Haukar og Víkingar unnu ÍSLANDS- og bikarmeistarar Hauka í handknattleik hófu keppnistímabilið líkt og þeir enduðu það síðasta í vor. Haukar tryggðu sér um helgina sigur á opna Reykjavíkurmótinu með því að leggja granna sína úr FH í úrslitaleik, 33:23.

Haukar og Víkingar unnu

ÍSLANDS- og bikarmeistarar Hauka í handknattleik hófu keppnistímabilið líkt og þeir enduðu það síðasta í vor. Haukar tryggðu sér um helgina sigur á opna Reykjavíkurmótinu með því að leggja granna sína úr FH í úrslitaleik, 33:23. Haukar höfðu undirtökin í leiknum allan tímann. Þeir höfðu sex marka forystu í leikhléi, 17:11, og í síðari hálfleik gáfu þeir grönnum sínum engin grið og unnu tíu marka sigur. Jón Karl Björnsson var markahæstur í liði Hauka með 10 mörk, Einar Örn Jónsson skoraði 8 og Rúnar Sigtryggsson 4 en besti maður vallarins var Magnús Sigmundsson sem varði 26 skot, þar af fimm vítaköst. Haukar fengu lítinn tíma til að fagna því í gærmorgun hélt liðið í æfingaferð til Þýskalands og Hollands.

Hjá FH-ingum, sem léku án Héðins Gilssonar og Bergsveins Bergsveinssonar í úrslitaleiknum, voru þeir Sigurgeir Á. Ægisson og Andri Berg Haraldsson markahæstir með 5 mörk og Björgvin Rúnarsson skoraði 4. Í leiknum um þriðja sætið sigraði KA lið Gróttu/KR með 10 marka mun en engu að síður varð lið Gróttu/KR Reykjavíkurmeistari.

Í kvennaflokki voru það Víkingar og Íslandsmeistarar Hauka sem léku til úrslita og eftir jafnan og spennandi leik höfðu Víkingar betur, 18:17. Staðan í hálfleik var jöfn, 9:9, en í síðari hálfleik virtist sem Haukar væru að síga frammúr. Haukarnir komust í 16:13 en Víkingsstúlkur neituðu að gefast upp og náðu að knýja fram sigur á lokasekúndunum.

Helga Birna Brynjólfsdóttir, fyrirliði, var markahæst í liði Víkings með 5 mörk, Guðrún Hólmgeirsdóttir skoraði 4 og þær Helga Guðmundsdóttir og Margét Egilsdóttir skoruðu 3 hvor. Hjá Haukum var Harpa Melsted atkvæðamest með 7 mörk, Brynja Steinsson skoraði 4 og Inga Fríða Tryggvadóttir 3.