Halldór Laxness í vinnustofunni að Gljúfrasteini 1980.
Halldór Laxness í vinnustofunni að Gljúfrasteini 1980.
Í þessari grein er fjallað um sagnalist Halldórs Laxness, frá hinum auðuga og þéttriðna söguþræði sem gerir sögur hans ómótstæðilegar, eða eins og höfundur segir: "Það er tilgangslaust að reyna að streitast á móti, texti eftir Laxness er kraftur sem fer beint, ákveðið, ég segi ykkur það satt, það er eitthvað ómótstæðilegt við hann!"

FYRST er að nefna það sem blasir við, Frakka finnst alveg augjóst: ánægjan, snilligáfan til að segja frá, rekja sögu sem einkennir svo mjög skandinavíska rithöfunda og gera það að verkum að alveg frá upphafi, án þess að nokkur fjarlægð sé tekin, umyrðalaust, erum við strax komin á kaf, bólakaf, hreint að drukkna í gríðarmiklu frásagnarflóði þar sem útúrdúrar, persónur, óvæntir atburðir, umhverfi og breytingar á því, tímabil gjarna varpað á milli koma hvert á fætur öðrum, rekast hvert á annað, troðast hvert um annað, jafnvel svo að hætta er á því að manni fallist hendur við að reyna að greina þetta.

Ég hef mikið fengist við norrænar bókmenntir (íslenskar að sjálfsögðu, en líka danskar, norskar, sænskar, færeyskar) undanfarin fjörutíu ár, bæði Íslendingasögurnar, H.C. Andersen, K. Hamsun, A. Strindberg, allir rithöfundar sem ég hef meðal annars eytt miklum tíma og orku í, en viðbrögð mín hafa ætíð verið þau sömu: ég hef hálfpartinn verið bergnuminn frammi fyrir því hversu auðugur, mikill að vöxtum og þéttriðinn söguþráðurinn er, en án hans er einfaldlega ekki hægt að tala um þessar bókmenntir. Þetta gengur jafnvel svo langt að í leikritunum (Ibsen) er fremur sagt frá en hugleitt, í ljóðlistinni (Ekelöf) er áherslan fremur á frásögnina en ljóðrænuna, í ritgerðunum (Kierkegaard) er frásagnarlistin iðkuð til jafns við hugleiðinguna o.s. frv. Ég sé það líka vel að þessi einkenni eiga í senn rætur að rekja til lifandi verka og ná lengst aftur til ómælisnátta norðursins sem bókmenntir: þegar öllu er á botninn hvolft byrjuðu þessar bókmenntir í raun og veru með Íslendingasögunum og það sem ég var að skrifa á mjög vel við þessar glæsilegu frásagnir þar sem ríkir kraftur og orka sem ómögulegt er að standast.

Og á vissan hátt er það að tala um Laxness, en ég hef þýtt fimm af helstu verkum hans (Íslandsklukkuna, Heimsljós, Gerplu, Kristnihald undir jökli og þýðing mín á Sjálfstæðu fólki kemur út eftir nokkrar vikur) fyrst og fremst það að hylla þessa ótrúlegu frásagnarsnilld. Hann er umfram allt snillingur í mínum augum að því leyti að hann er holdgervingur þessa sérskandinavíska hæfileika sem ég minntist á hér að framan.

Lítið til dæmis á óviðjafnanlega aðferð hans til að koma sér beint og vafningalaus að efninu, rétt eins og við hefðum lengi verið að fást við þetta viðfangsefni: ekki einu sinni neitt "það var einu sinni maður sem hét X". Ekki kemur heldur til greina að draga upp mikla lýsingu (hún kemur síðan í framhaldinu, oft þegar nokkuð er liðið á söguna), koma persónu fyrir (yfirleitt þurfum við að bíða þess að persónan tali til að dæma hana, rétt eins og í bestu Íslendingasögunum), draga tímamörk (þetta atriði er afar mikilvægt, það þarf að lesa nokkuð langt inn í Sjálfstætt fólk til að ná að átta sig á því á hvaða skeiði Íslandssögunnar skáldsagan gerist). En síðan koma snöggleg umskipti, gjörðir, aðgerðir sem skipta máli, jafnvel orðræða sem hlaðin er merkingu. Og er varpað fram hrárri, jafnvel ruddalegri, án þess að kveða upp dóma, án undirbúnings, þessi list hefur alltaf minnt mig á ákveðnar hugleiðingar Robbe-Grillets (sem er vissulega fulltrúi stefnu sem Laxness hefði ekki getað aðhyllst, en það er ekki viðfangsefni mitt hér!) þess efnis að maðurinn sé einungis maður og hlutir einungis hlutir. Nú er semsagt skorað á okkur að fara inn í þetta umhverfi, þessa stund, þessa karl- eða kvenpersónu. Lesendur eru ekki beðnir um að kveða upp dóm yfir þeim eða skoða þær úr ákveðinni fjarlægð, þvert á móti er nálægðin alger.

Það er tilgangslaust að reyna að streitast á móti, texti eftir Laxness er kraftur sem fer beint, ákveðið, ég segi ykkur það satt, það er eitthvað ómóstæðilegt við hann!

Auðvitað útheimtir þetta viðeigandi tungutak sem enn einu sinni minnir á þær Íslendingasögur sem best eru heppnaðar: efnisorð, aðgerðasagnir, mjög lítið um orðskrúð eða "tilfinningaþrungin" lýsingarorð, og setningaskipan sem fær þýðandann til að reyta hár sitt því hún snýst ekki fyrst og fremst um rökhyggjuna heldur fylgir nákvæmlega krókaleiðum ákveðinnar hugsunar sem felst í því að fylgja framvindu atburðanna en ekki vandlega unninni framsetningu. Ég hyggst ekki þyngja mál mitt með því að fara nánar út í raunverulega erfiðleika þessa tungumáls, tungumáls sem er svo erfitt að sérfræðingar urðu að útbúa lykilbók til að auðvelda skilning á þessum textum. Ekki dreg ég úr því að Laxness hafi af sínum alkunna húmor viljandi ýtt undir þennan hluta ritverka sinna! Ég held þó, af því meðfædda og ómeðvitaða innsæi sem hann hafði um dýpt og ósegjanleika þess sem var inntak verka hans, hafi hann unnið, hnoðað, togað og teygt mál sitt til að fá það til að tjá sem best þessa skapandi tilfinningu sem er í eðli sínu óútmáanleg og einkennir alla mikla rithöfunda. En það jafngildir líka því að segja að menn þurfa að leggja á sig að fylgja ekki einungis söguþræðinum, heldur reyna að endurskapa innsæi höfundar, hvernig hann höfðar til skynjunar lesandans og tilfinninga, í stuttu máli allt sem ljær þessum verkum víddir sem eru hreint stórkostlegar og skilja þýðandann eftir - ég get nefnilega ekki séð málin á annan hátt, þið verði að afsaka það! - með nokkuð erfiða tilfinningu hálfgerðs ósigurs fyrir vandanum að koma því á framfæri sem býr í textanum.

Munið eftir kaflanum fræga úr Íslandsklukkunni þar sem er verið að hugleiða hugtakið sekt manns! Og hvað finnst ykkur: drap hann mann eða drap hann ekki mann, hann Jón Hreggviðsson? Nauðgaði eða nauðgaði hann ekki, hann Ólafur ljósvíkingur? Og hvaða skoðun hafið þið á laxinum í Kristnihaldinu? Það er ljóst að Bjartur í Sumarhúsum vill gera sitt besta til að standa á skoðunum sínum um sjálfstæðið, gott og vel, en hver er hin djúpstæða skoðun höfundarins, tókst Bjarti ætlunarverk sitt eða á að líta svo á að honum hafi algerlega mistekist það? Ég sé fátt annað en stundir þar sem fréttir úr samtímanum veita honum innblástur í beiskar hugleiðingar og engin ástæða er til að ætla annað en að séu alveg einlægar - einkum um heimsku stríðsins, um makkíavelískan kapítalismann, um hræsnisfulla auðhyggjuna - þar sem hann hættir að vera fjarlægur og kemur til dyranna eins og hann er klæddur: það er örugglega ástæðan fyrir því að til dæmis Gerpla sker sig nokkuð úr öðrum verkum hans og grimmilegt skopskynið gerir það að verkum að það er sér á parti. Ég hugsa líka að sífelld skoðanaskipti hjá höfundinum, frá kaþólsku til dadaisma, frá kommúnisma til sósíalisma og síðan taóisma, að sjálfsögðu þótt undir byggi ævinlega óhagganlegur og traustur "íslandismi", beri fremur að skilja sem prófraunir heldur en djúpstæðan vilja til að ganga þessum hugmyndum á hönd: fyrir Laxness skipti mestu máli að halda sig sem næst hinum verufræðilega raunveruleika þessara karla og kvenna sem okkur eru sýnd á ófrávíkjanlegri leið þeirra að þeim örlögum sem þeim eru búin. En ég kem aftur að því síðar.

Ég myndi enn vilja benda á eitt atriði sem er sérstakt: skort á samfellu í frásögninni. Þessi hugsun, þessi rit lúta ekki heldur neinum fastmótuðum ritunarlögmálum sem Frakkinn sem hér stýrir penna þekkir ósjálfrátt og ganga út á óhagganlega keðjuverkun orsaka og afleiðinga. Ekki það að hugarflugið komi á undan byggingunni, því fer fjarrri. En það "rökræna" sem hér ræður ríkjum minnir einna helst á einhvers konar kvikmyndatækni þar sem áherslan er eingöngu lögð á "aðalatriðin", að því er virðist án þess að þau tengist neitt sérlega mikið saman nema eftir á, eftir vandlega umhugsun. Það dæmi sem enginn á að láta fram hjá sér fara er Sjálfstætt fólk, þar sem einn kaflinn tekur við af öðrum án þess að samhengið liggi endilega í augum uppi. Svo ekki sé nú minnst á "niðurstöðu" sögunnar sem lætur Evrópusöguna hreinlega ryðjast inn í söguna með nokkurs konar drungalegri gleði því þarna er á ferðinni fyrri heimsstyrjöldin og allt það góða sem hún hafði í för með sér! List höfundarins rís hæst þegar hann raðar saman fullkomlega mótuðum gimsteinum, óaðfinnanlega pússuðum og frágengnum, sem koma hver á fætur öðrum með nákvæmni, natni, athygli sem jaðrar við að vera brjálæðisleg enda þótt ekki liggi í augum uppi að tengsl séu á milli þeirra. Í það minnsta við fyrsta lestur. Það er nefnilega svo að þegar betur er að gáð kemst maður að því að það er til nokkuð sem nefnist sjónarmið Síríusar þar sem hægt er að fá yfirsýn yfir verkið og skilja það: hér er eflaust um persónu Kólumkilla að ræða. En ég bið ykkur að taka eftir þessu "eflaust": ekkert er fyrirfram gefið án nokkurs vafa, alltaf er dyrum haldið opnum til nýrra túlkunarleiða, til að lesa verkin á óvæntan hátt. Það er aldrei hægt að loka Laxness inni í fyrirframgefinni formúlu í eitt skipti fyrir öll. Þegar heiðarlegur háskólamaður eins og ég er er búinn að ræða bókina í þaula, greina hana sundur og saman, þá stendur það eftir að aðalatriðið hefur farið framhjá honum - og ég óttast að það eigi alla tíð eftir að fara framhjá honum. Afraksturinn af því að lesa skáldsögur sem þessar er í senn pirrandi og heillandi. Pirrandi vegna þess að allar fyrirframgefnar greiningaraðferðir okkar eru skyndilega ónothæfar, ég var að segja það. Heillandi vegna þess að töfrar þessarar listar að segja frá, segja sögu eru einmitt fólgnir í þessu ólokna. Eða þessari opnun.

Já, maður fyllist einhvers konar örvæntingu við að tala um Laxness, einkum fyrir "latneskan" huga. Til að fara nú ekki út fyrir þau mörk sem mér er úthlutað er ég að hugsa um að taka enn eitt dæmi. Það er ljóst, eins og ljóðskáldið okkar René Char orðar það og ég vitna oft í þegar ég er að fjalla um skandinavíska list enda þótt skáldið hafi haft annað í huga, "að raunveruleikinn er aðeins til upphafinn". Ég hef þegar nefnt þetta í öðru samhengi, allir norrænir textar og einkum og sér í lagi allt sem Laxness skrifaði, útheimtir tvöfaldan lestur. Það sem fyrir fjórum eða fimm áratugum var kallað "yfirborðsbygging" (segjum: flöt frásögnin og það sem tengist henni beint) hylur "djúpbygginguna", ræður henni raunar og er staðurinn þar sem hún á sér ból, þar sem flétta sögunnar á raunverulega heima, þar sem sálfræðilegu átökin eiga sér stað, þar sem raunverulegt eðli persónanna, raunverulegra og skáldaðra, er afhjúpað. Hér er Laxness stórkostlegur: Hver sér ekki, svo ég komi nú aftur að uppáhaldstextanum mínum, að Ásta Sóllilja er til í þremur lögum sem liggja hvert ofan á öðru, allt frá litlu "sólar" stúlkunni til fátæku sorgmæddu konunnar sem ber ábyrgð á vesalings börnunum, með viðkomu hjá "liljunni" hans Bjarts? Lítið einnig á nákvæma merkingu spegilsins sem Ólafur Ljósvíkingur ljær stúlkuveslingnum undir lok Heimsljóss. Hugsið til alls þess sem endurómar í viðurnefni Snæfríðar Íslandssólar? Og ég ætla ekki að hafa langt mál um persónu Úu í Kristnihaldi undir Jökli, það er svo augljóst að þar var Laxness að skemmta sér af þeirri gleði sem auðvelt er að geta sér til um, leika sér með merkingu og vísanir með aðferð sem Vesturlönd voru svo hrifin af á miðöldum og lengur og einnig má sjá í nýlegri bókmenntum. Enda hefur hefur hið yfirnáttúrlega á Íslandi ævinlega fundið sér útrás í hinum skuggalegu persónu drauganna og einn slíkan alræmdan er að finna í Sjálfstæðu fólki. Eða þið ættuð bara að reyna að finna út úr því hvort Gunnvör er "alvöru", dauð eða eilíf, eða hvort hún hafi í raun verið "endurgrafin" með steininum sem Bjartur lét reisa?

Það er til enn ein leið til að komast að þessu leyndarmáli þegar maður er að tala um Laxness. Enda verður því ekki í móti mælt að um leið og byrjað er á einhverri skáldsagna hans er lesandinn undireins heltekinn, heillaður - og skýringuna á því er ekki svo erfitt að finna. Hún er fólgin í því ósagða, öðru hugtaki sem mjög er í tísku um þessar mundir, sem maður skynjar að baki textanum og örvar okkur, hvetur okkur til þess að lesa. Ég kem aftur að þessu: það hefur komið fyrir að ég hafi ritað að hinn raunverulegi deus omnipotens et otiosus (alvaldur og falinn guð) Íslendingasagnanna séu Örlögin, og að þau birtist á margvíslegan hátt undir ýmsum nöfnum. Besta og skýrasta dæmið um þetta er úr Njáls sögu. Ég get ekki varist því að sjá í skáldsögum Laxness eins konar meðvitaða, stöðuga og djúpstæða virðingu fyrir þessum Örlögum sem stýra lífi okkar allra, sem kanna nýru okkar og hjörtu eins og segir í Biblíunni, nokkuð sem liggur í augum uppi en við skiljum ekki - eða munum réttara sagt ekki koma til með að skilja fyrr en á dauðastundinni. Ég held að það sé í þessu sem lykilinn að snilld Laxness sé að finna: persónur hans eru nátengdar örlögum sínum, þær átta sig ekki endanlega á því fyrr en á síðustu blaðsíðum eigin sögu, og sama er að segja um okkur, í sama fluginu. Menn kunna að finna að því við mig að ég sé að tala um eitt af lögmálum allra skáldsagnaskrifa, að svo miklu leyti sem þau snúast um að rekja persónusögu (örlög). Vissulega! En hjá Laxness er merking þessarar dulúðar, þessa ósagða sem við reynum að nálgast greinilega, mun áþreifanlegri, meðvitaðri, mun betur felld inn í frásögnina.

Og að fjalla um Laxness, það er að reyna að rekja þessa glímu við Engilinn.

Friðrik Rafnsson þýddi.

EFTIR RÉGIS BOYER

Höfundur er heiðursprófessor við Sorbonne-háskólann í París. Hann er sérfræðingur í norrænum fræðum og þýðandi.

Höf.: EFTIR RÉGIS BOYER