Annað mark Íslands í burðarliðnum. Helgi Sigurðsson í ákjósanlegu færi, Pavel Srnicek, markvörður Tékka, varði skot Helga en hélt ekki boltanum.
Annað mark Íslands í burðarliðnum. Helgi Sigurðsson í ákjósanlegu færi, Pavel Srnicek, markvörður Tékka, varði skot Helga en hélt ekki boltanum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Laugardagurinn 1. september árið 2001 er klárlega kominn í sögubækurnar sem einn af hápunktunum í sögu íslenskrar knattspyrnu.

Laugardagurinn 1. september árið 2001 er klárlega kominn í sögubækurnar sem einn af hápunktunum í sögu íslenskrar knattspyrnu. Ísland gerði sér þá lítið fyrir og lagði Tékka, 3:1, á sannfærandi hátt en þeir hafa á að skipa einu besta landsliði heims og sitja um þessar mundir í 7. sæti á styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins. Samhent íslenskt lið lék án efa einn besta leik sem það hefur leikið og með sigrinum eygir það von um að komast í lokakeppni HM - kannski fjarlægur draumur. Guðmundur Hilmarsson var á Laugardalsvellinum og hreifst af frammistöðu íslenska liðsins.

Fyrir leikinn voru ekki miklar væntingar í garð íslenska liðsins hjá íslensku þjóðinni enda mótherjinn gríðarsterkur og fólk vel minnugt ófaranna í Tékklandi fyrir tæpu ári þegar Tékkar unnu öruggan 4:0 sigur. En þegar væntingarnar hafa verið litlar sem engar hefur íslenska landsliðið oftar en ekki náð að laða fram sitt besta og enn einu sinni máttu heimsþekktir knattspyrnumenn ganga niðurlútir af Laugardalsvelli á meðan landinn steig stríðsdans. Margir minnast glæsilegs sigurs á A-Þjóðverjum á Laugardalsvelli árið 1975 þegar Íslendingar fögnuðu sigri, 2:1, og ekki var afrekið minna þegar Íslendingar lögðu geysisterkt lið Spánverja, 2:0, á Laugardalsvelli árið 1991. Fyrir þremur árum gerði íslenska landsliðið 1:1 jafntefli við ríkjandi heimsmeistara Frakka, úrslit sem líklega voru fyrir leikinn á laugardaginn talin besta afrek íslensks landsliðs frá upphafi ásamt 1:1 jafntefli á útivelli við Sovétríkin sálugu árið 1989. Þegar leikurinn við Tékka á laugardaginn er hins vegar gerður upp fer hann í sögubækurnar sem toppurinn í sögu íslenska landsliðsins. Með smáheppni hefði sigur Íslendinga getað orðið stærri og það er til marks um hve sterkt lið við Íslendingar eigum á að skipa á alþjóðlegan mælikvarða.

Þáttaskil þegar Koller fékk rauða spjaldið

Vissulega urðu þáttaskil í leiknum á 38. mínútu þegar risinn og tveggja manna makinn Jan Koller var sendur í bað eftir að hafa hrækt á Hermann Hreiðarsson. Það er oft ekki auðvelt að færa sér liðsmuninn í nyt gegn öflugum liðum eins og Tékkar hafa á að skipa en fyrirliðinn og leiðtoginn í íslenska liðinu, Eyjólfur Sverrisson, sýndi enn og aftur hvers hann er megnugur. Þessi magnaði leikmaður, sem svo sannarlega dró íslenska vagninn, skoraði fyrsta markið á ögurstundu - 20 sekúndum áður en ítalski dómarinn flautaði til hálfleiks og þetta mark fyllti brjóst íslensku leikmannanna af sjálfstrausti og sigurvilja.

Ekki verður annað sagt en að nokkur skrekkur hafi farið um Íslendinga í upphafi leiks. Tékkar byrjuðu leikinn af miklum krafti og strax á þriðju mínútu munaði minnstu að Pavel Nedved kæmi Tékkum yfir. Hann prjónaði sig í gegnum íslensku vörnina og var kominn í úrvalsfæri þegar Hermann náði að stöðva Nedved á síðustu stundu. Þríeykið Nedved, Karel Poborsky og Jan Koller létu mjög að sér kveða á fyrsta stundarfjórðungnum og þá sérstaklega Poborsky. Hann fékk mikið pláss á hægri vængnum og Arnar Þór Viðarsson var ekki í öfundsverðu hlutverki að reyna að halda aftur af þessum lipra leikmanni enda fékk Arnar litla hjálp frá félögum sínum. En eftir að íslensku strákarnir höfðu hrist úr sér mestu taugaveiklunina og hættu að bera virðingu fyrir tékknesku leikmönnunum var enginn sjáanlegur munur á liðunum. Hermann og Eyjólfur gerðu vel að halda Koller í skefjum og Tékkar áttu í basli með að ná einhverjum tökum á leiknum. Smátt og smátt fór íslenska liðið að sækja fram á völlinn og rétt áður en Koller fékk reisupassann náðu Íslendingar góðu upphlaupi. Hermann tók eina af sínu frægu rispum upp völlinn - hann sendi á Helga Sigurðsson sem var að komast í ákjósanlegt marktækifæri en því miður var hann hársbreidd fyrir innan tékknesku vörnina og var því dæmdur rangstæður. Í næstu sókn Tékka missti Koller stjórn á skapi sínu. Hann þoldi ekki þá kröftugu mótspyrnu sem hann fékk hjá íslensku varnarmönnunum og launaði þeim með því að spýta á Hermann. Við það að missa Koller af velli var eins og hjartað hefði verið rifið úr tékkneska liðinu og ekki bætti úr skák að Eyjólfur skoraði á lokaandartökum fyrri hálfleiks.

Fullir sjálfstrausts

Fullir sjálfstrausts hófu Íslendingar síðari hálfleikinn með krafti. Strax á fyrstu mínútunni var Helgi greinilega togaður niður í vítateignum en ítalski dómarinn sá ekki ástæðu til að dæma vítaspyrnu. Tékkar gerðu taktískar breytingar á liði sínu í leikhléinu. Þeir fækkuðu um einn mann í vörninni og hugmyndin sem lá þar að baki var að freista þess að jafna metin. En Íslendingar voru komnir með frumkvæðið í leiknum sem þeir voru ekki á að láta af hendi. Á 60. mínútu átti Eiður Smári gott skot sem fór rétt framhjá tékkneska markinu og tveimur mínútum síðar skoraði Andri Sigþórsson eftir góðan undirbúning Eiðs Smára og Arnars Grétarssonar. Tékkar mótmæltu markinu og töldu að Andri hefði verið rangstæður þegar hann skoraði en markið stóð og það ýtti undir pirringinn í liði Tékka sem tóku mótlætinu afar illa. Skömmu eftir markið skallaði Helgi Sigurðsson beint á Pavel Srnicek eftir frábæra fyrirgjöf Jóhannesar Karls en á 74. mínútu veitti Eyjólfur Tékkun náðarhöggið. Frábærlega vel framkvæmd aukaspyrna fyrirliðans af um 25 metra færi fór í gegnum þunnskipaðan varnarvegg Tékka - í stöngina og inn og áhorfendur á Laugardalsvellinum áttu bágt með að trúa sínum eigin augum þegar þeir renndu þeim í átt að markatöflunni. Eftir markið slökuðu Íslendingar aðeins á enda meðvitandi um að sigurinn væri í höfn. Tékkar gengu á lagið og náðu að laga stöðuna með frábæru marki varamannsins Jankulovskis.

Liðsheildin hjá íslenska var frábær og hver einasti leikmaður skilaði góðum leik. Atli Eðvaldson, sem svo mikið hefur verið á milli tannanna á fólki að undanförnu, náði að laða fram það besta í leik sinna manna og ekki var hann í öfundsverðu hlutverki fyrir leikinn vegna þeirrar gagnrýni að hafa ekki valið Guðna Bergsson í liðið. Lærisveinar Atla gerðu það sem fyrir þá var lagt og útkoman einn glæsilegasti leikur sem íslenskt landslið hefur leikið. Á engan verður hallað að nefna Eyjólf Sverrisson sem mann þessa leiks. Eyjólfur sýndi hvers hann er megnuður og hve mikilvægur hlekkur hann er í liðinu. Hann og Hermann voru frábærir í miðvarðarstöðunum og stigu ekki feilspor allan leikinn. Fyrir aftan þá skilaði Árni Gautur Arason gallalausum leik í markinu, bakverðirnir Auðun Helgason og Arnar Þór Viðarsson voru mjög traustir og léku af mikilli skynsemi. Pétur Marteinsson blómstraði í stöðu aftasta varnarmanns - staða sem hann er ekki vanur að spila en það var ekki að sjá á laugardag. Pétur var ekki bara sterkur í návígjunum heldur stjórnaði hann spilinu og gerði marga góða hluti með boltann. Arnar Grétarsson og Jóhannes Karl Guðjónsson voru báðir mjög duglegir og þeir ásamt Pétri höfðu betur gegn hinum heimsþekktu leikmönnum Tékka eins og Pavel Nedved. Arnar var yfirvegaður og Jóhannes Karl, í sínum öðrum landsleik, bar enga virðingu fyrir stórstjörnunum og var óhræddur við að mæta þeim af krafti. Helgi og Eiður gerðu báðir usla í vörn Tékka. Eiður var þó á köflum full eigingjarn en með leikni sinni og tækni var hann oft hársbreidd frá því að fullkomna þá hluti sem hann var að gera. Helgi gaf sig allan í leikinn að vanda og sömu sögu er að segja af Andra Sigþórssyni. Andri var mjög vinnusamur og gerði fína hluti og var mikill munur að sjá til hans í þessum leik eða í leiknum við Pólverja á dögunum. Niðurstaðan frábær frammistaða og ekki mega menn gleyma að þrír lykilmenn til margra ára, Rúnar Kristinsson, Ríkharður Daðason og Brynjar Björn Gunnarsson, voru fjarri góðu gamni.

Fyrir strákana er lykilatriði að koma sér niður á jörðina. Framundan er erfiður leikur við Norður-Íra annað kvöld og í þann leik þarf íslenska liðið að mæta sem ein liðsheild með sama hugarfar, sömu stemningu og sigurviljann sem einkenndi leik liðsins á laugardaginn.