HRAKSPÁR og ótíðindi hafa löngum verið vinsæl lesning. Þar sem framboð á lesefni fylgir eftirspurn er enginn skortur á rituðum heimildum fyrir því að veröldin sé að fara til fjandans. Fyrr á öldum tilgreindu slíkar heimildir einkum trúarleg rök. Menn gátu t.d. vitnað í Jesaja spámann sem sagði: "Sjá, dagur drottins kemur, grimmilegur, með heift og brennandi reiði, til að gjöra jörðina að auðn og afmá syndarana af henni." (13:9) Nú er leitað í smiðju náttúrufræðinga. En hvort sem dómsdagsspár styðjast við guðfræði eða raunvísindi eru spámennirnir yfirleitt sammála um að orsökin fyrir þeim ósköpum sem í hönd fara sé syndir og misgjörðir mannanna.
Síðustu ár er helst í tísku að spá hörmungum vegna þess að orkunotkun manna valdi aukningu á koltvísýringi í andrúmsloftinu. Þetta kvað auka gróðurhúsaáhrif og þar með hita á yfirborði jarðar. Fyrir aldarfjórðungi síðan var líka í tísku að spá því að veður breyttist til hins verra af mannavöldum, en þá var það ísöld sem menn óttuðust. Hægt er að nefna fleiri vinsælar grýlur frá seinni árum. Þær frægustu eru kannski fólksfjölgunarsprengjan og ósongatið.
Flestar svona hryllingssögur eru í tísku um skamma hríð og svo taka aðrar við. Þetta virðist gerast nokkuð óháð því hversu sennilegar eða ósennilegar þær eru. Einu sinni var mikið ritað um afleiðingar af notkun kjarnorkuvopna. Þarna var um raunverulega hættu að ræða. Hún er enn fyrir hendi og það er umhugsunarefni hvers vegna þeir sem hæst láta um hættur sem stafa af áhrifum manna á náttúruna skuli hafa meiri áhyggjur af hugsanlegum loftslagsbreytingum vegna koltvísýrings, sem menn blása út í loftið, heldur en af kjarnorkuvopnum. Flest bendir til að veðrabreytingar af manna völdum verði aldrei nema litlar í samanburði við náttúrulegar sveiflur í veðurfari og óvíst er hvort þær verða á endanum til ills eða góðs. Kannski hafa þær engin áhrif sem máli skipta. Kannski valda þær aukinni úrkomu þar sem nú er erfitt að stunda akuryrkju sakir þurrka. Kannski fresta þær næstu ísöld. Þetta veit ekki nokkur maður. Hins vegar er vitað með nokkuð öruggri vissu að afleiðingar af stórfelldri notkun kjarnorkuvopna yrðu skelfilegri en orð fá lýst.
Ef til vill er ástæðan fyrir því að gróðurhúsaáhrif eru vinsælli hrollvekja en kjarnorkustríð sú að goðsögn um yfirvofandi hörmungar fullnægir ekki trúarþörf manna nema ósköpin séu okkur öllum, eða a.m.k. flestum, að kenna: þau verði rakin til einhvers sem venjulegt fólk gerir oft eins og að aka bíl sem gusar koltvísýringi út um púströrið. Hjá spámönnum Gamla Testamentisins og kristnum norðurálfubúum gera heimsendaspádómar af trúarlegum toga yfirleitt ráð fyrir að æðri máttarvöld umturni veröldinni af reiði yfir munaði, gjálífi og léttúð venjulegs fólks. Milli línanna í slíkum skrifum má lesa urg og beiskju út í þá sem njóta lífsins í bland við samviskubit yfir að taka sjálfur þátt í veislunni. Kannski eru líka aðrar hvatir að baki. Hvað sem því líður eiga kenningar um að fólki hefnist grimmilega fyrir lífsnautnir, þægindi og eftirsókn eftir jarðneskum gæðum sér víða hljómgrunn.
Þótt flestar hrakspár séu skammlífar er nokkrum haldið á lofti áratug eftir áratug. Ein sú lífseigasta fjallar um auðlindaþurrð, að velmegun og öflugt efnahagslíf leiði til slíkrar sóunar á náttúruauðlindum að þær gangi til þurrðar og lítið verði eftir handa komandi kynslóðum. Þessari hugsun bregður t.d. fyrir í grein eftir Hjörleif Guttormsson sem finna má á vefsíðum hans. Þar segir: "Ef allir jarðarbúar byggju við neyslumynstur Vesturlanda er talið að fimm hnettir eins og Jörðin nægðu tæpast til að standa undir veislunni, slíkur er ójöfnuðurinn og sóunin." (Umhverfismál í aldarbyrjun, á www.eldhorn.is/hjorleifur/vett2001/100101.htm)
Þetta er skelfing vonarsnauð viska. En sem betur fer er kenningin ekki mjög sennileg. Tæknivædd og auðug samfélög fara að jafnaði betur með náttúruauðlindir en þau sem búa við frumstæða atvinnuhætti og ástand umhverfismála skánar yfirleitt með batnandi efnahag. Vesturlandabúar höggva t.d. ekki skóg til að kynda hús og elda mat. Þeir þurfa minna akurlendi á mann til fæðuframleiðslu en þeir sem ekki hafa tök á tæknivæddum landbúnaði og með hverju ári sem líður framleiða þeir meiri verðmæti úr minni og ódýrari hráefnum (kísilflögur og glerþræðir taka við af rafeindabúnaði úr málmi, tæki verða smágerðari, bílar eyða minna eldsneyti o.s.frv.). En þótt menn viti þetta vilja samt margir trúa því að það sé eitthvað rangt við lifnaðarhætti Vesturlandabúa. Það geti ekki gengið að menn lifi svona, þeim hljóti á endanum að hefnast fyrir óhófið og munaðinn.
Þessi hugmynd um auðlindaþurrð virðist kannski trúleg þegar þess er gætt að ýmis verðmæti eyðast þegar af er tekið. En þegar öllu er á botninn hvolft hverfur samt lítið sem ekkert af jörðinni. T.d. er hluti þeirra málma sem áður voru í námum nú í bílakirkjugörðum, en þeir eru ekki horfnir eða hættir að vera til. En kannski gengur kenningin ekki út á að lifnaðarhættir Vesturlandabúa leiði til þess að einstök efni klárist. Kannski er hugmyndin sú að ekki sé til nóg akurlendi til að framleiða jafnmikinn mat handa öllum og ríku þjóðirnar háma í sig. En menn nýta aðeins lítinn hluta af ræktanlegu landi, verð á matvælum fer heldur lækkandi og framleiðsla á hvern jarðarbúa eykst, þótt fólkinu sé enn að fjölga, svo þetta er ekki heldur mjög trúlegt.
Vissulega geta tilteknar auðlindir klárast en það þýðir ekki endilega að mönnum séu allar bjargir bannaðar. Gerum ráð fyrir að einhverjum sem hugsar líkt og Hjörleifur væri plantað niður á miðri 19. öld. Hann gæti e.t.v. sannfært sjálfan sig og fleiri um að ef allar borgir fengju götulýsingu þyrfti að bræða meira hvalspik en til er á fimm hnöttum eins og Jörðin. (Á 19. öld voru götur víða lýstar með því að brenna lýsi, hvalspik og aðra dýrafitu). En slíkur málflutningur hefði auðvitað ekki sannað neitt um að götuljós í öllum borgum séu ómöguleg. Álíka málflutningur sem nú er uppi sannar heldur ekkert um hvað verður mögulegt eftir 50 eða 100 ár.
Auðlindirnar sem velmegun okkar byggist að langmestu leyti á eru annars vegar orka, hins vegar þekking og sköpunargáfa. Með nægilegri orku og nægilegu hugviti er hægt að raða þeim efnum sem finnast á jörðinni saman á ótal vegu. Mestöll orka sem við notum er frá sólinni hvort sem það er efnaorka í sykri, prótínum, fitu, jarðolíu og kolum eða orka fallvatna. Sólin heldur áfram að skína hvað sem við erum dugleg að nota ljós hennar. Orkustreymi til jarðarinnar eykst hvorki né minnkar við notkun. Þekkingin og sköpunargáfan minnka heldur ekki við notkun, aukast frekar ef eitthvað er. Það er því dálítið hæpið að halda því fram að uppsprettur velmegunar og hagvaxtar hljóti að ganga til þurrðar ef fleiri njóta þeirra. Með þessu er ég ekki að segja að við eigum að hætta öllum áhyggjum af mengun, illri umgengi við náttúruna og öðrum ámóta alvarlegum vandamálum. En dómsdagsspár, urgur, beiskja og svartagallsraus um að allt sé að fara til fjandans eiga lítið skylt við skynsamlegar áhyggjur. Er ekki farsælla að samgleðjast þeim sem hafa það gott og trúa því að meðan sólin skín og fólk hugsar sé von um betri tíð þar sem allir njóta allsnægta og geta jafnvel leyft sér dálítið af "syndsamlegu" óhófi?
ATLI HARÐARSON