TAP Plastprents hf. á fyrstu sex mánuðum ársins 2001 nam 88 milljónum króna en 6 milljóna tap var á sama tímabili í fyrra. Rekstrartekjur jukust milli ára um 38% og námu 731 milljón króna.

TAP Plastprents hf. á fyrstu sex mánuðum ársins 2001 nam 88 milljónum króna en 6 milljóna tap var á sama tímabili í fyrra. Rekstrartekjur jukust milli ára um 38% og námu 731 milljón króna. Í tilkynningu frá félaginu segir að meginskýringin á auknum tekjum sé kaup á meirihluta í Akoplastos hf. í lok síðastliðins árs. Rekstrargjöld hækkuðu um 39% milli ára og námu 704 milljónum í ár. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 27 milljónir í ár en 26 milljónir árið áður.

Í tilkynningu Plastprents segir að svipaður hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, þrátt fyrir nærri 40% veltuaukningu, skýrist m.a. af verulegri hækkun hráefnis vegna gengisfalls íslensku krónunnar. Samsvarandi hækkun söluverðs komi ekki til framkvæmda fyrr en undir lok tímabilsins. Þá hafi gengisfall íslensku krónunnar valdið því að gengistap erlendra skulda aukist um rúmlega 100 milljónir milli ára.

Fjármagnsgjöld Plastprents umfram fjármunatekjur námu 124 milljónum, sem er nettó aukning um 91 milljón frá fyrra ári.

Heildareignir í lok júní 2001 voru 1.289 milljónir og hafa hækkað um 144 milljónir frá áramótum. Vegur þar þyngst 110 milljóna króna hækkun viðskiptakrafna. Skuldir hækkuðu um 230 milljónir frá áramótum. Eigið fé var 130 milljónir og eiginfjárhlutfall 10% en 19% á áramótum.

Samkvæmt tilkynningunni er gert ráð fyrir að afkoman batni á seinni hluta ársins.