ALLS seldust 112 bifreiðir, tengivagnar og fellihýsi á laugardag þegar nauðungarsala á bifreiðum fór fram á vegum Sýslumannsins í Reykjavík.

ALLS seldust 112 bifreiðir, tengivagnar og fellihýsi á laugardag þegar nauðungarsala á bifreiðum fór fram á vegum Sýslumannsins í Reykjavík. Þetta eru jafnmargar bifreiðir og seldust á uppboði í lok júní en heildarsöluverðmæti var þó meira á laugardag eða 60 milljónir og 125 þúsund krónur. Í júní var verðmætið 51 milljón 980 þúsund krónur. Viku fyrir uppboðið voru ríflega 1.500 bifreiðir og tæki auglýst til nauðungarsölu í fjölmiðlum.

Úlfar Lúðvíksson, deildarstjóri fullnustudeildar sýslumannsembættisins í Reykjavík, segist telja að aldrei hafi verið selt fyrir jafnháa fjárhæð á nauðungarsölu á lausafjármunum. Þá segir hann að skýringar sé líklega að leita í því að bílarnir á uppboðinu á laugardag hafi almennt verið nýrri og dýrari en á uppboðinu í júní.

Nauðungarsölum á bifreiðum fjölgaði úr 514 í 669 milli áranna 1999 og 2000 hjá sýslumanninum í Reykjavík, eða um 30%. Áframhaldandi fjölgun hefur verið á bílauppboðum hjá embættinu á þessu ári og nemur hún 21%. Frá janúar til júní í fyrra voru seldir 355 bílar og tæki en 430 á sama tímabili á þessu ári. Árið 2000 var selt fyrir rúmar 299 milljónir króna á lausafjáruppboðum, þ.e. bifreiðir, tæki, reiðhjól o.fl.