Ingibjörg Sigríður Stefánsdóttir fæddist á Arnarstöðum í Núpasveit 9. ágúst 1929. Hún lést á Landakotsspítala föstudaginn 8. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Stefán Tómasson bóndi, f. 4.3. 1881, d. 19.2. 1967, og Oktavía Stefanía Ólafsdóttir, f. 30.9. 1891, d. 4.1. 1934. Systkini Ingibjargar eru: Gunnþórunn Ingibjörg Ragnheiður, f. 11.3. 1915, d. 23.5. 1961, Ólafur Þorsteinn, f. 30.1. 1917, d. 13.1. 1999, Valgerður, f. 1.2. 1919, d. 26.5. 1994, Þóra Steinunn, f. 12.5. 1920, Þórunn Emelía, f. 27.1. 1922, Petra Guðrún, f. 27.1. 1922, Halldór Gunnar, f. 11.3. 1923, Jón Gunnlaugur, f. 16.5. 1925, Halldór Ólafs, f. 12.9. 1927, Bragi, f. 16.8. 1931, og hálfsystir Oktavía Erla, f. 30.3. 1938, móðir Sigríður Björnsdóttir, f. 19.9. 1906. Uppeldismóðir Ingibjargar frá fjögurra ára aldri var Sigríður Hansdóttir, f. 31.3. 1871, d. 10.5. 1960, ól hún einnig upp Sigríði Pálmadóttur, f. 30.9. 1923, og Guðríði Pálmadóttur, f. 12.6. 1925, d. 29.12. 1998.

Ingibjörg giftist 1.6. 1957 eftirlifandi eiginmanni sínum Árna Haraldi Guðmundssyni, slökkviliðsmanni og ökukennara, f. í Reykjavík 8.4. 1928. Foreldrar hans voru Guðmundur Haraldur Árnason, f. 26.2. 1898, d. 3.2. 1979, og Katrín Kristófersdóttir, f. 3.6. 1900, d. 23.11. 1969. Börn Ingibjargar og Árna eru: 1) Brynjólfur, f. 22.1. 1949, d. 20.7. 1994. 2) Guðmundur, f. 11.11. 1957, maki Júlíana Árnadóttir, f. 22.12. 1957; börn þeirra: Guðbjörg Heiða, f. 26.7. 1980, sambýlismaður hennar Magnús Hrafn Magnússon, f. 10.11. 1980, og Árni Heiðar, f. 1.5. 1987. 3) Lára Hrönn, f. 17.1. 1959, maki Ari Jónsson, f. 8.8. 1956; börn þeirra: Ágúst Ingi, f. 18.6. 1979, sambýliskona Elva Björk Ágústsdóttir, f. 26.5. 1980, Daníel Már, f. 20.2. 1987, og Ólöf Brynja, f. 12.5. 1992. 4) Sigríður Árnadóttir Clarke, f. 27.1. 1960, maki Kenneth B. Clarke, f. 11.11. 1952; börn þeirra Jónatan Árni, f. 23.10. 1983, Kristófer Davíð, f. 25.5. 1987, og Tómas Ryan, f. 3.3. 1989. 5) Haraldur, f. 9.2. 1963; börn hans: Harpa Dís, f. 28.9. 1988, og Katrín Inga, f. 8.4. 1998. 6) Árni, f. 2.8. 1966, maki Aðalheiður Íris Hjaltadóttir, f. 2.9. 1965, börn þeirra: Hjalti Stefán, f. 19.7. 1987, og Þórir Róbert, f. 26.5. 1993.

Ingibjörg var heimavinnandi þar til börnin voru flutt að heiman, en starfaði síðan á Skrifstofu Ríkisspítala og síðar á Landsspítalanum.

Útför Ingibjargar Sigríðar fer fram frá Bústaðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Sá andi, sem áður þar gisti frá eilífum freslsara, Kristi mun, leystur úr læðingi, bíða þess líkams, sem englarnir skrýða. (Stef. Thor.)

Elsku amma. Sofðu vært hina hinstu nótt. Englar munu þig vernda.

Sá andi, sem áður þar gisti

frá eilífum freslsara, Kristi

mun, leystur úr læðingi, bíða

þess líkams, sem englarnir skrýða.

(Stef. Thor.)

Liggðu í faðmi guðs í nótt, elskulega amma Inga.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Minning þín er ljós í okkar hjarta.

Ágúst Ingi og Elva Björk.

Okkar kærasta Inga. Það er einlæg von okkar að þú vitir hve heitt við elskum þig og hve sárt við munum sakna þín. Þó að höf hafi aðskilið okkur gegnum árin tókst þér alltaf að láta okkur finnast að við værum númer eitt í hjarta þínu. Þess vegna munum við ævinlega hlakka til að hitta þig aftur.

Ástarkveðja,

Ken, Jonathan, Kristofer

og Tomas.

Á myndinni sem ég er að horfa á eru tvær stúlkur. Þær sitja hjá hvítu tjaldi úti í móa og gera sig líklegar til að táldraga þann sem tekur myndina, toga pilsfaldinn altillega aðeins upp fyrir hné, skælbrosandi. Önnur er tæpra fjórtán ára, næstum orðin manneskja, hin akkúrat helmingi eldri, svipmikil og gullfalleg ung kona með brúsandi dökkt hár. Þrátt fyrir aldursmuninn er auðséð að þær eru vinkonur.

Ég vissi það ekki þá en veit það núna að það er afar nauðsynlegt fyrir stelpur að eiga sér eldri vinkonur. Þrátt fyrir fögur orð og fullyrðingar um hið gagnstæða er ekki rétt að hægt sé að segja mömmu allt. Það er ekki einu sinni rétt að segja mömmu allt. Hún tekur hlutina svo nærri sér. Móðursystir er miklu betri því hún verður ekki undir eins æst, reið eða hneyksluð þegar henni eru sögð mikil tíðindi. Hún heldur ró sinni, sér hlutina utan frá og getur gefið góð ráð og leiðbeiningar.

Slík vinkona var Lilla móðursystir mín mér, alveg frá því ég kynntist henni fyrst tíu ára gömul þegar við fluttum í sama heimshornið og hún bjó í.

Fyrst í stað var hún auðvitað eins og mynd - eða kannski lygasaga. Hún var svo falleg og mjó og lekker að hún minnti mest á kvikmyndastjörnurnar á myndunum í Fálkanum og Vikunni. Svo var hún flugfreyja og flaug á Ameríku, og þaðan kom hún með ótrúlega brúðu handa mér, álíka stóra og hálfs árs gamalt barn. Þessi brúða gat gengið ef maður leiddi hana, lokað augunum og sagt mamma. Ljósu lokkana mátti greiða. Hún var ekki síður ævintýri og kraftaverk en gefandinn.

Lilla átti Binna sem stundum var í fóstri heima hjá okkur þangað til Lilla giftist Árna og gaf Binna hvert systkinið á fætur öðru. Ég varð á sömu árum smám saman fullorðin en á unglings- og hálffullorðinsárunum var Lilla kletturinn sem allar mínar áhyggjur brotnuðu á og urðu að engu. Hún var þá heima hjá litlu börnunum sínum, Gumma, Láru, Siggu, Halla og Árna, en alltaf átti hún opin eyru fyrir fáfengilegar sorgir, alltaf opinn faðm, hlý orð og góð ráð sem reyndust vel. Aldrei lét hún heldur í veðri vaka við systur sína að dóttir hennar leitaði frekar til hennar með vandamálin. Trúnaðurinn milli okkar var heilagt leyndarmál sem aldrei var látið uppi.

Svo koma fullorðinsárin með allar sínar kvaðir og tímaþjófa. Smám saman verður maðs0ur sjálfur eins konar móðursystir annarra stúlkna og gleymir að rækta fornar ástir. Samt gleymast þær aldrei því vináttan og kærleikurinn til bjargvættar ungdómsáranna er runninn manni í merg og blóð.

Lilla móðursystir mín var lifandi fyrirmynd annarra kvenna að ótrúlega mörgu leyti. Að vísu ekki með stórreykingum sínum sem að lokum drógu hana til dauða of snemma, en örlæti hennar, áhugi á velferð annarra og hennar létta lund var eins og allsherjar dæmi um hvernig menn eiga að vera í samskiptum sínum við annað fólk. Hún gerði líf allra í kringum sig auðugra og betra.

Ég sendi eftirlifandi manni hennar, börnunum hennar, tengdabörnum og barnabörnum mínar innilegustu samúðaróskir.

Silja Aðalsteinsdóttir.

Þegar aldurinn færist yfir sér maður á eftir stöðugt fleiri ættingjum og vinum yfir móðuna miklu með sárum söknuði, en um leið hjartanlegu þakklæti fyrir að hafa verið svo lánsöm að njóta samvista og vináttu við þá á langri lífsleið. Svo er því farið er við Sirrí kveðjum hjartkæra vinkonu okkar, Ingibjörgu Stefánsdóttur.

Ingibjörg ólst upp hjá ömmu Sirríar, Sigríði Hansdóttur, og áttu þær þar margar samverustundir, sem aldrei gleymast, enda litu þær alla tíð á sig sem nokkurs konar fóstursystur.

Ingibjörg eða Lilla, eins og við kölluðum hana í okkar fjölskyldu, var vel af Guði gerð bæði til munns og handa. Hún var mikil húsmóðir, sérstaklega umhyggjusöm um fjölskyldu sína og heimili. Eins var kært milli hennar og þess stóra systkinahóps, sem hún átti.

Ingibjörg vann nokkuð utan heimilisins og naut hún vinsælda hjá starfsfélögum sínum og trausts hjá vinnuveitendum. Hún var sérstaklega skemmtileg og ljúf í vinahópi. Sýndi með allri framkomu sinni hlýju og göfugt hjartalag, sem allir kunnu að meta, er henni kynntust.

Á síðari árum átti hún við erfiðan sjúkdóm að stríða, sem mjög dró úr þreki hennar og olli henni miklum þjáningum og dró hana að lokum til dauða.

Í þeirri baráttu sýndu börn hennar og eiginmaður, sem hefur átt við vanheilsu að stríða síðustu ár, mikla umhyggju og kærleika, sem lýsir vel mannkostum þeirra og kærleiksríku hugarfari.

Að leiðarlokum vottum við Sirrí eiginmanni, börnum, barnabörnum og systkinum okkar dýpstu samúð og hluttekningu við fráfall hennar og biðjum ykkur Guðs blessunar.

Elsku Lilla, við þökkum þér vináttu og elskulega samfylgd á liðnum árum og biðjum þér ljóss og friðar í nýjum heimkynnum.

Sigríður og Gunnar.

Ágúst Ingi og Elva Björk.