Dr. Christiaan Barnard
Dr. Christiaan Barnard
DR. CHRISTIAAN Neethling Barnard, sem fyrstur varð til þess að græða hjarta í mann, hefur verið minnst víða um heim sem frumherja, sem þorði að fara ótroðnar slóðir. Hann lést á sunnudag, 78 ára að aldri, er hann var í sumarfríi á Kýpur.

DR. CHRISTIAAN Neethling Barnard, sem fyrstur varð til þess að græða hjarta í mann, hefur verið minnst víða um heim sem frumherja, sem þorði að fara ótroðnar slóðir. Hann lést á sunnudag, 78 ára að aldri, er hann var í sumarfríi á Kýpur.

Nelson Mandela, fyrrverandi forseti Suður-Afríku, minntist landa sína, Barnards, í gær og sagði, að hann hefði ekki aðeins verið brautryðjandi í hjartalækningum, heldur einnig verið einarður baráttumaður gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku á sínum tíma. "Dauði hans er mikill missir fyrir okkur öll," sagði Mandela.

Sir Terence English, fyrrverandi forseti Konunglega, breska skurðlæknafélagsins, sagði, að Barnard hefði á sínum tíma verið einn af kunnustu mönnum í heiminum. "Vissulega líkaði mönnum misvel við hann en með honum er genginn merkur maður," sagði English.

Samstarfsmenn Barnards á Groote Schuur-sjúkrahúsinu í Höfðaborg segja, að hann hafi ávallt haft velferð sjúklinganna í fyrirrúmi en þar fyrir utan kunni hann vel að meta frægðina, sem fylgdi fyrstu hjartaígræðslunni 1967.

Eftir að Barnard komst í sviðsljósið fóru sumir að líta á hann sem hálfgerðan glaumgosa, sem kynni best við sig innan um kvikmyndastjörnur og annað frægt fólk. Hann var þríkvæntur og voru tvær eiginkonur hans honum miklu yngri. Skildi hann við þriðju eiginkonuna í fyrra en hún var aðeins tveggja ára er hann komst í heimsfréttirnar 1967.

Dr. Bernard Mandell, forseti suður-afrísku læknasamtakanna, segir, að Barnard hafi einu sinni sagt, að ætti hann að velja á milli Nóbelsverðlaunanna og kvenna, myndi hann velja konurnar.

"Þannig var hann. Engin hjúkrunarkona á sjúkrahúsinu var með öllu óhult," sagði Mandell.

Margir fleiri, læknar og frammámenn, hafa minnst Barnards með virðingu en hann sat við hótellaug í bænum Paphos á Kýpur er kallið kom. Var hann þá að lesa eina af sínum eigin bókum.

Jóhannesarborg. AP.