LÍTIL auglýsing frá R.B. íbúðagistingu í Vestmannaeyjum birtist í dagblaði síðsumars og hófst á þessum orðum: Láttu drauminn rætast, komið til Eyja og bjargið lundapysjunum.

LÍTIL auglýsing frá R.B. íbúðagistingu í Vestmannaeyjum birtist í dagblaði síðsumars og hófst á þessum orðum: Láttu drauminn rætast, komið til Eyja og bjargið lundapysjunum. Varð til þess að mikill fjöldi fólks hafði samband og pantaði gistingu fyrir sig og börnin til að koma til Eyja og bjarga nokkrum lundapysjum þegar þær hleyptu heimdraganum og flugu á ljósin í bænum í byrjun ágúst.

Lundapysjutíminn fór rólega af stað og telja helstu lundapysjusérfræðingar í Eyjum að pysjurnar muni láta sjá sig í bænum fram undir miðjan september svo nægur tími er eftir.

Það hefur færst í vöxt á umliðnum árum að fólk af fastalandinu kemur til Eyja með börnin sín til að bjarga lundapysjum og sleppa þeim í sjóinn eins og gert hefur verið í Eyjum svo lengi sem elstu menn muna. Sérstaklega hefur verið til þess tekið hvað margir hermenn af Keflavíkurflugvelli koma til Eyja með fjölskyldur sínar til að taka þátt í lundapysjuævintýrinu.

R.B. íbúðagisting hefur sérútbúið aðstöðu hjá sér til þess að taka á móti fólki á lundapysjuveiðum. Sérstakir kassar fylgja íbúðum hjá þeim sem börnin safna pysjunum í, og eins er stór hólfuð tunna til að geyma pysjurnar í ef veiðin verður mikil . Þá fylgir hverjum kassa eyðublað þar sem börnin færa inn hvað margar pysjur þau fanga og hvað mörgum er sleppt og hvar. Að sögn Braga Ingibergs Ólafssonar er hugmyndin á næsta ári að verðlauna það barn sem bestum árangri hefur náð. Bragi Ingiberg sagði að pysjuveiðarnar í haust hefðu gengið ágætlega og gerir hann ráð fyrir því að pysjur sjáist á stjái fram í september. Þá hafi börnin einnig í ríkara mæli bjargað rituungum, einstaka skrofu og þeir alhörðustu taka fýlsunga þó svo þeir lykti illa.