LUIS Van Gaal, landsliðsþjálfari Hollendinga í knattspyrnu, segist ekki hafa nein áform um að hætta starfa sínu þrátt fyrir ósigurinn gegn Írum í Dublin.

LUIS Van Gaal, landsliðsþjálfari Hollendinga í knattspyrnu, segist ekki hafa nein áform um að hætta starfa sínu þrátt fyrir ósigurinn gegn Írum í Dublin. Tapið þýðir að Hollendingar eiga ekki nema stjarnfræðilega möguleika á að komast í úrslitakeppni og sitji þeir eftir, eins og allt stefnir í, kunna margir að segja það sorglega niðurstöðu enda Hollendingar þekktir fyrir að spila skemmtilega knattspyrnu og með marga frábæra knattspyrnumenn í sínum röðum.

"Þrátt fyrir þessa niðurstöðu hef ég áhuga á að halda starfi mínu áfram og sitja við stjórnvölinn þar til samningurinn rennur út árið 2004. Þegar ég tók við starfinu í júlí á síðasta ári komst ég að samkomulagi við knattspyrnusambandið um að starf mitt yrði endurskoðað eftir tvö ár og við erum ekki komnir að þeim tímapunkti ennþá," sagði van Gaal.

Þrátt fyrir að haft undirtökin lengst af leiksins og vera einum leikmanni fleiri á vellinum síðasta hálftímann, eftir að bakverðinum Gary Kelly var vikið af leikvelli, tókst Hollendingum ekki að finna glufur á vel skipulagðri vörn Íra. Tuttugu mínútum fyrir leikslok náðu Írar gagnsókn og úr henni skoraði Jason McAteer - mark sem heldur Írum í toppsætinu og gerði vonir Hollendinga um að komast á HM að engu. Sigri Portúgalir lið Kýpurbúa annað kvöld er öll von úti hjá lærisveinum Luis van Gaal sem verða þá að bíða í fimm ár til að eiga möguleika á að hampa titlinum eftirsótta.

Tvær þjóðir tryggðu sér farseðilinn til Japans og Kóreu í leikjum helgarinnar. Pólverjar innisigluðu efsta sætið í 5. riðli og verða með í lokakeppni HM í fyrsta sinn í 16 ár. Pólverjar sigruðu Norðmenn örugglega, 3:0 og þar með héldu ófarir þeirra norsku áfram en Norðmenn eru á botni riðilsins með aðeins fjögur stig og hafa enn ekki unnið leik í keppninni.

Þá tryggðu Spánverjar sér sigurinn í 7. riðli með því að vinna öruggan sigur á Austurríkismönnunm, 4:0. Slagurinn um annað sæti er á milli Austurríkis og Ísrael og þar standa þeir fyrrnefndu betur að vígi þar sem þeir eiga leik til góða.