BÆJARYFIRVÖLD í Hafnarfirði kanna nú möguleika á uppbyggingu tæknigarðs og Tækniháskóla á því landi sem nú er verið að skipuleggja á Vallar-, Selhrauns- og Hellnahraunssvæði.

BÆJARYFIRVÖLD í Hafnarfirði kanna nú möguleika á uppbyggingu tæknigarðs og Tækniháskóla á því landi sem nú er verið að skipuleggja á Vallar-, Selhrauns- og Hellnahraunssvæði. Um er að ræða töluvert víðfeðmt svæði suðvestur af Ásvöllum og suður með Krísuvíkurvegi.

Formaður skipulagsnefndar, Sigurður Einarsson, segir að tengsl við Hitaveitu Suðurnesja og framþróun í orkugeiranum geri svæðið hentugt fyrir starfsemi af þessum toga.

Að sögn Sigurðar tengjast hugmyndir um tæknigarða í Hafnarfirði fyrst og fremst hugmyndum um að koma höfuðstöðvum Hitaveitu Suðurnesja fyrir í Hafnarfjarðarbæ. "Þessi hugmynd er komin frá ráðgjöfum sem telja að það mætti tengja þessar höfuðstöðvar einhverri háskólastofnun eða öðrum skóla sem tengist þessum hlutum. Þarna er verið að viðra það að ef Tækniháskóli Íslands verður að veruleika fyrir utan Háskólann þá er hann boðinn velkominn inn á þetta svæði og þá væru möguleikar á að hafa tæknigarða þar líka," segir hann.

Aðspurður segir Sigurður að líklega sé ekki rými fyrir marga hátæknigarða á höfuðborgarsvæðinu þó að það sé vissulega háð atvinnuþróun á næstu áratugum. "Þetta er fyrst og fremst hugsað fyrir skrifstofubyggingar. Eins mætti jafnvel bjóða Orkustofnun að vista hana hér í nágrenni við þá miklu orkuuppbyggingu sem gæti átt sér stað því þær boranir sem er verið að gera í Trölladyngju hér rétt fyrir utan lofa mjög góðu. Eins erum við með iðnaðarsvæðismöguleika tengda álverssvæðinu."

Sigurður segir nýja svæðið tvímælalaust meira aðlaðandi fyrir slíka tæknigarða en marga aðra staði.