SIGUR íslenska landsliðsins í knattspyrnu í leiknum gegn Tékkum síðastliðinn laugardag gefur liðinu óvænta möguleika á að komast í lokakeppni HM í fyrsta skipti.

SIGUR íslenska landsliðsins í knattspyrnu í leiknum gegn Tékkum síðastliðinn laugardag gefur liðinu óvænta möguleika á að komast í lokakeppni HM í fyrsta skipti. Frábær frammistaða liðsins kom sennilega flestum á óvart en þó líklega engum eins og tékkneska liðinu sem fékk það óþvegið í fjölmiðlum í heimalandinu í kjölfar leiksins. Þar er talað um ósigurinn sem mestu niðurlægingu tékkneskrar knattspyrnu frá upphafi. Þetta er hins vegar ein af glæsilegustu stundunum í íslenskri knattspyrnusögu og Víkverji óskar landsliðinu og þjálfara þess til hamingju með árangurinn. Þjálfarinn átti undir högg að sækja fyrir leikinn þar sem spjótin stóðu á honum úr öllum áttum, en ásamt liðinu stendur hann nú uppi sem sannkallaður sigurvegari.

NÚ er rétt rúmlega mánuður þangað til Smáralindin verður opnuð en bygging þessarar risavöxnu verslunarmiðstöðvar (á íslenskan mælikvarða) er nú á lokastigi. Húsnæðið er hvorki meira né minna en 63 þúsund fermetrar og auk verslana af öllu tagi verða í því fimm kvikmynda- og ráðstefnusalir sem samtals taka í sæti rúmlega eitt þúsund manns. Áætlaður heildarkostnaður við þetta stórhýsi er um tíu milljarðar króna og spá þeirra sem að Smáralindinni standa gerir ráð fyrir að ársveltan verði 12-14 milljarðar króna, en eftir opnun verða starfsmenn í Smáralindinni 800 til 1.200 talsins. Þá er gert ráð fyrir að fjöldi gesta sem heimsækja Smáralindina árlega verði um fimm milljónir, en það þýðir að hver einasti einstaklingur hér á landi komi þangað tuttugu sinnum á ári.

MARGIR velta því eflaust fyrir sér hvort markaður sé fyrir allar þær verslanir sem verða á höfuðborgarsvæðinu eftir opnun Smáralindar, en þeir sem að henni standa reikna með að markaðshlutdeild Smáralindar á höfuðborgarsvæðinu verði 10-12%. Svo stór biti af kökunni kemur eflaust til með að rýra hlut þeirra sem fyrir eru á markaðnum og fróðlegt verður að sjá hverjar afleiðingarnar verða. Helsti keppinautur Smáralindar um hylli viðskiptavina verður vafalaust Kringlan, sem þegar hefur boðað ýmsar breytingar til að standast betur samkeppnina. Þar vegur sennilega einna þyngst að Bónus mun opna matvöruverslun í Kringlunni, en lágvöruverslun af því tagi mun vafalítið laða fleiri viðskiptavini á staðinn en hingað til. Þá er það stór spurning hvaða áhrif Smáralindin kemur til með að hafa á verslanir við Laugaveginn og aðra verslunarkjarna á höfuðborgarsvæðinu.

LOKS vaknar sú spurning hvaða áhrif þessi viðbót í verslun hefur á verðlag. Fyrirfram verður að gera ráð fyrir að þessi aukna samkeppni í verslun muni leiða til lægra vöruverðs og þannig koma neytendum til góða, en einhverjir verða væntanlega að greiða þann fórnarkostnað sem óhjákvæmilegur er. Sú kjarabót sem þetta gæti þýtt fyrir neytendur er að sjálfsögðu kærkomin og þá ekki síst nú þegar almennur samdráttur er víða farinn að gera vart við sig og gamli verðbólgudraugurinn er á ný farinn að gera mönnum nokkra skráveifu.