að sögn Kolbrúnar Marelsdóttur forstöðuþroskaþjálfa. Þangað koma um 20 börn á mánuði og dvelja frá tveimur dögum og upp í viku í senn og sum koma tvisvar í mánuði. Við heimilið starfa tuttugu manns.

Starfsfólkið hefur haft áhuga á að eignast barnabækur og þar sem engu fé er varið til þess hefur það hringt í bókaforlögin og falast eftir bókum að gjöf. "Skjaldborg tók einstaklega vel í beiðni okkar og kom fram með þá hugmynd að stofna bókasafn hér," segir Kolbrún.

Börnin kunna að meta bækurnar

Skjaldborg gaf Lyngseli 70 barnabækur sem stofn að bókasafni. Fyrirtækið hefur verið að auka útgáfu á barnabókum og rekur barnabókaklúbbinn Lestrarhestinn. Flestar bækurnar hafa verið gefnar út af honum, að sögn Björns Eiríkssonar forstjóra. "Það er nauðsynlegt að bækur séu alls staðar þar sem börn eru. Við fréttum af því að hér væri þörf og fannst gráupplagt að leggja eitthvað af mörkum. Vonandi bæta aðrar bókaútgáfur við," segir Björn.

Kolbrún segir að börnin séu ánægð með bókasafnið og noti bækurnar mikið. Sum lesi sjálf en það þurfi að lesa fyrir önnur. "Jafnvel mikið fötluð börn kunna að meta bækurnar, þau fletta til dæmis litskrúðugum fræðslubókum. Bækurnar auka víðsýni barnanna, örva á margan hátt og eru einnig góð afþreying," segir Kolbrún.