ÚRSKURÐUR Héraðsdóms Reykjaness, sem kveðinn var upp sl. föstudag um að faðir 9 ára gamals drengs skuli afhenda hann móðurinni sem býr í Frakklandi, var í gær kærður til Hæstaréttar.

ÚRSKURÐUR Héraðsdóms Reykjaness, sem kveðinn var upp sl. föstudag um að faðir 9 ára gamals drengs skuli afhenda hann móðurinni sem býr í Frakklandi, var í gær kærður til Hæstaréttar. Drengurinn hefur búið hjá móður sinni í Frakklandi en dvalið hjá föður sínum í leyfum, nú síðast í sumar, og hefur hann óskað eftir því að fá að vera hjá föður sínum á Íslandi. Skv. úrskurði héraðsdóms ber föðurnum að afhenda drenginn innan sjö daga, að öðrum kosti getur móðirin farið fram á aðfararaðgerð með aðstoð lögreglu.

Foreldrar drengsins skildu og kvað franskur dómstóll á um að drengurinn skyldi búa hjá móður sinni og hafa fastan umgengnisrétt við föður sinn. Drengurinn kom til föður síns í byrjun júlí en átti að fara aftur til móður sinnar 31. júlí. Við því var ekki orðið og var mál þá höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Óskaði drengurinn eindregið eftir því við dómara að fá að vera áfram hjá föður sínum.

Dómurinn kvað hins vegar upp þann úrskurð, með vísan til alþjóðlegra sáttmála sem Ísland er aðili að, að föðurnum bæri að afhenda drenginn innan sjö daga, þ.e. í síðasta lagi næstkomandi föstudag.

,,Niðurstaða héraðsdóms er á því byggð að Haag-samningurinn og Evrópusamningurinn eru í gildi og dæmt er á grundvelli Evrópusamningsins. Samkvæmt honum ber Íslandi að leggja niðurstöðu franska dómstólsins til grundvallar og framfylgja dómnum hér á landi. Það eru hins vegar heimildir í þeim samningi, rétt eins og í Haag-samningnum, fyrir íslenska ríkið til þess að synja um afhendingu ef sérstök sjónarmið mæla með því," sagði Hörður Felix Harðarson, lögmaður drengsins.

,,Við höldum því fram að þar komi meðal annars til skoðunar svona sterkur og einbeittur vilji barns sem hefur þroska til þess að segja til um það sjálft hvar það vill búa og eins ef rökstudd hætta er á því að hagsmunum barnsins sé jafnvel stefnt í voða með afhendingu."

Hörður segir ekki fara á milli mála að það sé eindreginn vilji drengsins að vera áfram hjá föður sínum.