Nokkrum sinnum hef ég komið að Nöf á Hofsósi og staðnæmzt þar um stund; skyggnzt um og séð fyrir hugskotssjónum daga móður minnar, systkina hennar, ömmu og afa.
Reyndar er allt orðið með öðrum brag; torfbærinn týndur og timburhúsið brunnið, en kjallari þess stendur enn og verður senn krýndur nýju húsi Vesturfarasetursins.
"Nöf tilheyrir þessari þyrpingu gömlu húsanna, sem við erum með hérna, og því finnst okkur eðlilegt að taka hana með," segir Valgeir Þorvaldsson, forstöðumaður Vesturfarasetursins.
"Sveitarfélagið á húsið, en hefur samþykkt að láta okkur fá það. Það hefur verið notað sem geymsla og hefur lítið varðveizlugildi. Því munum við reisa nýtt hús á kjallaranum.
Reynt verður að byrja á verkinu í haust og stefnan er að klára það næsta vor."
Nöf er að sögn Valgeirs tíunda húsið, sem er byggt/endurbyggt á vegum Vesturfarasetursins.
Kjallarann, sem nýja húsið verður smíðað á, lét Skafti frændi minn Stefánsson steypa 1921 og þar á byggði Nafarfjölskyldan tvílyft timburhús.
Amma og afi, Dýrleif Einarsdóttir og Stefán Pétursson, fluttu til lands úr Málmey með fjögur börn 1907. Þá var afi illa farinn af endurteknum áföllum og hafði aðeins nokkra fótavist með köflum.
Hreppsnefndin bar kvíðboga fyrir framtíð þessarar fjölskyldu og vildu menn fyrir alla muni leysa hana upp, en amma aftók það með öllu. Hún amma mín var kjarnorkukona. Hún vildi ekki að fjölskyldan tvístraðist. "Aldrei að guggna" var hennar orðtæki.
Þeim afa var þá boðið að setjast að með börnin á Spáná, koti fremst í Unadal, en því höfnuðu þau, enda bundu þau lífsvonina við sjóinn og fiskinn. Lyktir urðu þær, að fjölskyldan flutti í kofaræksni með óræktartúnkraga, þar sem hét Nöf og var við Hofsós. Hreppurinn átti húsnæðið og var enginn mannabústaður í hreppnum eins lágt metinn, segir Kristmundur Bjarnason í grein um Skafta frænda í Skagfirðingabók.
Guðrún Björnsdóttir frá Kornsá skrifaði um ömmu Dýrleif í bókinni Íslenzkar kvenhetjur. Þar segir að aðkoman að Nöf hafi verið heldur köld. "Túnið í órækt og kofarnir í mestu niðurníðslu. - Baðstofan var tvö stafgólf. Moldargólf var þar og óþiljað nema rétt fyrir ofan rúmbálkana. Þeir voru tveir öðrum megin, en einn hinum megin. Í auða bilið fyrir aftan hann lét Dýrleif síðar setja upp eldavél sína og var því sjaldan mjög kalt í baðstofunni.
Fyrir framan baðstofuna var nokkurt geymslurúm, auðvitað óþiljað og með moldargólfi. Þar voru hlóðir."
"Og nú hófst samtaka hvíldarlaust erfiði," segir Guðrún frá Kornsá. Hún hefur eftir nákunnugum manni á Hofsósi, að það væri varla gerandi að segja nútímafólki frá starfsorku Nafarhúsfreyjunnar, hörku hennar og þoli við auk alls annars hvíldarlausan fiskþvott og uppskipun, því að enginn mundi öðru trúa en það væru skröksögur einar. Skafti fór barnungur með afa til sjós frá Málmey og um sjósókn ömmu og elztu drengjanna, Skafta og Péturs, frá Nöf fer líka sögum. Þrettán og 9 ára réru þeir til fiskjar og þegar hún var ekki með, þá stjórnaði hún þeim úr landi; af Nöfinni.
En með hörkunni hafðist það og fjölskyldan komst til bjargálna og betra húss.
Í Jarða- og Búendatali í Skagafjarðarsýslu 1781-1958 er Nöf talið þurrabúðarbýli frá Hofi. Þegar Hofsóskauptúni var 1948 skipt úr Hofshreppi hinum forna og gert að sérstöku hreppsfélagi, lenti Nöf í hinum nýja hreppi og 1950 tók ríkið Hofsósland eignarnámi og seldi það aftur Hofsóshreppi.
Hvergi sér nú fyrir torfbænum, sem amma og afi fluttu í með börnin sín fjögur og eignuðust sitt yngsta barn; hana móður mína. Bærinn stóð í miðri götu, þar sem nú er farið niður á Norðurhafnargarðinn. Hann stóð það nálægt sjó að þegar veður voru, gekk sjórinn yfir og allt í kring um hann.
Föstudaginn 4. nóvember 1921 voru matsmenn sýslumanns "staddir að Nöf í Hofshreppi til þess að meta til skatts hús og lóðareign Skapta Stefánssonar þar. Lóðina sem byggingarnar standa á keypti Skapti Stefánsson s.l. ár.
Lýsing og mat á eign þessari er sem hér segir.
Timburhús nýbyggt 8x10 al. með pappaþaki, hæð undir loft 3¼ al. frá lofti í mæni 5 al. - ...1¼ al. -
Í húsinu eru 5 sperrur, 5 gluggar niðri og 2 í lofti (alls 6 rúður). Niðri er húsið þiljað yfir þvert með gangi við austurstafn og þar uppgangur í loft og niðurg. í kjallara. Einar útidyr. Á lopti er 1 þverskilrúm. Í húsinu uppi er 1 ofn og eldavél. Undir húsinu er kjallari steinsteyptur 10x14 al. (Kjallarinn nær 6 al. austur fyrir húsið.) Vegghæð 3¼ al. gólf steinsteypt. Á kjallaranum eru 1ar útidyr og 6 gluggar. Vesturhluti kjallarans er þiljaður og hólfaður sundur eftir endilöngu með tvöföldu skilr. Í kjallaranum er 1 góð eldavél. Vatnsleiðsla er í kjallara hússins, og skólprenna er þar.
Metið á kr. 8000.00
2. Norðan við timburhúsið nr. 1 er skúr úr steini - steyptur 8x14 al. með járnþaki, vegghæð 3-4 al. Einar útidyr 3 gluggar. Eitt þverskilrúm. Við útidyrnar er steinst. skúr 2¾x4½ al.
Metinn kr. 500.00
3. Torf og timburbær - tvær húsaraðir - Ytra húsið er borðstofa og eldhús 10x5 al afþiljað með 1 skilrúmi. Syðra húsið er geymsluhús með 1 litlu herbergi í vesturenda 3x4 al. afþiljuð. Austurhluti þessa húss er óþiljað. Að húseign þessari eru torfveggir vel stæðilegir. Alstafnar úr timbri 2 austan með einum dyrum og stórum glugga. Hálftimburstafnar að vestan með gluggum. Torfþök á báðum húsum.
Metið á kr. 800.00
4. Lóð 1180 fermetrar girt á tvo vegu metin 1500.00
----------------------
Alls 10.800.00
En Nafarfjölskyldan naut ekki lengi nýja hússins. Vorið 1922 fluttist hún alfarin til Siglufjarðar.
Þar bjó fjölskyldan fyrst í Skaftabrakka á Róaldslóð en flutti 1925 í nýtt þriggja hæða timburhús, sem Skafti nefndi Nöf, eins og söltunarstöð sína. Þau mannvirki hafa öll verið rifin og nú sér Nafarinnar engan stað í Siglufirði.
Kristmundur Bjarnason segir í grein sinni, Af Skafta frá Nöf og skylduliði, sem birtist í Skagfirðingabók 1994, að telja megi Skafta brautryðjanda að verulegri útgerð á Hofsósi og hann hafi fyrstur manna lagt til að hafnarmannvirki yrðu reist suður af Nöfinni við Hofsós. Þegar verulegur skriður komst á hafnarmálin bauð Skafti hreppsnefnd Hofshrepps Nöfina og smáspildu út með sjónum til kaups og seldi Skafti land og hús á 7.000 krónur. Síðar var hans minnzt með því að nefna útgerðarfélagið á Hofsósi Nöf og skuttogara þess Skafta.
Jakob Einarsson í Brekku á Hofsósi sagði mér, að eftir að Skafti og skyldulið fluttu til Siglufjarðar hafi verið búið í Nafarhúsunum; bæði torfbænum og timburhúsinu. Þegar Hafnargerðina vantaði húsnæði fyrir verkamenn við höfnina, fékkst timburhúsið til þeirra og þegar þeir fóru, fluttu fjölskyldur inn.
Hjálmar Sigmarsson bóndi í Hólkoti í Unadal bjó í timburhúsinu á Nöfinni; kom þangað 11 ára 1931 og bjó þar til 1938 að þeir bræður reistu Bræðraborgarhúsið á Hofsósi.
"Á Nöfinni bjuggum við á efri hæðinni, sem var með risi, en þar bjuggu á undan okkur Guðni Þórarinsson og fjölskylda hans. Á miðhæðinni, þar sem voru þrjú herbergi og eldhús, bjuggu Kristín Hermannsdóttir og sonur hennar, sem Hermann hét og fleira fólk var hjá þeim mæðginum. Í kjallaranum bjó svo eldri kona.
Nöf var bezta hús og fór vel með sitt fólk. Ég man aldrei eftir neinu slæmu í því.
Fyrir ofan húsið byggði Skafti gríðarstóran skúr með flötu þaki og þar voru hafðar kindur og hross.
Gamli torfbærinn stóð enn, þegar ég var krakki."
Jakob Einarsson telur að torfbærinn hafi verið rifinn 1936. Síðustu ábúendurnir voru Þorsteinn Jónsson og kona hans, Sigríður Sigurjónsdóttir, en þau fluttu að Lyngholti, þegar vinna hófst við vestari hafnargarðinn, en vegurinn að honum liggur þar um sem bærinn stóð.
Að sögn Jakobs var timburhúsið alltaf íbúðarhús og um tíma notað sem verbúð að hluta.
Að morgni 15. nóvember 1941 brann Nöf. Þá bjuggu í húsinu mæðgurnar Jakobína Aðalsteinsdóttir og Anna M. Símonardóttir og hjá þeim drengur á þriðja ári; Bragi Pálsson frá Sauðárkróki.
Jakob sagði, að eldsvoðinn hefði ekki orðið af völdum mæðgnanna. "Pétur Jónsson átti leið þar hjá, þegar eldurinn var að brjótast út, en þá voru mæðgurnar rétt skriðnar á fætur og ekki búnar að taka upp eld.
Það orð lá á, að eldurinn væri af völdum sígarettu, sem einhver hefði hent í kjallaranum, þegar menn bjuggust þar til sjós. En það var aldrei látið neitt uppi um þetta.
Opinberlega minnir mig, að skuldinni hafi verið skellt á einhvers konar sótmyndun í strompinum."
Nöf brann til kaldra kola og sagði Jakob, að fólkið hefði komizt klakklaust út, en engu mátti bjarga af búslóðinni.
Níu dögum eftir brunann eru skoðunarmenn á vegum Brunabótafélags Íslands mættir til "að skoða brunarústir hússins "Nöf" í Hofsós (sem brann til kaldra kola að morni dags 15. s.m.) og meta það úr húsinu, sem er einhvers virði.
Skoðun og mat er sem hér segir: Húsið brann gjörsamlega upp þ.e. allt sem brunnið gat. Eftir af því er aðeins kjallaraveggir og lítið eitt af þakjárnsrusli, sem er mjög mikið rifið, beyglað og brunnið og telja má nánast einskis virði.
Kjallaraveggir hússins, sem eru 8,8 metr. að lengd 6,2 metr. á breidd og 2 m á hæð með 3ur dyraopum og 6 gluggaopum, 32 sm þykkir eru upphaflega úr fremur óvandaðri sementssteypu (malarmikil og gisin) mega teljast fremur lítið skemmdir af brunanum, þó eru í þá sprungur, sem ekki er víst að séu af völdum brunans. Efst í veggjunum virðist steypan vera lausari en að neðan og er ekki ólíklegt að það stafi af brunanum.
Veggir að skúrgarmi sem var norðan við húsið og inngangi í kjallara eru algjörlega ónýtir.
Mat það er hér er gert, er miðað við verðlag og vinnukaup 1932, þegar brunabótavirðing hússins var gerð.
Kjallaraveggir kr. 250.00
Þakjárnsrusl " 14.00
Samt 264.00"
Um árabil göptu Nafarrústirnar við gestum og gangandi, þar til 1948 að Hafnargerðin byggði núverandi hús á grunni þess gamla. Meðan hafnarvinnan varði hýsti það verkamenn, en hefur eftir það verið notað sem geymsla.
Nýja Nafarhúsið verður kvistum ríkara en það hús sem áður var. En þótt gengið verði um Nöfina á nýjum viðum, mun fótatak liðins tíma líka eiga þar heima.
freysteinn@mbl.is