PÁLL Skúlason háskólarektor opnaði formlega á föstudaginn kennslumiðstöð Háskóla Íslands. Kennslumiðstöðinni er m.a. ætlað að halda utan um allt fjarnám háskólans, en nú stunda um 400 nemendur fjarnám við skólann.

PÁLL Skúlason háskólarektor opnaði formlega á föstudaginn kennslumiðstöð Háskóla Íslands. Kennslumiðstöðinni er m.a. ætlað að halda utan um allt fjarnám háskólans, en nú stunda um 400 nemendur fjarnám við skólann. Garðar Gíslason, fræðslustjóri Kennslumiðstöðvar, segir að fjarnámið hafi verið að eflast og framundan sé mikil aukning á þessu sviði. Háskólar um allan heim leggi núna metnað sinn í að efla verulega þennan þátt í starfsemi sinni. Háskóli Íslands ætli sér að standa þar í fremstu röð.

"Auk þess að sjá um fjarnámið sér Kennslumiðstöðin um að kenna kennurum að nota tæki og tól. Við höldum námskeið fyrir kennara og kennum þeim að nota forrit sem tengjast kennslunni. Við erum einnig með kennslufræðileg námskeið fyrir kennara. Rektor leggur mikla áherslu á þessi námskeið, en þau eru m.a. tilkomin vegna samnings háskólans við menntamálaráðuneytið.

Við erum í nánu samstarfi við kennslu- og símenntunarstöðvar um allt land. Þær eru að meginstofni til átta, en við sendum út til miklu fleiri staða. Við notum fjarfundabúnað og sendum út fyrirlestra og svo notum við það sem við köllum WebCT, sem er stafrænt kennsluumhverfi. WebCT er eins og heimasíða, reyndar mjög kennslufræðileg, og hefur þann kost að vera lokuð. Þetta er í raun eins og skóli á Netinu. Það eru mjög margir kennarar sem nota þetta, ekki bara í fjarnámi heldur einnig í staðbundnu námi," sagði Garðar.

Garðar sagði Háskóli Íslands væri í ágætu samstarfi við háskóla á Íslandi og erlendis um fjarnám. Háskólinn á Hólum í Hjaltadal hefði t.d. séð um námskeið fyrir HÍ í fjarnámi og Háskólinn í Iowa í Bandaríkjunum verið með eitt námskeið í hjúkrun. HÍ væri einnig í góðu samstarfi við Háskólann á Akureyri og Kennaraháskólann.

Garðar sagði að markmið Kennslumiðstöðvar væri að sem allra flest námskeið í háskólanum yrðu einnig á Netinu. Sumir ættu reyndar erfitt með að sjá að það væri t.d. hægt að gera efnafræðitilraunir á Netinu. Möguleikarnir væru hins vegar fjölbreyttir. Nýlega hefði t.d. verið haldinn fyrirlestur í Háskólabíói í læknisfræði. Fyrirlesarinn var í Svíþjóð og sýndi hann m.a. aðgerð á innra eyra sem gerð var á sjúkrahúsi þar í landi.

"Það á eftir að verða gífurleg aukning í fjarnámi á næstu árum. Það eru svo margir sem ekki geta mætt í dagskóla vegna vinnu, fjölskylduaðstæðna eða vegna þess að þeir búa á landsbyggðinni. Að mínu viti er lífsspursmál fyrir háskóla að bjóða bæði upp á nám á Netinu og staðbundið nám. Það er mikil samkeppni milli háskóla í heiminum á þessu sviði og nemendur gera miklar kröfur til skólanna," sagði Garðar.