Anna Sigurborg Finnsdóttir fæddist á Sandbrekku (Melagötu 15) í Neskaupstað 21. febrúar 1918. Hún andaðist á sjúkrahúsinu í Neskaupstað 27. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Finnur Sigfús Jónsson bátasmiður, f. 9. október 1888, d. 22. janúar 1962, og Margret Guðnadóttir frá Vöðlum í Vöðlavík, f. 30. nóvember 1886, d. 28. september 1968. Systkini Önnu eru Jón, f. 17. nóvember 1915, d. 3. febrúar 1991; Guðni Þórarinn, f. 12. september 1923, d. 23. júní 1964; Ingibjörg, f. 5. júní 1927.

Útför Önnu fer fram frá Norðfjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Gekkst þú með Guði, Guð þér nú fylgi, hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt. (V. Briem.)

Anna Sigurborg var ógift og barnlaus. Hún hélt heimili með foreldrum sínum á Sandbrekku ásamt Guðna Þórarni bróður sínum, á meðan þau lifðu. Bjó hún þar áfram þar til hún flutti í íbúð hjá öldruðum sem er í tengslum við sjúkrahúsið í Neskaupstað.

Hún hugsaði afar vel um foreldra sínar og bróður, einkum eftir að þau urðu eldri. Á heimilið komu gestir og gangandi, enda var Fúsi, eins og pabbi hennar var kallaður, afar gestrisinn, dreif hann menn heim að gömlum og góðum sið, þar sem þær mæðgur Margret og Anna báru fram veitingar. Oft var kátt á hjalla, einkum þegar pólitík var í umræðunni, en Fúsi hafði gaman af að ræða skoplegu hliðar hennar. Var blaðið Spegillinn honum mikið hlátursefni eins og öðrum.

Við sem þetta skrifum erum þakklát fyrir að hafa fengið að eiga Önnu að. Ferðirnar austur í Neskaupstað, oftast á hverju ári, sest að borðum, drukkið súkkulaði ásamt öðrum veitingum. Þetta var fastur liður. Á þessum samverustundum voru málin rædd, hver væri skyldur þessum eða hinum, en Anna var mjög fróð um fólkið sitt. Óneitanlega finnur maður fyrir söknuði og ekki verður auðfundinn einstaklingur sem hefur jafn góða þekkingu á ættinni.

Þegar árin liðu og systkinabörnin fóru að venja komur sína til Önnu var þeim ekki í kot vísað. Sérstaklega var Skúli systursonur hennar henni kær. Dvaldi hann oft hjá henni þegar hann átti frí. Tel ég að hún hafi haft gaman af að hafa Skúla hjá sér, einkum eftir að hún var orðin ein. Hann sýndi Önnu mikla ræktarsemi.

Skúli lést af slysförum og var það mikið áfall fyrir Önnu. Menn þóttust sjá sem heill tugur ára hefði verið lagður á hana.

Anna var mikill völundur í höndunum. Hún vann við sauma framan af ævi, en ef til vill meira í fiski á síðara vinnuskeiðinu.

Við minnumst Önnu frænku, eins og við í okkar fjölskyldu kölluðum hana, fyrir allar sendingarnar á jólum og afmælum. Hún gleymdi engum. Margur dúkurinn, sokkarnir eða verkefni úr föndrinu urðu til að gleðja.

Við fráfall Önnu kemur eitt skarðið í viðbót í þann hóp sem lagði sig fram um að gera okkur til geðs í heimsóknum á Austurlandið.

Að lokum finnst mér viðeigandi að minnast áhuga Önnu á knattspyrnu. Hún var full áhuga þegar lið spiluðu, hún vissi gang leikja og þekkti liðin. Hjá Þrótti í Neskaupstað var staða leikja alveg ljós.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)

Erla Margrét og Hjörleifur.

Erla Margrét og Hjörleifur.