VLADIMÍR Pútín, forseti Rússlands, sagði í opinberri heimsókn til Finnlands í gær að skyldi Eystrasaltslöndunum þremur - sem í nokkra áratugi voru hluti Sovétríkjanna - verða boðin aðild að Atlantshafsbandalaginu yrðu þar með gerð alvarleg mistök sem...

VLADIMÍR Pútín, forseti Rússlands, sagði í opinberri heimsókn til Finnlands í gær að skyldi Eystrasaltslöndunum þremur - sem í nokkra áratugi voru hluti Sovétríkjanna - verða boðin aðild að Atlantshafsbandalaginu yrðu þar með gerð alvarleg mistök sem ekki hefðu annan tilgang en að færa ytri mörk bandalagsins upp að landamærum Rússlands.

"Ég legg áherzlu á að það eru engar hlutlægar forsendur fyrir stækkun [NATO] né inngöngu Eystrasaltslandanna," sagði Pútín í Helsinki eftir viðræður við Törju Halonen, forseta Finnlands.

Sagði Pútín að stjórnvöld í Moskvu virtu sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna - Eistlands, Lettlands og Litháens - "en NATO-aðild þeirra myndi ekki leysa nein hnattræn vandamál né bæta öryggi í Evrópu". Pútín bar lof á hlutleysisstefnu Finna, sem að hans mati hefði "lagt mikilvægan skerf" til stöðugleika á Eystrasaltssvæðinu. Halonen hikaði hins vegar ekki við að ítreka óskoraðan stuðning Finna við að NATO verði við beiðni Eystrasaltslandanna um að fá aðild að bandalaginu.

Í tveggja daga Finnlandsheimsókn Pútíns, sem lauk í gær, þótti marka tímamót að hann varð fyrsti þjóðhöfðingi Rússa til að leggja blómsveig að leiði C.G.E. Mannerheims marskálks, yfirhershöfðingja Finna í Vetrarstríðinu og "framhaldsstríðinu" við Rauða herinn 1939-1944.

Helsinki. AP, AFP.