UNDIRBÚNINGUR að byggingu íþróttahúss við Síðuskóla var til umræðu í stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar í vikunni. Hér var um fyrstu skref að ræða í því máli og ekki liggur enn fyrir hversu stórt hús verður byggt né hvenær framkvæmdir hefjast.

UNDIRBÚNINGUR að byggingu íþróttahúss við Síðuskóla var til umræðu í stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar í vikunni. Hér var um fyrstu skref að ræða í því máli og ekki liggur enn fyrir hversu stórt hús verður byggt né hvenær framkvæmdir hefjast.

Samkvæmt þriggja ára áætlun bæjarins er gert ráð fyrir 10 milljónum króna í verkefnið á þessu ári og 120 milljónum króna til viðbótar á næstu tveimur árum. Hugmyndin er að íþróttahúsið verði jafnframt samkomusalur skólans.

Guðríður Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri Fasteigna Akureyrarbæjar, sagði að deildar meiningar væru um stærð hússins, þ.e. hvort sníða eigi bygginguna eingöngu að þörfum skólans eða hvort byggja eigi hús með löglegum handboltavelli. Þetta sé hins vegar mál sem eigi eftir að ræða á hinum pólitíska vettvangi.

Guðríður sagði engar tímasetningar liggja fyrir en að æskilegast væri út frá sjónarmiðum skólans að hlutirnir gerðust sem hraðast.

Skólanefnd samþykkti á fundi sínum sl. haust að leggja til við bæjarráð að byggt verði íþróttahús ásamt samkomusal við Síðuskóla auk þess sem byggt verði íþróttahús við Giljaskóla. Guðríður sagði að út frá hagsmunum skólanna væri æskilegast að byggja íþróttahús við báða skólana. Hins vegar væri sparnaður í því að komast af með eitt hús fyrir þá báða en Guðríður sagðist ekki geta sagt til um hver niðurstaðan verði.