JÓHANNES Geir er landskunnur fyrir málverk og olíukrítarmyndir sem hann sækir oftast í náttúruna. Á árunum 1964 til 1970 fékkst hann hinsvegar við svokallaðar "endurminningamyndir", sem sagt hefur verið að eigi sér enga hliðstæðu í íslenskri myndlist, "svo þrungnar sem þær eru af niðurbældum ofsa og tilfinningahita", eins og Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur hefur orðað það.
Myndefnin eru gjarnan úr æskuheimi Jóhannesar Geirs á Sauðárkróki, eins og þekktustu mótífin af slátrun og líkfylgd upp á Nafirnar fyrir ofan bæinn.
Á sýningunni í Listasalnum Man eru á annað hundrað myndir sem listamaðurinn lét Ólaf Maríusson fá á þessum árum, en Ólafur og Pétur Sigurðsson ráku herrafataverslun P & Ó, en út á myndirnar tóku Jóhannes Geir og fjölskylda hans fatnað fyrir sig. Þessi sýning er því ekki á vegum listamannsins, heldur er Ólafur nú að selja verkin.
Jóhannes Geir situr hnarreistur í miðjum sal og horfir á verk sem eru hátt í fjörutíu ára gömul. Hann hefur glímt við veikindi síðustu tvö árin, er tengdur við nýrnavél þrjá daga í viku en keppist við að vinna þess á milli. Hann segir að nánast engar fyrirmyndir hafi verið að þessum verkum.
"Ég var eitthvað að fletta anatómískum bókum um dýr, svo þeir væru réttir skankarnir á stórgripunum sem var verið að slátra. Ég gerði nokkuð margar útgáfur af sumum myndanna og það má sjá það hér. Hér eru líka myndir sem ég hafði ætlað mér að mála stærri myndir. Þá vantar hér eru nokkrar úr seríu einhverra dramatískustu mynda sem ég hef gert. Þær eru af sjóslysi við Sauðárkrók. Það var búið að safna á bekki fyrir ofan kirkjuna líkunum af átta sjódauðum mönnum og breiða yfir þau segl. Það var óhugnanleg stemmning. Pabbi tók mig með sér þangað þótt ég væri ekki nema sjö ára gamall en húsið okkar var næst fyrir aftan kirkjuna. Lappirnar stóðu fram undan seglinu og það hékk sokkur á einum eða tveimur fótum. Presturinn var að koma og halda þarna athöfn. Kona eins mannsins bjó í næsta húsi við okkar. Hún var þarna grátandi þegar við komum út, pabbi setti handlegginn um herðar hennar og studdi hana, ég elti þau eins og hundur. Svo stóðum við þarna, hópur af fólki og hlustuðum á prestinn. Þetta var svo áhrifamikil uppákoma að hún er algjörlega prentuð í höfuðið á mér.
Ragnar borgaði tvöfalt verð
Margar þessarra mynda eru af Króknum en hafnar- og hestamyndir eru héðan eftir að ég kom suður. Slátrunarmyndirnar eru frá Króknum. Sum húsin sjást og Nafirnar. Ég málaði nokkrar slátrunarmyndir og Listasafnið keypti eina þeirra á sýningu í Unuhúsi hjá Ragnari í Smára. Það var nú ekki besta myndin því hana var ég þegar búinn að selja. En það er kraftur í þessum myndum, pirringur útaf menningunni, ofríkinu og djöfulskapnum. Kerlingar að koma með hvítar fötur að hræra blóð í, að taka innvolsið og byrja sláturgerð; þetta var bara fyrir framan stofugluggana hjá okkur.Ég bjó við kirkjuna og þar varð maður vitni að jarðarförum. Það var komið með kistuna og hún síðan borin upp stíginn, upp í kirkjugarð. Ég gerði tvær myndir af því sem tókust vel. Aðra keypti Ragnar í Smára og borgaði tvöfalt verð fyrir hana. Hún var á haustsýningu hjá FÍM og önnur af beljum á grænu túni; Listasafnið keypti hana en hafði ekki vit á að taka jarðarförina. Ég var að ganga á Laugaveginum og Ragnar stoppaði bláa jeppann við hlið mér og kallði til mín: Er myndin nokkuð seld?
Hvaða mynd? svaraði ég.
Nú, jarðarförin á sýningunni.
Nei, sagði ég.
Ég ætla að fara að kaupa hana, sagði Ragnar. Hvað kostar hún?
Tólf þúsund, sagði ég.
Ragnar fór og keypti myndina, svo fékk ég ávísun í pósti, uppá 24.000.
Myndirnar glötuðust flestar
-Náttúran hefur alltaf skipt þig máli."Alveg geysilegu. Ég gat aldrei farið alveg útí abstraksjón. Ég reyndi það. Og gekk meira að segja svo langt að ég var hálf-abstrakt á tímabili. Mínar bestu myndir í Handíðaskólanum gerði ég með þekjulitum, undir áhrifum frá Þorvaldi Skúlasyni. Ég fékk að heimsækja hann í braggann í Camp Knox og ég var óskaplega hrifinn af því sem hann var að gera þá. Mér fannst það hans besta tímabil, seinna fór hann svo útí geómetríuna. Þorvaldur var alltaf mjög góður við mig og ég lærði mikið af honum. Svo kom Nína Tryggva að heimsækja hann og þá hypjaði ég mig út auðvitað," segir Jóhannes og brosir.
"Myndirnar sem ég gerði á þessum tíma glötuðust flestar þegar ég fór til Kaupmannahafnar. Þær voru í geymslu hjá Sverri Haraldssyni og Ásta Sigurðar, barnsmóðir mín, komst í þær. Ég hafði leyft henni að fá einhverjar en hún tók þær líklega allar, seldi þær eða gaf. Þær eru hér og þar, ég hef séð tvær þeirra hjá systur Ástu.
Hann Jón Stefánsson bjargaði mér með þessum myndum. Við heimsóttum hann þrír saman til að fá meðmæli við Akademíið, við Benedikt Gunnarsson og Eiríkur Smith. Jón talaði um að í myndunum væri einhver kraftur sem hann var ánægður með. Svo heimsótti hann mig nokkrum árum seinna, þá var ég búinn að vera í helvítis óstuði og margt sem hafði verið að trufla mig. Jón sagðist viss um að ég ætti eftir að ná mér en það hefði greinilega eitthvað komið fyrir mig. Það var rétt hjá honum."
Þegar ég var ekki byrjaður á húsbyggingum
Jóhannes Geir röltir á milli myndanna og bendir á hitt og þetta. "Það gleður mig að sumu leyti að sjá þessar myndir aftur," segir hann. "Í þeim eru hlutir sem minna mig á það þegar ég var ekki byrjaður á neinum húsbyggingum, peningaáhyggjum eða þeim djöfulskap, sem hefur náttúrlega breytt mér sem málara. Ómeðvitað fór ég að mála fyrir bissness líka, ég þurfti náttúrlega á því að halda að stúdera íslenskt landslag en ég get ekki neitað því að ég þurfti að skaffa peninga til að byggja hús og borga það út. Ég hafði enga andskotans styrki. Einhleypur maður og lítið sem ekkert sem ég fékk frá húsnæðisstjórn. Ég varð bara að vinna með iðnaðarmenn yfir mér, gaf þeim að éta meira að segja. Þetta fór djöfullega með mig að mörgu leyti, ég held ég hafi ofkeyrt mig á þessu. Þá málaði ég Heklu og Þingvelli endalaust, og allt það. Ég get ekki neitað því að það hafði áhrif á mig sem málara. Ég gerði miklu minna af þessum fantasíum en þær eru ennþá í hausnum á mér og ég get gert meira af því. En auðvitað hef ég lært mikið af þessu landslagi öllu, ég hef líka gaman af því. En það er sami djöfulgangurinn í manni fyrir það og ég vildi getað unnið úr þessum minningamyndum áfram. Það eru hérna myndir sem ég vildi fá lánaðar og vinna eftir."Jóhannes skoðar nú hóp af svartkrítarmyndum. "Þessum var ég flestum búinn að gleyma. Það er gaman að þeim sumum, þær eru undir áhrifum frá Sverri Haraldssyni. Við vorum saman í þessu krítarverki á tímabili. Við Sverrir vorum alltaf góðir vinir. Við fórum saman til Grindavíkur og krítuðum liðugt þar. Það eru þessar myndir hér, sem eru meira abstrakt. Og þarna," segir hann og bendir á litla olíukrítarmynd, "er frummyndin af Jarðarför á Króknum."
-Þú hefur ekki haldið margar einkasýningar um dagana.
"Nei, ég hef bara ekki þurft þess. Ég hef selt það vel jafnóðum. Það var það sem bjargaði mér með húsið, að ég gat borgað það út. Það dundu látlaust á manni víxlar."
Viljinn er svo mikill
Eftir að hafa skoðað sýninguna ökum við í Árbæinn þar sem hús og vinnustofa Jóhannesar Geirs standa með útsýni yfir Elliðaárnar. Vegna veikindanna kemst hann aðeins í dagslangar myndaöflunarferðir en segist nýkominn úr ferð á Holtavörðuheiði sem hafi reynst mjög gjöful. "Ég gerði þrjár myndir í beit. Og svo er ég búinn að fara víða um Suðurlandið í sumar, alveg austur að Fjallabaksleið syðri."-Selurðu allar myndir jafnóðum?
"Það er einhver tregða í þessu núna. En ég sel oftast meiripartinn af þessu með tímanum."
-Skagfirðingar hafa alltaf leitað mikið til þín.
"Já, ég hef selt þeim mikið af myndum. Og ég mála alltaf mikið af Skagafjarðarmyndum, núna kemst ég ekki norður og þá mála ég eftir ljósmyndum. Ég kann alla liti í Skagafirði utanað, útfrá birtu og árstíð veit ég alltaf hvaða litir eiga að vera í gróðrinum, í fjöllunum og himninum.
Ég var mjög ánægður þegar ég fékk það verkefni fyrir nokkrum árum að myndskreyta Sturlungu. Hún var búin að sitja í mér síðan ég var krakki. Ég las svo ýmislegt sem tengdist henni og um hana; kynnti mér alla skapaða hluti, eins og vopnaburð og tísku á þessum tíma. Þessar myndir eiga að sýna atburði sem urðu í Skagafirði.
Ég hef ekkert komist á Krókinn eftir að ég veiktist. Ég yrði að vera ríkur, kaupa nýrnavél og planta henni á sjúkrahúsinu fyrir norðan. Um helgar á ég tveggja daga frí frá nýrnavélinni. Ég reyni þá að vinna eins og skepna en mér líður vel ef ég get málað eitthvað og náð árangri. Þá er þreytan góð og samviskan enn betri."
-Þú hefur alltaf kraft til að halda áfram?
"Þótt ég sé kominn á þennan aldur, hef ég aldrei tekið þátt í félagsstarfi gamlingjanna. Í þeim skilningi er ég bara ekki gamlingi! Andinn æsist bara upp með aldrinum. Maður kann meira og getur meira. Þá eru bara spurningar um tímann og heilsuna. Þá verður maður nískur á tímann og ekki síst þegar maður er svona tímaskertur vegna veikindanna. Viljinn er svo mikill og þörfin til að vinna. Ég verð að gæta þess að ofkeyra mig ekki. Ég mála í skorpum og hvíli mig á milli. Þá fer ég út og geri olíukrítarmyndir, dag eftir dag; ekki skyssur heldur myndir sem eru fullunnar á staðnum. Mörgum finnast þær vera besta málverk sem ég geri. Ég hef sjaldnast náð sömu áhrifum í olíunni enda er ég þá að kópíera myndir sem ég geri úti og það er erfitt að komast í sama sálarástand og þegar maður gerir frummyndirnar. Þá er ég undir áhrifum frá náttúrunni og gleymi mér alveg."
Áhyggjur af Fjallkonumorði
Í vinnustofunni sýnir Jóhannes Geir mér hvar málverk standa á trönum og raðað meðfram veggjum, myndir sem eru mislangt komnar en margar fullkláraðar. Þar eru líka ótal plötur sem olíukrítarmyndir eru límdar á, eins og málarinn kemur með þær heim úr ferðum."Þetta er mikið frá því í sumar," segir hann og bendir á verkin allt í kringum sig.
-Það eru verk hér á heila sýningu.
"Já, en ég myndi velja úr þessu og bæta öðrum við. Ég myndi vilja hafa portrett, uppstillingar eða eitthvað annað með. Sjáðu," segir hann og bendir á stórt málverk í bleikum tónum, "þetta er helvíti skrýtin mynd. Hún er máluð í 25 stiga hita - og það sést á henni. Ég er ánægður með litaskalann, þetta eru áhrif frá Sigurði Sigurðssyni. Hann var fyrst og fremst akademískur. Þessi er líka skrýtin, af lúpínu í Heiðmörk. Og hér sjást Jarlhettur frá Flúðum. Það er óskaplega fallegt á Suðurlandinu.
En það er alls staðar fallegt á Íslandi. Og ég hef óskaplegar áhyggjur af þessu Fjallkonumorði sem á að fremja. Það er eins og það eigi að skera úr manni hjartað með þessum virkjanaofstopa. Því er ekki hægt að beita þjóðaratkvæði? Ég held það sé eina leiðin til að leysa þetta mál. Þetta er bara kjördæmismál þrjóskra þingmanna. Ef af þessu verður, þá langar mig mest til að flytja úr landi, djöfullinn hafi það. Að fara svona með slík landsvæði, það er siðspilling og ekkert annað. Þegar Íslendingar halda ræður á komandi öld verður byrjað á þessum orðum: Fjallkonumorðingjar og aðrir Íslendingar! Þjóðin skiptist í tvennt. Þetta pólitíska siðleysi hefur þegar klofið þjóðina. Það væri hægt að bjarga þessu með þjóðarátaki; til þess er þjóðaratkvæði. Það væri þó skárra að borga hærri skatt til að hjálpa þessu fólki þarna austurfrá. Svo er það brot á alþjóðasamþykktum að skerða Þjórsárverin. Þetta er sko engin auglýsing fyrir Ísland, þetta eyðileggur álit margra útlendinga á Íslendi. Það verður að gera einhvern djöfulinn; þetta getur orðið að nýrri Sturlungaöld!"
efi@mbl.is