Andri Sigþórsson, Helgi Sigurðsson og Pétur Marteinsson fagna Eyjólfi Sverrissyni eftir að hann hafði skorað fyrra mark sitt gegn Tékkum og fyrsta mark íslenska liðsins.
Andri Sigþórsson, Helgi Sigurðsson og Pétur Marteinsson fagna Eyjólfi Sverrissyni eftir að hann hafði skorað fyrra mark sitt gegn Tékkum og fyrsta mark íslenska liðsins.
EYJÓLFUR Sverrisson, fyrirliði íslenska landsliðsins, sýndi og sannaði hversu frábær leiðtogi hann er á vellinum. Hann stjórnaði vörn íslenska liðsins eins og hershöfðingi og skoraði tvö frábær mörk - mörk sem slógu Tékka gjörsamlega út af laginu. Eyjólfur var að leika sinn 64. landsleik og spurning hvort þessi leikur toppar ekki langan og glæsilegan feril hans með landsliðinu.

Leikurinn fer klárlega í hóp með bestu og skemmtilegustu landsleikjunum sem ég hef spilað. Við lögðum að velli heimsklassalið og það er virkilega gaman að hafa átt þátt í því. Ég tel þessi úrslit meira afrek heldur en þegar við gerðum jafntefli við Frakkana. Við spiluðum miklu betur nú en þá en auðvitað mega menn ekki gleyma góðum sigrum eins og þegar við unnum Spánverja hérna um árið."

Hverju vilt þú þakka sigurinn?

"Það er þessi liðsheild sem við höfum verið að byggja upp síðustu árin. Við erum með miklar færslur í liðinu og hjálpum hver öðrum út um allan völl. Við vinnum sem eitt lið enda vitum við þegar við mætum svona stjörnuprýddu liði að ekki tökum við þá maður á móti manni heldur verðum við að hjálpast að."

Hvaða þýðingu hefur þessi sigur fyrir áframhaldið í keppninni?

"Með þessum sigri höfum við galopnað riðilinn og fyrir okkur er þetta að verða algjört ævintýri. Í síðustu keppni blönduðum við okkur í toppbaráttuna og gerum það aftur núna svo það segir okkur að við séum á réttri leið. Við höfum náð þetta langt á góðri liðsheild. Menn hafa ekki gert allt upp á eigin spýtur og samheldnin í liðinu hefur verið til fyrirmyndar."

Eins og leikurinn þróaðist þá hljótið þið að hafa andað léttar þegar Koller fékk að líta rauða spjaldið?

"Það auðveldaði okkur mjög í leiknum að losna við Koller en við gerðum okkur samt vel grein fyrir því að þeir með það sterkt lið og fljóta menn að við máttum alls ekkert slaka á. Menn voru á tánum allan leikinn og ég var bjartsýnn allt frá fyrstu mínútum leiksins á að við myndum ná góðum úrslitum. Fyrsta markið kom á frábærum tíma og það tók mig svolitla stund að átta mig á því að boltinn fór í netið."

Hvað flaug gegnum kollinn á þér rétt áður en þú tókst aukaspyrnuna og skoraðir þriðja markið?

"Ég sagði við Jóhannes Karl að ég ætlaði að skjóta á markið og Pétur hvíslaði í eyrað á mér. "Stade de France bara í fjærhornið." Ég hló að þessu en ákvað um leið að spyrna boltanum í hitt hornið enda veit ég að maður skorar aldrei nákvæmlega eins mörk. Ég sá ekki alveg strax hvert boltinn fór en þegar ég áttaði mig á því að hann hafið farið inn fann ég sömu gleðitilfinninguna og þegar ég skoraði á móti Frökkum."

Þið hafið lítinn tíma til að fagna þessum sigri.

"Það byrjar aftur á núlli á móti N-Írunum. Það er ekkert sjálfgefið í þessu og við vitum að við verðum að standa okkur vel í þeim leik til að eiga möguleika á sigri. Við megum alls ekki ofmetnast og liðið þarf að gara nákvæmlega það sama og það gerði nú í leiknum við N-Íra."

Fannst ykkur þessi umræða fyrir leikinn að Guðni Bergsson ætti að vera í liðinu hjálpa ykkur að komast í stemmningu fyrir leikinn?

"Mér fannst þessi umræða mjög hlægileg og algjört grín. Það voru vinir og vandamenn Guðna Bergssonar sem voru að tjá sig um þetta mál í blöðunum ásamt KSÍ-mönnum og fréttamönnum. Hvorki Guðni né landsliðsmenn hafa tjáð sig um þetta mál og við strákarnir höfum meira og minna hlegið að þessari umræðu."

Guðmundur Hilmarsson skrifar