King of Queens: Áhugamál þessa karls er matur, mótorhjól, fótbolti, pílukast, en konan er sjálfstæður verktaki.
King of Queens: Áhugamál þessa karls er matur, mótorhjól, fótbolti, pílukast, en konan er sjálfstæður verktaki.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helsti skotspónninn í amerískum gamanþáttum í íslensku sjónvarpi eru hvítir karlmenn um fertugt. Grínið er skefjalaust, grimmt og án miskunnar. Hvað er svona fyndið við þá og hvers vegna heldur enginn hlífiskildi yfir þeim? Má gera endalaust stólpagrín að þessum greyjum? Hér rýnir GUNNAR HERSVEINN, sem er hvítur fjörutíu og tveggja ára gamall karlmaður, í þennan kima "íslenskrar" menningar.

JÓNVARPSPERSÓNAN Cheryl hefur ekki fengið frí frá heimilinu sínu svo mánuðum skiptir. Hún á þrjú börn með eiginmanninum; tvær stúlkur á leikskólaaldri og ungabarn. Hún hlakkar óskaplega mikið til því í kvöld fer hún út að borða með manninum sínum en systir hennar passar á meðan.

Eiginmaðurinn Jim er karakter sem hefur tileinkað sér alla þá karlrembu sem hægt er að safna saman í einn persónuleika. Hann er mýtan um karlinn máluð skýrum línum. Cheryl réttir honum bjór þegar hann kemur heim á kvöldin. Hann hefur engan áhuga á uppeldi og tekst sífellt að blekkja dætur sínar til að losna við að leika við þær. Áhugamálin eru öll merkt karlmennsku; fótbolti í sjónvarpi, bjórdrykkja, át.

Cheryl er eins og áður sagði á leiðinni út að borða með Jim. Þau leggja af stað en á bílastæðinu fyrir utan veitingastaðinn stelur einhver stæðinu sem Jim var að búa sig undir að leggja í. Jim var búinn að koma auga á þetta stæði en öðrum bílstjóra tókst að móðga hann svo og niðurlægja með því að renna sinni bifreið í það, að kvöldið með Cheryl hangir á bláþræði.

Jim gat ekki þóknast konu sinni eða talað við hana eins og maður þetta kvöld. Hann var með allan hugann við þann sem niðurlægði hann og Cheryl kvaldist á veitingastaðnum.

Heimskir eiginmenn

Samskipti þessara hjóna birtast í þættinum According to Jim sem sýndir eru textaðir á Skjá einum. Ég tel þá vissulega hluta af íslenskri menningu í víðri merkingu þess orðs vegna þess að þeir eru þýddir og vegna þess að allir læsir geta fylgst með þeim ásamt þeim sem skilja ensku. Þeir eru hluti af íslensku heimilislífi, enda þættir í þessum dúr nokkuð vinsælir. Sagan um Jim er bara ein af ótal sögum í svipuðum dúr sem sagðar eru daglega í sjónvarpinu um hvíta karla.

Ég ákvað að taka góða skorpu og fylgjast með þáttum af þessari gerð á Skjá einum í september og október og gera tilraun til að greina mynd karlsins og konunnar. Sum kvöld sat ég t.d. frá kl. 19:00 til 21:30 og horfði á þætti með nöfnunum Will og Grace, Everybody Loves Raymond, Ladies Man, According til Jim og King of Queens. Einnig bætti ég við þættinum Malcolm in the middle og hætti að fylgjast með Will og Grace. Framleiðsla slíkra þátta er nú í miklum blóma í Bandaríkjunum og einnig sýndir hér fyrir íslenska áhorfendur. Ég gaf þeim góðan tíma af haustlífi mínu og skemmti mér sem betur fer alveg bærilega.

Dreginn sundur og saman...

Það sem þessir þættir eiga sammerkt er að karlinn, eiginmaðurinn/pabbinn, er hafður að háði og spotti og það má bóka að hann er heimskasta persónan; Heimski Jim, heimski Doug, heimski Jimmy, heimski pabbi Malcoms, heimski Raymond, bróðir hans og pabbi hans líka. Þeir eru allir stúpid alveg í gegn! Allt sem þeir segja, allt sem þeir gera, hver og ein einasta hugsun og tilfinning er merkt mýtunni um karlinn.

Þættirnir eiga það einnig sameiginlegt að konan er gáfnaljósið. Eiginkona Raymonds er t.d. eina persónan með viti, eins og Cheryl eiginkona Jims í According to Jim, og eiginkona Doug í King of Queens stendur áberandi betur en karlinn. Og ef það er ekki konan, þá er það barnið, það er a.m.k. örugglega ekki karlinn; elskhuginn, pabbinn, eiginmaðurinn. Hann er sá heimski, feiti og klaufalegi. Konurnar eru hinsvegar allar eins og klipptar út úr tískublöðum: Glæsipíur.

Ef einhver lesandi þekkir ekki ofangreinda þætti, getur hann hugsað um Homer Simpson og Marge Simpson. Það er eitthvað spunnið í Marge en ekkert í Homer; ekki ein sella. Þessi víðfrægu teiknimyndahjón eiga nú ótal eftirmyndir í vinsælustu leiknu þáttunum. Homer er orðinn að arfmynd hvítra miðaldra karla á skjánum. Homer leysti Bill Cosby fyrirmyndarföður svo rækilega af hólmi að hann er nánast gleymdur.

En hvers vegna er þessi karlpeningur aðhlátursefni? Ég held að þetta sé ekki útpæld stefna hjá sjónvarpsstöðvunum eða handritshöfundum. Það bara einfaldlega gerist að þegar semja á gamanþátt um fjölskyldu eða par þá virkar betur að karlinn sé skotspónninn fremur en konan, einnig virðist hann vera öruggara skotmark.

Allir nema þessi

Einfaldasta skýringin á þessari tilhneigingu er þó þessi: Karlkyns gamanleikarar eru fleiri en kvenkyns gamanleikarar, og eiga meira fylgi að fagna. Aðalleikarinn í gamanþætti er ævinlega sá heimskasti. Ergó: Karlinn er oftast aðalleikarinn og er því ofast sá heimskasti. Þessi augljósa skýring útilokar þó ekki ögn dýpri skýringu sem varpar ljósi á ofnotkun þessarar formúlu. Aðrir hópar en hvítir karlar hafa háð mikla varnar- og sóknarbaráttu fyrir réttindum sínum og því að fullnægjandi virðing sé borin fyrir þeim.

Barátta hópa, sem hafa t.d. haft þau einkenni minnimáttar að vera útilokaðir frá völdum, hefur dregið úr gríninu á þá. Samkynhneigðir verða ekki lengur fyrir svívirðilegu gríni í gamanþáttum, konur ekki heldur, börn, aldraðir eða fatlaðir svo brot af hinum kúguðu sé nefnt.

Minnihlutahópar eru oft með skrifstofu og starfsmann, gefa jafnvel út tímarit, skrifa í blöðin, lesa drög að frumvörpum til þings og mótmæla augljósu misrétti, gera athugasemdir við efni í fjölmiðlum sem hallar á þá. Jafnréttisbarátta liðinna alda og jafnréttislög í siðmenntuðum löndum hafa einnig sín áhrif á stöðu kvenna, ásamt hreyfingum kvenna eins og feminisma. Háskóladeildir í nokkrum löndum sérhæfa sig í rannsóknum, t.d. kynjafræðum, hinseginfræðum, eða eru helgaðar hópum sem hafa þurft að berjast fyrir eðlilegum mannréttindum sínum eins og t.d svartir í Ameríku.

Aðalskotmark: Hvítur karl

Verulega hefur því dregið úr hlátrinum gagnvart minnihlutahópum í bandarískum gamanþáttum, og aðeins ein vera stendur eftir án þess að nokkur eftirmál fylgi gríninu: Hvíti karlmaðurinn! Tilgátan mín er að engum öðrum megi hlæja að alveg gegndarlaust og án samviskubits. Hvíti karlinn hefur aldrei verið í minnihlutahópi; hann er með völdin. Vissulega mætti segja að hann væri á hverri skrifstofu í hverju einasta viðskiptahverfi í heiminum, en hann hefur ekki gætt að sér því hann hefur aldrei ráðið sérstakan starfsmann til að gæta sjálfsagðra réttinda sinna. Frægt baráttufólk fyrir virðingu hans finnst heldur ekki eins og hjá hinum: Martin Luther King, Bríet Bjarnhéðinsdóttir.

Það er því 100% öruggt að gera grín að hvíta kallinum í bandarísku og íslensku sjónvarpi; fáir þora að kvarta, og enginn með völd dirfist að nefna þessa augljósu kynjaskekkju í gamanþáttum í sjónvarpinu. Þessir blessuðu eiginmenn eru þó ekki reyttir öllum fjöðrum; þeir eru t.d. ennþá með veskið sem táknar auðvitað völdin. Gallinn er bara sá að þeir hafa ekkert vit til að nota peninganna á skynsamlegan hátt. Fjárfestingar þeirra eru misheppnaðar, hégómlegar eða sjálfhverfar. Fyrirmyndarfaðirinn The Cosby Show á níunda áratug 20. aldar er ekki lengur fyndinn.

Tilgátan í Veru

Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir gerir greiningu á kynjunum í bandarískum gamanþáttum í 5. tbl af Veru sem kemur út núna eftir fyrstu helgina í nóvember, og ég fékk að lesa hana í tilefni þessarar rýni hér. Þórunn setur fram þá tilgátu að suma daga eða sum tímabil megi gjarnan hlæja að þeim sem hafa völdin og núna sé slíkur tími. "Hvað þá með skelfilega heimsku karlanna? Jú, þetta snerist karnival miðalda um að miklu leyti. Suma daga var leyfilegt að valdhafarnir væru dregnir sundur og saman í háði og það var talið nauðsynlegt til þess að draumórar þegnanna um breytt ástand létu síður á sér kræla." (bls. 26).

Þórunn skrifar að klókir valdhafar viti að það er til góðs ef einhver hlær að þeim, fremur en að grín sé gert að "undirmálsmönnum eins og fátæklingum, öryrkjum, útlendingum og konum". Ég er ekki sammála henni að þetta sé skýringin á hömlulausu gríni að hvítum eiginmönnum, þótt ég sé sammála að nú sé tíminn til að hlæja að þeim. Þetta er of háfleyg kenning, líkt og það sé ætlunarverk hjá handritshöfundum og framleiðendum þátta að styðja valdið með því að hlæja að fulltrúum þess. Ég giska á að George W. Bush sé ekki hrifinn að því að vera oftast sýndur í skoplegu ljósi í bandarísku sjónvarpi, ég býst við að hann þrái virðingu áhorfenda, eins og Bill Clinton gerði.

Utan minnihlutahópsins

Ég held að ástæðan sé fremur sú að hvíti karlmaðurinn sé skoplegur núna og liggi einstaklega vel við höggi; gömlu gildi karlmennskunnar eru fallin og hann stendur berrassaður eftir. Hann á eftir að komast í minnihlutahóp til að geta farið að vinna í sínum málum; mótmæla, leiðrétta, breyta. Hann er einn um hituna því það er fylgst með öðru gríni. Hér neyðist ég til að bæta því við að ein vinkona mín er ekki sammála mér, hún er með þá tilgátu að dulda grínið í þessum "forheimskandi" þáttum sé á kostnað konunnar. Ástæðan er sú að jafnvel alheimskasti karlmaðurinn í hverjum þætti nái lengra en vel gefin kona! Fábjáninn er fyrirvinnan, hún er bundin heima, fjárhagslega ósjálfstæð. Ég ætla ekki að halda þessu fram, því þá fellur tilgátan mín.

Hins vegar sýnir þetta að hér er verðugt rannsóknarefni á ferðinni, og sennilega best að halda sig við bandaríska gamanþætti frá upphafi sjónvarpsins. Á tímum Lucy Ball (I Love Lucy) var grínið á kostnað eiginkonunnar og karlinn var oftar með fleiri heilasellur í lagi. (Í þeim þætti var konan reyndar í aðalhlutverki og þar af leiðandi heimskust.) Svo kom jafnvægið með Fyrirmyndarföður Bill Cosbys og núna er þessu öfugt farið; konan vill því miður ekki láta hlæja að sér of lengi í einu, en karlinn hlær bara vandræðalega með.

Áhrif feðragríns á börn

Einnig mætti gjarnan rannsaka áhrif þess á börn að skopast er linnulaust að feðrum í gamanþáttum, alveg eins og áhrif ofbeldis í sjónvarpi á þau eru mæld. Er grínið hollt fyrir sambandið við raunverulegan föður eða hætta börnin smátt og smátt að bera virðingu fyrir honum? Hvað ef barn horfir á feðragrín í 5 klukkustundir á viku í sjónvarpinu? Hver eru uppeldisáhrifin? Vissulega getur góð fylgni verið á milli áhorfs og tiltekinna uppeldisþátta. Einhver börn munu finnast sem hætta að gera greinarmun á heimska pabbanum í sjónvarpinu og pabba sínum á eigin heimili, alveg eins og önnur börn rugla saman ofbeldi í sjónvarpi og í raunveruleikanum.

Altént er niðurstaðan að hvítur eiginmaður um fertugt er helsti skotspónninn í vinsælum sjónvarpsþáttum í Bandaríkjunum og á Íslandi. Ástæðan er sú að hann er varnarlaus og allir ganga framhjá honum liggjandi. Enginn móðgast fyrir hans hönd eða finnur til með honum, jafnvel þótt grínið sé skefjalaust, grimmt og án miskunnar.

Innrás heimska pabbans

Og þó! Þórunn Hrefna er sennilega sú fyrsta sem finnur til með þessari manntegund, því í áðurnefndri grein í Veru skrifar hún: "Með þessari grein er ég að reyna að hugga karla sem eiga um sárt að binda eftir að hafa horft á framhaldsþættina fjóra. Mig langar til dæmis að benda þeim á að allir eru þættirnir kenndir við karlana þó að þeir greini frá samskiptum hjóna og samskiptum fjölskyldna. Það rennir ennfremur stoðum undir að þeir séu enn "húsbændur á sínu heimili" þó að þeir hegði sér eins og slefandi fávitar."

Ég ætla aftur á móti ekki að taka undir þessa huggun. Ég hef ekki fundið málsvörnina, aðeins tilgátu um ástæðu. Fremur vil ég hvetja karla; eiginmenn og feður á aldrinum 35-55 ára að fylgjast með gríninu, og spegla sig í Jim, Ray, Jimmy og Doug, og kanna hvernig það er að setja sig í spor þeirra. Einnig mega þeir svipast um eftir eftirmyndum þeirra (eða arfmyndinni Homer Simpson) í íslenskri þáttagerð og auglýsingum; sjá t.d. auglýsingar íslenskra getrauna: Við erum karlmenn, við tippum. Innrásin er a.m.k. löngu hafin, og fyrirmyndarfaðirinn liggur í valnum.

guhe@mbl.is

Höf.: guhe@mbl.is