HÁSKÓLI Íslands auglýsti um helgina laust til umsóknar starf prófessors í arkitektúr við skólann. Auglýst er að verkefni prófessors í arkitektúr verði meðal annars fólgin í undirbúningi og umsjón með kennslu og rannsóknum í arkitektúr.

HÁSKÓLI Íslands auglýsti um helgina laust til umsóknar starf prófessors í arkitektúr við skólann. Auglýst er að verkefni prófessors í arkitektúr verði meðal annars fólgin í undirbúningi og umsjón með kennslu og rannsóknum í arkitektúr.

Magnús Diðrik Baldursson, aðstoðarmaður háskólarektors, segir að saga þessa máls nái langt aftur. "Innan háskólans hefur það lengi verið til umræðu að taka upp kennslu í arkitektúr. Árið 1998 setti háskólarektor á laggirnar starfshóp, sem hafði það hlutverk með höndum að gera úttekt á möguleikum þess að koma þessu í framkvæmd. Í febrúar 1999 skilaði hópurinn af sér skýrslu, þar sem farið var yfir málið, þörfin fyrir kennslu í arkitektúr var metin, og rök með og á móti skoðuð, auk þess var metin fjárþörf, húsnæðisþörf, gerð voru drög að námskrá og fleira. Niðurstaða starfshópsins var eindregið með því að háskólinn tæki upp kennslu í arkitektúr." Magnús Diðrik segir að í framhaldi af þessari niðurstöðu hafi háskólaráð ályktað, og ritað erindi til menntamálaráðuneytisins, þar sem óskað var eftir heimild til þess að háskólinn gæti hafið kennslu í arkitektúr, en um hverja nýja námsgrein við skólann er samið sérstaklega við ráðuneytið. Magnús Diðrik segir að erindi háskólaráðs hafi verið ítrekað nokkrum sinnum, án niðurstöðu.

Skilyrði um samvinnu

Um svipað leyti og skýrsla starfshópsins leit dagsins ljós var Listaháskólinn kominn af stað, og var þá líka með áætlanir um að hefja nám í arkitektúr. "Það var svo ekki fyrr en í vor að ráðuneytið skar úr um málið. Báðum skólunum var tilkynnt að ráðuneytið myndi heimila og greiða fyrir þetta nám, en skilyrði væri að skólarnir kæmu sér saman um þetta. Þetta er dýrt nám, og skiljanlegt að ráðuneytið væri ekki tilbúið til að greiða fyrir það á tveimur stöðum - og í rauninni ekkert vit í því." Magnús Diðrik segir að viðræður séu hafnar um það hvernig að samvinnu skólanna verði staðið. Báðir skólarnir hafa tilnefnt fulltrúa í viðræðunefnd eða samráðshóp sem hefur þegar hist einu sinni. Magnús Diðrik segir að samráðshópurinn muni skila tillögum um hvernig að verkaskiptingu og samvinnu skólanna verður staðið og málið sé statt hjá þeim hópi núna. Gert er ráð fyrir að kennsla í arkitektúr hefjist á vegum Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands haustið 2002.