Atli Eðvaldsson landsliðsþjálfari fylgist með síðustu mínútum landsleiks Íslands og Tékka. Hann segir leikinn í Belfast á morgun verða síst auðveldari en viðureignin við Tékka.,
Atli Eðvaldsson landsliðsþjálfari fylgist með síðustu mínútum landsleiks Íslands og Tékka. Hann segir leikinn í Belfast á morgun verða síst auðveldari en viðureignin við Tékka.,
Ísland bar sigurorð af einu fremsta knattspyrnuliði Evrópu, því tékkneska, í eftirminnilegum leik á Laugardalsvelli á laugardaginn. Skammt er stórra högga á milli því annað kvöld leikur landsliðið gegn Norður-Írum í Belfast. Víðir Sigurðsson fylgdi liðinu þangað á sunnudaginn og ræddi við Atla Eðvaldsson, landsliðsþjálfara, um Tékkaleikinn, aðdraganda hans og útkomu, og verkefnið sem framundan er í norður-írsku höfuðborginni.

Atli Eðvaldsson er ekki í vafa um að Ísland hafi síðasta laugardag unnið sitt stærsta afrek í knattspyrnusögunni til þessa þegar Tékkar voru sigraðir, 3:1, á Laugardalsvellinum. Hann bendir jafnframt á að liðið hafi nú skorað 14 mörk, fleiri en nokkru sinni fyrr á stórmóti, og hafi skapað sér það mörg marktækifæri í leiknum og öðrum þar á undan að markatalan gæti verið enn hagstæðari en hún er nú. Hann er jafnframt ómyrkur í máli í kjölfar neikvæðrar umræðu um liðsvalið fyrir leikinn og segir að þeir sem stóðu fyrir henni beri ábyrgð á því að þúsund áhorfendur vantaði upp á að Laugardalsvöllurinn væri fullskipaður.

Íslenska landsliðið kom til Norður-Írlands síðdegis á sunnudag og hóf þar undirbúninginn fyrir næstsíðasta leikinn í undankeppni HM, sem er gegn Norður-Írum á Windsor Park í Belfast annað kvöld. Atli sagði við Morgunblaðið eftir komuna þangað að leikurinn á laugardaginn hefði verið í einu orði sagt frábær.

"Við höfum áður náð eftirtektarverðum úrslitum og þar má nefna jafnteflið gegn Sovétríkjunum í Moskvu og gegn Frökkum á Laugardalsvelli. En það voru jafntefli - þetta var sigur og að auki þrjú mörk gegn þessari þjóð. Það hefur ekki áður gerst þegar Ísland hefur mætt liði í þessum styrkleikaflokki þannig að þetta er í mínum huga stærsta stundin í knattspyrnusögu okkar til þessa. En ég tel jafnframt að þessi úrslit séu ekki eins óvænt og margir telja. Búlgaría og Pólland eru í efstu sætum sinna riðla í undankeppni HM og við höfum gert jafntefli við bæði liðin á þessu ári. Sigur á Tékkum er því engin tilviljun, við erum að spila jafna og góða leiki, skorum mörk og erum til alls líklegir gegn hverjum sem er. Við erum markahæsta liðið í okkar riðli ásamt tveimur öðrum, komnir með 14 mörk, og það er mjög jákvætt. Mér finnst vera stígandi í liðinu, við höfum bætt okkur frá síðasta ári og erum farnir að sækja meira og spila 4-3-3 á stórum köflum í leikjum, enda stilltum við upp þremur sóknarmönnum í þessum leik gegn Tékkum."

Sumum þótti það einmitt nokkuð djarft teflt gegn Tékkum að nota þessa leikaðferð. Varstu hikandi við að beita henni?

"Nei, alls ekki. Málið er það að við höfum að mestu leikið 4-4-2 til þessa og ef menn kunna það, eiga þeir að vera opnir fyrir breytingum út frá því. Sú aðferð byggist á því að valda sem stærst svæði á vellinum á sem skynsamlegastan hátt. Með því að fara í 4-3-3 nýtum við Eið Smára betur. Hann þarf meira pláss, ef hann er í framlínunni er hann alltaf með mann í bakinu, en með því að draga hann út á kantinn fær hann fleiri tækifæri til þess að sprengja upp vörn mótherjanna, og hann er farinn að gera það í hverjum leik; rétt eins og þegar hann lagði upp annað markið okkar."

Sóknarleikur Tékka byggðist allur í kringum Jan Koller. Hversu mikil áhrif hafði það á leikinn að hann skyldi fá rauða spjaldið?

"Tékkarnir stíluðu vissulega mjög inná styrk Kollers, enda er hann gífurlega stór og sterkur sóknarmaður. En við vorum tilbúnir til þess að kljást við hann í 90 mínútur og gekk mjög vel með hann. Við vissum að þeir myndu keyra mjög á okkur í byrjun og senda boltann mikið til Kollers.

Hermann, Eyjólfur og jafnvel Jóhannes Karl réðust að honum og sýndu honum enga miskunn. Hann varð pirraður og það endaði með því að hann hrækti á Hermann og fékk rauða spjaldið fyrir óíþróttamannslega framkomu. Þetta er staða sem við þekkjum vel af eigin reynslu eftir að hafa verið manni færri gegn Dönum og Búlgörum. Þessi lið fengu ekki mörg færi gegn okkur manni fleiri, en við nýttum okkur þetta hins vegar til að skora þrjú mörk og skapa mikið af færum. Að sjálfsögðu breytti brottrekstur hans miklu, þegar þessi risinn var farinn þurfti ekki að hafa jafnmiklar áhyggjur af skallaboltunum og Tékkarnir voru ekki bitmiklir eftir það. Í raun gerðist þrennt mjög afgerandi á mjög skömmum tíma. Koller var rekinn af velli, við skoruðum fyrsta markið strax á eftir og síðan var flautað til leikhlés. Atburðarásin var okkur hagstæð.

Seinni hálfleikurinn byrjaði hinsvegar illa og fór af stað eins og Danaleikurinn þróaðist þegar við náðum forystunni. Okkur vantar að geta haldið áfram af sama krafti eftir að við skorum mark. Menn urðu skelkaðir, vildu ekki gera mistök, og hleyptu þar með mótherjunum of mikið inn í leikinn. Í þetta sinn tók það okkur aðeins 10-12 mínútur að brjóta okkur út úr þessu og leikur okkar varð miklu betri. Við sköpuðum okkur fleiri færi, skoruðum annað mark og síðan það þriðja, og við höfum sjaldan eða aldrei fengið jafn mörg færi gegn stórþjóð."

Hvaða veganesti höfðuð þið úr fyrri leiknum við Tékka þar sem þið fenguð slæman skell, 4:0?

"Við skoðuðum mjög vel það sem fór úrskeiðis í þeim leik og fengum stráka á Laugarvatni til að klippa saman atvik úr leiknum fyrir okkur, sem þeir gerðu mjög vel. Við sáum vel hvað Tékkarnir reyndu mest, Nedved og Rosicky keyrðu í gegnum miðjuna og opnuðu hjá okkur vörnina. Til að stöðva þetta settum við Pétur Marteinsson sem varnartengilið, og það tókst frábærlega.

Hann, Hermann og Eyjólfur áttu allir stórleik og fengu góðan stuðning frá bakvörðunum, þeim Arnari Þór, sem vex með hverjum leik, og Auðuni sem spilaði sinn besta leik í langan tíma. Liðið í heild leysti leikinn eins og best varð á kosið, og það þó okkur vantaði þrjá af fastamönnum okkar, Rúnar, Ríkharð og Brynjar. Jóhannes Karl kom inn í sinn fyrsta stórleik og pakkaði Nedved saman og stóðst tilraunir hans til að koma honum af velli með rautt spjald. Andri var öðru sinni í byrjunarliði og skoraði aftur gegn sterku liði, Arnar Grétarsson vann vel á miðjunni, Eiður Smári var hættulegur þegar hann fór af stað, Helgi Sigurðsson skilaði vængstöðunni hægra megin vel, og allir varamennirnir komu af krafti inn í leikinn."

Verður ekki erfitt að mæta Norður-Írum í Belfast eftir þessi úrslit? Er ekki hætt við að leikmennirnir fari í þann leik með minni krafti og einbeitingu en gegn Tékkum?

"Við verðum að gá að því að Norður-Írar hafa tekið fjögur stig af Dönum með tveimur jafnteflum, voru óheppnir að fá á sig mörk á síðustu mínútum gegn Tékkum og Búlgörum, og eins gegn okkur. Þeir gætu með smá heppni verið komnir með 10-12 stig í riðlinum og þeir telja sig, líkt og við, hafa sýnt framfarir í sínum leik. Leikurinn hér í Belfast verður síst auðveldari en leikurinn við Tékka og við megum búast við allt öðruvísi fótbolta, sem reyndar ætti að henta okkur ágætlega. Norður-Írarnir eru líkamlega sterkir og spila fast, svipað og við höfum oft gert. Við erum þó með meiri blöndu af leikmönnum sem standa þeim framar í hraða og tækni. En það sem þeir hafa fram yfir okkur er að þeir spila allir með breskum liðum sem eru með sömu áherslur, á meðan okkar strákar koma úr ýmsum áttum. Ég á von á því að þeir spili 4-5-1, eins og þeir gerðu gegn okkur heima og í Danmörku, þó þeir hafi reyndar líka skipt í 4-4-2."

Þú hefur verið tregur til að gefa eitthvað út um möguleikana í riðlinum en eftir sigurinn á Tékkum getur ýmislegt gerst, ekki satt?

"Það er svipað að spá í stigatöfluna og að vera með vangaveltur á hlutabréfamarkaðnum. Allar forsendur geta hrunið áður en byrjað er að spila. Ég vil spyrja að leikslokum, einbeita mér að næsta verkefni, sem er að reyna að fá sem mest út úr leiknum hér í Belfast. Auðvitað eru allir að reyna að reikna út okkar möguleika en þetta stóra "ef" sem allt byggist á er ekki til. Staðreyndirnar tala en ef við vinnum Norður-Íra verður að sjálfsögðu komin skýrari mynd á stöðuna fyrir lokaumferðina í riðlinum og þá vitum við betur hvað við þurfum að gera."

Það var mikil umræða um Guðna Bergsson fyrir leikinn við Tékka; hvers vegna hann væri ekki valinn í liðið. Hversu mikil áhrif hafði þetta á undirbúning liðsins?

"Þetta var fimmti leikurinn í röð þar sem umræða um eitthvað allt annað en hann fór í gang á síðustu dögunum. Svona lagað er alltaf mjög truflandi, bæði fyrir þjálfara og leikmenn, og síðan segjast þeir sem komu þessu af stað eiga stærstan þátt í sigrinum því þeir hafi hrist upp í liðinu! Þetta hafði mjög neikvæð áhrif, ekki síst á strákana sem komu heim til að spila fyrir Íslands hönd og voru dregnir inn í umræðuna á þann hátt að þeir væru ekki nógu góðir og hefðu átt að víkja fyrir Guðna. Ég nefni Arnar Þór Viðarsson í því tilfelli, hann fékk óvægna gagnrýni að ósekju en sem betur fór átti hann einn sinn besta landsleik gegn Tékkum. Það er allt í lagi að gagnrýna mig fyrir að velja ekki einhvern í liðið, en það er óréttlátt að láta það bitna á leikmönnunum sem eru valdir í liðið og svara því kalli.

Umræður af þessu tagi mega ekki koma niður á undirbúningi og stemmningu fyrir landsleiki en því miður gerðist það í þetta skipti. Þessi neikvæða umræða kom í veg fyrir að við lékjum þennan magnaða leik fyrir fullum Laugardalsvelli. Það vantaði eitt þúsund áhorfendur, sem komu ekki til að sjá okkur gegn einu besta liði heims vegna þess að þeir létu þessa umræðu trufla sig. Þetta gekk svo langt að á einhverjum netsíðum voru menn hreinlega hvattir til þess að mæta ekki á völlinn. Þegar svona múgæsing fer af stað og dómstóll götunnar tekur til starfa fara margir að kreppa hnefana og blóta þó þeir þekki ekki málin til hlítar. Það eru fáir einstaklingar sem standa fyrir þessari umræðu en þeir hafa haft áhrif. Þeir sem vilja landsliðinu vel sjá þetta og eru undrandi á hve furðulegum aðferðum er beitt til að koma mönnum úr jafnvægi. Þessi umræða var hlægileg allan en hún hafði neikvæð áhrif og pirraði leikmenn og þá sem standa í kringum landsliðið á slæmum tíma. Ég vona bara að þetta líði hjá. Þeir, sem á annað borð vilja sjá, vita að við erum að gera rétta hluti."