Langt inni í manninum: Lífið og maðurinn ekki höfundur þess. Enn standa kerúbarnir vörð við hliðið og lífið er hulið loga hins sveipanda sverðs sem rökkuraugu þola ekki að sjá. Í myrkrinu slær maðurinn saman hugsunum að gleðja sig við neistana sem minna hann á eitthvað sem hann man ekki lengur hvað var... Djúpt inni í manninum: Veruleikinn og maðurinn ekki íbúi hans. Englaverkstjóri með hvínandi samvisku stendur yfir honum og knýr til að strita og yrkja jörð og huga, brjóta niður og hlaða upp að nýju orðum, hugmyndum, heimsveldum, ryki og stynja: "Nei, það var ekki þetta..." og brjóta allt niður á ný Innst inni í manninum: Sannleikurinn og maðurinn ekki kunningi hans. Nöfnin og vörumerkin halda honum föngnum, dáleiða hann af veggjunum og dásyngja hann á torgunum: "Keyptu MIG ® - án MÍN ® geturðu alls ekkert gert!"" Og prinsarnir tala hrífandi Kabárutfa og stjörnurnar óma og ljóma. Nú rökkvar um allan hinn kringlótta heim... Hátt yfir manninum: Mannssmiðurinn og bíður og þráir og fylgist með honum, meðan maðurinn hrapar glóandi órói niður himininn, dreginn helþungri byrði sinni mannsstyttunni gullslegnu sjálfsmyndinni misheppnuðu: "Hinn fullkomni eilífi maður án höfundar" (hvítur ísbjörn, 1995)
Langt inni í manninum: Lífið
og maðurinn ekki höfundur þess.
Enn standa kerúbarnir vörð við hliðið
og lífið er hulið loga hins sveipanda sverðs
sem rökkuraugu þola ekki að sjá.
Í myrkrinu slær maðurinn saman hugsunum
að gleðja sig við neistana
sem minna hann á eitthvað
sem hann man ekki lengur hvað var...
Djúpt inni í manninum: Veruleikinn
og maðurinn ekki íbúi hans.
Englaverkstjóri með hvínandi samvisku
stendur yfir honum og knýr
til að strita og yrkja jörð og huga,
brjóta niður og hlaða upp að nýju
orðum, hugmyndum, heimsveldum, ryki
og stynja: "Nei, það var ekki þetta..."
og brjóta allt niður á ný
Innst inni í manninum: Sannleikurinn
og maðurinn ekki kunningi hans.
Nöfnin og vörumerkin halda honum föngnum,
dáleiða hann af veggjunum og
dásyngja hann á torgunum: "Keyptu MIG ®
- án MÍN ® geturðu alls ekkert gert!""
Og prinsarnir tala hrífandi Kabárutfa
og stjörnurnar óma og ljóma. Nú rökkvar
um allan hinn kringlótta heim...
Hátt yfir manninum: Mannssmiðurinn
og bíður og þráir og fylgist með honum,
meðan maðurinn hrapar glóandi
órói niður himininn, dreginn
helþungri byrði sinni
mannsstyttunni gullslegnu
sjálfsmyndinni misheppnuðu:
"Hinn fullkomni eilífi
maður án höfundar"
(hvítur ísbjörn, 1995)
Ísak Harðarson tilgreinir vísun og skírskotun undir heiti ljóðsins til þess að auðvelda lesanda skilning svo að ekkert fari milli mála. Auk þess má nefna hér að einkunnarorð bókarinnar í heild eru sótt í smiðju Steinars Sigurjónssonar: "Ég held að innra með manninum sé einhver sem gerir allt betur en hann sjálfur" (Síngan Rí). Vísunin í Fyrstu Mósebók 3:23-24 lýtur að brottrekstri mannsins - og á einkum við fyrsta erindið: "Þá lét Drottinn Guð hann í burt fara úr aldingarðinum Eden til að yrkja jörðina, sem hann var tekinn af. Og hann rak manninn burt og setti kerúbana fyrir austan Edengarð og loga hins sveipanda sverðs til að geyma vegarins að lífsins tré." Málverk Kjarvals "Krítik", sem hafa ber í huga við lestur annars erindis, sýnir nakinn mann bisa við að lyfta stórum rétthyrndum steini og koma honum fyrir í óljósu umhverfi. Annarleg vera, ef til vill engill, horfir á.
Bygging þessa ljóðs er markviss og skýr, bæði inntak og form. Hvert erindi er níu línur og hefst á yfirlýsingu, fullyrðingu, sem síðan er skýrð nánar. Lykilorðin eru í þessum fullyrðingum: lífið, veruleikinn, sannleikurinn, og loks Mannssmiðurinn.
Innra með manninum er lífið sjálft, sem honum er gefið, en hann hefur hrakist frá kjarna þess og uppruna. Það er "hulið loga hins sveipanda sverðs" - sem gætir vegarins til baka að lífsins tré. Einkar haganleg og um leið átakanleg er myndhverfingin af manninum sem slær saman hugsunum sínum líkt og tinnu við stál en nær aðeins neistum sem duga honum ekki til minnis.
Í öðru erindi hefur maðurinn einnig hrakist burt úr veruleikanum, en strit hans við að "yrkja jörð og huga" skilar honum engu varanlegu. Allt er lagt að jöfnu: orðin, hugmyndirnar, heimsveldin, rykið. Honum er þó ljóst í "krítík" sinni að hann er ekki að gera hið rétta og verður sífellt að byrja á nýjan leik. Eða eins og segir í Prédikaranum 2:22-23: "Hvað fær þá maðurinn fyrir allt strit sitt og ástundun hjarta síns, er hann mæðist í undir sólinni? Því að allir dagar hans eru kvöl, og starf hans er armæða."
Í þriðja erindi þekkir maðurinn ekki sannleikann, því að hann er haldinn blekkingu þess hégóma sem felst í kaupæði og hlutasöfnun. Ekki veit ég glöggt hverjir prinsarnir eru (kannski einkavæddir einkavinir??) en þeir "tala hrífandi Kabárutfa" (afturábak), mæla allt öfugt. Og maðurinn lætur sér öfugmælin vel líka, meðan rökkur færist yfir "allan hinn kringlótta heim..." - enda rækilega afvegaleiddur frá braut sannleikans.
Loks kemur svo Mannssmiðurinn til sögunnar "sem bíður og þráir og fylgist með" manninum, upphaf sköpunarinnar. Hvort sem við kjósum að nefna það Guð eða eitthvað annað, þá er þetta upphaf sjálf sköpunin, sem fæddi af sér lífið, veruleikann og sannleikann. En maðurinn hrapar sem "glóandi órói niður himininn" í hinni endanlegu "gullslegnu" blekkingu sjálfsmyndar sinnar að hann sé "Hinn fullkomni eilífi / maður án höfundar".
Ísak Harðarson færist mikið í fang í þessu ljóði og setur fram eins konar nútíma "heimsósóma". Það sem mér finnst allra best við þetta ljóð er hin táknræna merking sem ég þykist sjá útfrá vísuninni í upphafi. Það er í raun maðurinn sem hefur rekið sjálfan sig út úr sjálfum sér, burt frá uppruna sínum, burt frá kjarna lífsins, burt frá tilveru veruleikans, burt frá einfaldleika sannleikans, og hrakið sjálfan sig inn í blindgötu eigin sjálfsblekkingar. Jóhann Jónsson orðaði þetta svo í kvæði sínu "Söknuður":
Svo höldum vér leið vora áfram, hver sína villigötu,
hver í sínu eigin lífi vegvilltur, framandi maður...
NJÖRÐUR P. NJARÐVÍK