BYGGING hringleikahússins Colosseum í Róm gæti hafa verið fjármögnuð að hluta til með herfangi frá Jerúsalem, að því er bandarískur fræðimaður heldur fram.

BYGGING hringleikahússins Colosseum í Róm gæti hafa verið fjármögnuð að hluta til með herfangi frá Jerúsalem, að því er bandarískur fræðimaður heldur fram.

Louis Feldman, prófessor við Yeshiva-háskólann í New York, heldur því fram í grein í nýjasta tölublaði Biblical Archaeology Review að horfin áletrun á steinplötu í hringleikahúsinu gefi til kynna að það hafi verið fjármagnað með herfangi. Feldman bendir á að bygging Colosseum hafi hafist skömmu eftir að rómverskar hersveitir náðu Jerúsalem á sitt vald og lögðu Musteri Salómóns í rúst, og segir hann mögulegt að draga þá ályktun að hringleikahúsið hafi að einhverju leyti verið fjármagnað með ránsfengnum þaðan.

Musteri Salómóns í Jerúsalem, sem Heródes byggði við og stækkaði til muna, mun hafa verið einstaklega ríkulegt. "Þar sem [musterið] var þakið gullplötum á öllum hliðum stafaði af því svo sterkri birtu í sólskini að fólk gat ekki horft beint á það," segir í frásögn samtímasagnaritarans Josephusar.

Gyðingar gerðu uppreisn gegn yfirráðum Rómverja í Júdeu árið 66 e.Kr. og rómverskt herlið undir stjórn Títusar, sem síðar varð keisari, var sent þangað til að kveða uppreisnina niður. Jerúsalem féll árið 70 og musteri Salómóns var lagt í rúst. Ekkert stendur nú eftir af musterinu nema vesturveggur þess, Grátmúrinn svonefndi, sem er helgasti staður gyðinga. Á Títusarboganum í Róm má enn greina steinristur sem sýna rómverska hermenn bera herfangið frá Jerúsalem.

Bygging Colosseum hófst um svipað leyti, um 70-72 e.Kr., og var hringleikahúsið vígt árið 80, í keisaratíð Títusar.

Feldman byggir kenningu sína á rannsóknum Geza Alföldy, prófessors við Heidelberg-háskóla í Þýskalandi. Alföldy tók eftir því að á steinplötu í Colosseum, þar sem rist hafði verið áletrun sem greindi frá viðgerðum á hringleikahúsinu, var að finna för eftir málmnagla, sem virtust hafa verið reknir inn í steininn til að festa áletrun úr málmstöfum, er síðar hafi verið fjarlægð. Prófessorinn rýndi í förin og taldi sig ráða úr þeim áletrun, sem sýnd er á meðfylgjandi korti.

Skiptar skoðarnir á kenningu Feldmans

Samkvæmt ráðningu Alföldys stóðu meðal annars á steinplötunni orðin ex manubiis, eða "úr herfangi". Feldman dregur af þessu þá ályktun að bygging Colosseum hafi verið fjármögnuð með herfanginu frá Jerúsalem, enda hafi Rómverjar haft lítinn ránsfeng úr öðrum herförum á þessum tíma. "Satt er að það má greina mismunandi stafi úr förunum eftir málmnaglana og að ráðningin sé því einungis byggð á getgátum," segir Feldman. "En þetta kemur samt heim og saman við hinn gríðarmikla ránsfeng sem Títus hafði á brott með sér frá Jerúsalem."

Skoðanir fræðimanna á kenningu Feldmans eru skiptar. William Dever, prófessor í fornleifafræði við Arizona-háskóla sem starfaði í mörg ár í Jerúsalem, segir kenninguna rökrétta en "nokkuð langsótta". Hann segir rétt að musteri Salómóns hafi verið stórfenglegt og að Rómverjar hafi rænt það, en telur óvarlegt að draga slíkar ályktanir af aðeins tveimur orðum.

Washington. AP.