KARLALANDSLIÐIÐ í knattspyrnu náði einhverjum bestu úrslitum sínum frá upphafi á laugardaginn þegar það sigraði Tékka á sannfærandi hátt á Laugardalsvellinum.

KARLALANDSLIÐIÐ í knattspyrnu náði einhverjum bestu úrslitum sínum frá upphafi á laugardaginn þegar það sigraði Tékka á sannfærandi hátt á Laugardalsvellinum. Sigur Íslands vekur athygli um heim allan því tékkneska liðið hefur verið í fremstu röð á undanförnum árum. Íslenska landsliðið undir stjórn Atla Eðvaldssonar er nú ósigrað í síðustu fimm leikjum sínum og þetta er í annað skiptið á þeim tveimur árum, sem Atli hefur stýrt liðinu, sem það leikur fimm leiki í röð án þess að bíða lægri hlut. Sigurhlutfallið er orðið það besta sem um getur hjá íslenskum landsliðsþjálfara því Ísland hefur unnið 9 sigra í 18 leikjum undir hans stjórn. Hjá forvera hans, Guðjóni Þórðarsyni, unnust 11 leikir af 25 og fjögur undanfarin ár, þar sem þessir tveir þjálfarar hafa verið við stjórnvölinn, eru þau bestu í sögu íslenska landsliðsins. Í annarri undankeppni stórmóts í röð eygir það möguleika á lokasprettinum til að ná að komast lengra en nokkru sinni áður; draumurinn um að komast einhvern tíma í lokakeppni HM og EM er ekki orðinn eins fjarlægur og hann einu sinni virtist.

En þrátt fyrir þessa miklu uppsveiflu eru ekki allir ánægðir. Það hefur verið sérkennilegt að fylgjast með þeirri umræðu sem fór af stað í vor fyrir landsleikina gegn Möltu og Búlgaríu, og aftur fyrir Tékkaleikinn í síðustu viku þar sem myndast hefur sérstakur þrýstihópur um að koma einum manni í landsliðið. Eða öllu heldur um að senda landsliðsþjálfaranum tóninn í ræðu og riti fyrst hann velur ekki þann mann í landsliðið. Eins og þær umræður og skrif þróuðust á dögunum hefði mátt halda að aðrar hvatir en umhyggja fyrir styrk og árangri íslenska landsliðsins lægju að baki.

Jafnvel aðilar sem ekki hafa sést á knattspyrnuvöllunum um árabil voru farnir að láta gamminn geisa. Lítill fugl hvíslaði því að mér að ekki hefðu allir fagnað mörkum Íslands og farið brosandi heim af Laugardalsvellinum á laugardaginn þrátt fyrir góðan sigur.

Atli Eðvaldsson hefur svarað spurningum um Guðna Bergsson oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, og fært gild rök fyrir sínu máli. Hann er að byggja upp liðsheild í íslenska landsliðinu með ágætum árangri, og hefur valið að gera það án þess að leita til Guðna Bergssonar. Engum dylst að Guðni er góður leikmaður, í hópi betri varnarmanna Íslands fyrr og síðar, enda á hann 77 landsleiki að baki og er fyrirliði í ensku úrvalsdeildinni, 36 ára gamall. Eflaust myndi Atli leita til hans ef með þyrfti, ef sú staða kæmi upp að annar aðilinn úr hinu óárennilega miðvarðapari íslenska landsliðsins, Hermann Hreiðarsson eða Eyjólfur Sverrisson, gæti ekki leikið með og Pétur Marteinsson væri líka fjarri góðu gamni. Þessir þrír ásamt Auðuni Helgasyni og Arnari Þór Viðarssyni hafa myndað varnarkjarna landsliðsins að undanförnu og ná sífellt betur saman.

Varnarleikur er undirstaða árangurs í knattspyrnu; um það þarf varla að fara mörgum orðum. Lið sem ekki getur varist, fær á sig mörk, og lið sem ekki getur varist er ekki líklegt til að skora mörk. Lykilatriði í uppbyggingu liðs er að ná saman samstilltri vörn, og þegar það hefur tekist, að henni sé breytt sem minnst, til þess að jafnvægið í liðinu raskist ekki. Guðjón Þórðarson hafði þetta að leiðarljósi og Atli hefur haldið áfram á sömu braut þó leikaðferðin sé önnur. Heildin hefur skipt meira máli en einstaklingarnir. Aðeins einu sinni í síðustu sex leikjum hefur landsliðið fengið á sig meira en eitt mark; þegar það lék manni færri í 50 mínútur í Búlgaríu og tapaði 2:1. Það er ekki ástæða til að breyta þeirri vörn sem að mestu hefur spilað þessa sex leiki, til þess eins að Guðni Bergsson klæðist landsliðstreyjunni á ný.

Nú er mál að linni. Það er sjálfsagt og eðlilegt að gagnrýna val á landsliði þegar ástæða þykir til en menn verða að gæta hófs; virða ákvarðanir þess manns sem velur liðið, og gefa honum og hans leikmönnum eðlilegan vinnufrið síðustu dagana fyrir landsleik.

Víðir Sigurðsson, Belfast.