ÁFENGISAUGLÝSINGAR hafa undanfarið verið birtar í sjónvarpi þrátt fyrir að slíkar auglýsingar séu bannaðar. Þar hafa hagsmunaaðilar tekið sér frelsi til að auglýsa vöru sem bannað er að auglýsa af því að þeim finnst bannið ekki réttlátt.

ÁFENGISAUGLÝSINGAR hafa undanfarið verið birtar í sjónvarpi þrátt fyrir að slíkar auglýsingar séu bannaðar. Þar hafa hagsmunaaðilar tekið sér frelsi til að auglýsa vöru sem bannað er að auglýsa af því að þeim finnst bannið ekki réttlátt. Það er í raun ótrúlegt að í fyrsta lagi skuli auglýsendur ganga á svig við þessar reglur, í öðru lagi að auglýsingagerðarfólk skuli fást til að gera slíkar auglýsingar og í þriðja lagi að fjölmiðlarnir skuli birta auglýsingarnar. Og í fjórða lagi að þetta sé látið nánast átölulaust af þar til bærum yfirvöldum. Reglurnar eru skýrar frá Alþingi, en böndin berast að þeim sem á ábyrgan hátt fjalla um þessi mál á opinberum vettvangi, t.d. SÍA - samband íslenskra auglýsingastofa - á heimasíðu sinni. Þar er tengill í áfengislögin og þar blasir við fyrst og fremst: ,,Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Enn fremur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu." Og í siðareglum SÍA sem finna má á sömu heimasíðu: ,,Auglýsendur, semjendur auglýsinga og auglýsingastofur, svo og útgefendur og eigendur fjölmiðla skulu gæta þess að farið sé að lögum er kveða á um auglýsingar á einstökum vörutegundum og þjónustu, hvort sem um er að ræða sérstakar reglur um meðferð þeirra eða bann við auglýsingum." Nú getur verið að framleiðandi auglýsingarinnar sé alls ekki í SÍA en ábyrgðin er hin sama. Það má lesa út úr því að tilmæli eru frá SÍA í þessum texta til auglýsenda, útgefenda og eigenda fjölmiðla sem varla eru innan vébanda sambandsins. Undirritaður leitast hér við að benda á þær mótsagnir sem við leyfum okkur sum hver en náum síðan ekki upp á nefið á okkur þegar aðrir eiga í hlut sem ekki geta farið eftir reglum. Það er grundvallaratriði í samfélagi manna að allir virði og fari eftir þeim leikreglum sem settar hafa verið - jafnvel þótt ýmsum kunni að virðast þær fáránlegar. Þá verða menn að beita sér fyrir reglubreytingum með málefnalegum hætti. Lög um bann við áfengisauglýsingum eru fyrst og fremst byggð á velferðarsjónarmiðum um vernd barna og ungmenna. Mörg fyrirtæki svífast greinlega einskis í þessum efnum og beita sér þar með fyrir aukinni áfengisneyslu ungmenna með beinum og óbeinum auglýsingum sem oftar en ekki er sérstaklega ætlað að höfða til ungs fólks. Foreldrar og fólk sem ber velferð ungu kynslóðarinnar fyrir brjósti ætti að sýna hug sinn í verki með að sniðganga með öllu viðskipti við slíka aðila.

ÁRNI GUÐMUNDSSON,

æskulýðsfulltrúi Hafnarfjarðar,

Hjallabraut 84.

Frá Árna Guðmundssyni: