UM næstu helgi efna íslenskir flugáhugamenn til hópferðar til London í þeim tilgangi að sækja heim eina skrautlegustu flugsýningu sem haldin er í Evrópu árið 2001. Sýningin stendur 8. og 9.

UM næstu helgi efna íslenskir flugáhugamenn til hópferðar til London í þeim tilgangi að sækja heim eina skrautlegustu flugsýningu sem haldin er í Evrópu árið 2001. Sýningin stendur 8. og 9. september á Duxford-flugminjasafninu, skammt frá London, en það er jafnframt stærsta safn sinnar tegundar í álfunni með um 180 sögufrægar gamlar flugvélar auk margvíslegra stríðstóla sem komin eru til ára sinna.

Ferðin er skipulögð af Fyrsta flugs félaginu, áhugamannafélagi um flugmál.

Í tilefni af þessari ferð hefur Flugfélagið Atlanta hf. ákveðið að bjóða tveimur heiðursgestum með, þeim Þorsteini E. Jónssyni, fyrrv. flugstjóra, og Úlfari Þórðarsyni, fyrrverandi augnlækni. Þeir Þorsteinn og Úlfar eru þjóðkunnir fyrir heilladrjúg störf sín af flugmálum Íslendinga.

Aðalatriði flugdaganna á Duxford verða sýningar hinna heimsþekktu Red Arrows, listflugsveitar breska flughersins (RAF) og listfallhlífasveitar breska landhersins sem heitir Red Devils. Þar að auki mun vélum úr fyrri og seinni heimsstyrjöldinni verða flogið auk nýjustu tegundum af orrustu- og sprengjuþotum sem breski flugherinn hefur yfir að ráða. Alls munu rúmlega 40 mismunandi flugvélagerðir leika listir sínar í loftinu heilan eftirmiðdag.

Í ferðaskipulaginu er gert ráð fyrir sérstökum hátíðarkvöldverði með skemmtiívafi í gömlum breskum sveitakastala skammt frá Duxford. Farþegar hafa síðan frjálsan dag í London, en gist verður á nýendurnýjuðu hóteli í miðborginni. Fararstjórn verður í höndum Gunnars Þorsteinssonar, formanns Fyrsta flugs félagsins. Farið verður út síðdegis föstudaginn 7. september og komið heim undir miðnætti sunnudaginn 9. september. Nánari upplýsingar og nákvæma prentaða ferðadagskrá er unnt að fá hjá Fyrsta flugs félaginu.