JOSEF Chovanec þjálfari tékkneska liðsins var ekki upplitsdjarfur þegar hann mætti á blaðamannafund eftir leik og af svipbrigðum hans mátti ráða að honum var greinilega brugðið eftir 3:1 tap á Laugardalsvelli gegn Íslendingum.
JOSEF Chovanec þjálfari tékkneska liðsins var ekki upplitsdjarfur þegar hann mætti á blaðamannafund eftir leik og af svipbrigðum hans mátti ráða að honum var greinilega brugðið eftir 3:1 tap á Laugardalsvelli gegn Íslendingum. "Úrslit leiksins eru mikil vonbrigði fyrir tékknesku þjóðina, leikmenn og alla aðra sem að liðinu koma. Við reiknuðum ekki með að úrslit leiksins yrðu eins og raunin varð en markmiðið var að ná þremur stigum á Íslandi," sagði Chovanec í hálfum hljóðum. "Að sjálfsögðu gerði það okkur erfitt fyrir að missa Koller út af í lok fyrri hálfleiks, en dómarinn sá eitthvað athugavert og brást við því, og því get ég ekki sagt hvort ákvörðun hans hafi verið rétt, en þessi ákvörðun gerði Íslendingum auðveldara fyrir í framhaldinu." Aðspurður sagði Chovanec að íslenska liðið hefði ekki komið sér á óvart. "Við vissum vel að íslenska liðið er vel skipulagt og við höfðum séð nokkra leiki með liðinu. Það sem kom mér á óvart var agaleysi minna manna og það er á þessari stundu það sem ég er ósáttur við. Við getum ekki spáð mikið í framhaldið, möguleikar okkar eru ekki úr sögunni fyrr en síðasta leik okkar er lokið.