MIKAEL Torfason hefur hefur verið "enfant terrible" íslensks bókmenntaheims síðustu ár, frægur fyrir kjafthátt, óheflað orðbragð, hispurslausa umfjöllun um kynlíf og ofbeldi og yfirleitt flest sem þykir afbrigðilegt í nútímasamfélagi. Gagnrýnendur hafa brugðist misjafnlega við þessum ósköpum en oftast hefur þó verið talað um hversu kraftmiklar bækur Mikaels eru, hvort sem menn hafa síðan verið sammála um hvernig kröftunum er varið. Fyrsta bók hans, Falskur fugl (1997), hlaut góða dóma. Upphafið á ritdómi Geirs Svanssonar í Morgunblaðinu minnir raunar talsvert á annað frægt upphaf í íslenskum ritdómi, "Loksins! Loksins!" en Geir telur að bók Mikaels sé bókmenntasöguleg tíðindi, ekki á ósvipaðan hátt og Kristján Albertsson taldi að Vefarinn mikli hleypti nýjum straumum inn í íslenskar bókmenntir á þriðja áratugnum. Geir segir: "Það hlaut að koma að því. Íslenskar bókmenntir eru búnar að missa meydóminn, eða sveindóminn öllu heldur." Og Geir heldur áfram: "Skáldsagan Falskur fugl beinir (köldum) undirstraumum, sem hafa verið að koma upp úr djúpunum erlendis undanfarin ár og misseri, upp og inn í gamla góða ylhýra meginstrauminn sem hefur hingað til ekki mátt vamm sitt vita. Þessi unglingasaga með tennur setur á prent, á reykvísku, það sem sagt og gert er á götunni í dag."
Í bókinni sem gerist um jólaleytið er sagt frá tveimur morðum sextán ára Grafarvogsbúa, botnlausu ofbeldi af ýmsu öðru tagi, eiturlyfjaneyslu, kynórum og öðrum órum. Óhætt er að taka undir orð Geirs um að Falskur fugl sé "(hryggilegur) vitnisburður um tíðaranda og "spíttaða æsku"" og að í því liggi kannski helsta gildi bókarinnar. En Mikael kom vissulega einnig með ferskan tón inn í íslenskar bókmenntir. Efnistök hans minna einna helst á bækur og bíómyndir á borð við Trainspotting (Irvine Welsh), Natural Born Killers (Oliver Stone) og Pulp Fiction (Quentin Tarantino), eins og Geir bendir á, en einnig eru greinilega áhrif frá höfundum á borð við Chuck Palahniuk (Fight Club) og Bret Easton Ellis (American Psycho).
Og Mikael hefur haldið uppteknum hætti í skáldsögum sínum. Það hefur að vísu dregið úr ofbeldinu og kjafthættinum en skáldsögurnar þrjár sem komið hafa í kjölfarið á Fölskum fugli hafa allar átt það sameiginlegt með honum að glíma við ringulreið, upplausn og uppnám samtímans. Saga um stúlku kom út árið 1998, Heimsins heimskasti pabbi kom út árið 2000 og í síðustu viku kom út skáldsagan Samúel sem ritdómarar hafa sagt kraftmikla og ögrandi.
Mikael hefur verið búsettur í Danmörku síðastliðin tvö ár og fylgist því með afdrifum bókar sinnar úr fjarlægð. Hann er ánægður með dómana sem hann hefur fengið en það hefur hann ekki alltaf verið. Í vikunni hafði hann reyndar óvirðuleg orð um íslenskan gagnrýnanda á vefritinu Kistunni og vakti með því hörð viðbrögð. Hann segist í upphafi ferils síns varla hafa lesið þá gagnrýni sem Falskur fugl fékk og verið nánast alveg sama um það sem skrifað var um sig þar til Heimsins heimskasti pabbi kom út að hann fór að taka það inn á sig, nauðugur viljugur. Í dag segist hann vilja láta ákveðna hluti í gagnrýni fara í taugarnar á sér. Hann segir mikilvægt að "maður geti leyft sér að taka hlutina nærri sér og hleypa þeim inn á sig án þess að vilja hengja sig eða gagnrýnandann."
Á bak við þetta strákslega orðfæri Mikaels og á stundum ungæðislega uppreisnargirni býr mjög einbeittur og agaður vinnuþjarkur. Mikael umturnar daglegu lífi sínu meðan á samningu bókar stendur og vinnur samkvæmt stundaskrá sem hann setur sér og lagar að heimilislífinu en Mikael er kvæntur og á tvö börn.
"Ég hef gert ýmsar tilraunir í þessa átt en sú stundaskrá sem hentar mér best er þannig að alla daga vikunnar nema laugardagskvöld fer ég að sofa kl. 20 með börnunum og vakna kl. 2.30 og skrifa þar til ég vek klíkuna um sjöleytið. Þessi tími dagsins er langbestur að mínu mati og ég nýt mín æðislega að sitja einn inni í stofu með rjúkandi kaffibolla og vita að engir nema við bakararnir erum mættir í vinnuna. En klukkan sjö gef ég krökkunum að borða og smyr nesti og kyssi konuna bless og fer með krakkana í skólann. Kem svo heim að auðu kotinu og legg mig í tvo - tvo og hálfan tíma. Þá er klukkan farin að ganga ellefu og ég dunda mér svona fram að hádegi. Er að skrifa ímeila og lesa blöðin og kannski lesa mér eitthvað aðeins til um hin ýmsu málefni sem ég hef áhuga á. Svo tek ég klukkutíma matartíma og les yfirleitt líka í honum. Í versta falli neyðist ég til að skreppa í banka eða á pósthús. Eftir það reyni ég að skrifa ekki - þótt stundum liggi mikið við og ég verði að drífa verkið áfram - og eyði þá tímanum til kl. 16 í að lesa yfir það sem ég hef skrifað eða hreinlega lesa aðra höfunda. Síðan sæki ég krakkana og við förum í búð og sinnum heimalærdómi og tökum síðan á móti mömmu með heitum mat, nema þegar við nennum því ekki og pöntum pítsu."
Mikael hefur einnig tamið sér að lesa skipulega og les þá gjarnan heil höfundarverk frá upphafi til enda.
"Ég leggst í menn. Tek þá bara fyrir og ég er mjög sérvitur varðandi það að ég þoli ekki að lesa bækur þegar þær eru í umræðunni. Finnst ég vera svo fordómafullur og vitlaus og undir áhrifum frá einhverri stemningu. Er til dæmis að lesa Höfund Íslands núna og skemmti mér konunglega. Var að ljúka við törn á dönskum femínistum á borð við Suzanne Brøgger og bíð eftir fullt af Beat-bókum sem ég var að panta á Amazon. Þær bókmenntir hafa alveg farið framhjá mér vegna ákveðinna fordóma sem ég hafði sem unglingur. Las samt Bukowski á sínum tíma og hafði gaman af sumu. Síðan leitaði ég uppi Our Gang eftir Philip Roth notaða á Netinu en þá er Roth-safnið eiginlega fullkomnað hjá mér. Ég hef líka þann vonda ávana að vera með nokkrar bækur uppi í einu. Er að böðlast í gegnum einhverja Ian McEwan bók sem nær ekki til mín og einhverja poppbók sem vinur minn heimtar að ég lesi, Black Vinyl - White Powder, auk þess sem ég er með Stephen King dellu þessa dagana og er svona að verða nokkurn veginn búinn að lesa hann. Þarf samt að fara yfir það og athuga hvað ég á eftir því ég er ekki með neina bók eftir hann á náttborðinu. Svo les ég mikið fyrir krakkana og sem betur fer eru þau farin að vilja lesa Harry Potter og Hringadróttinssögu í stað þessara leiðinlegu myndabóka sem þau hafa hingað til verið húkkt á."
Vitleysan í Danmörku breytir heimssýn þröngsýnasta fólks
Sagan um Samúel er sögð frá sjónarhorni samnefnds íslensks manns sem er sjúkur á geði, er haldinn ofsóknaræði og ranghugmyndum. Hann er búsettur í Danmörku og þykir umhverfið vera sér mótsnúið á allan hátt. Hann skynjar sig sem utangarðsmann og ofsóttan útlending. Sömuleiðis þykir honum sá veruleiki sem yfirvöld og fjölmiðlar lýsa ekki vera sá veruleiki sem hann lifir í, hann segir að veruleikinn sé lygi og lýðræðið sé nasismi nútímans. Hann ákveður því að gera byltingu gegn veruleikanum.Augljóst er að bókin er að nokkru leyti viðbragð við atburðunum 11. september.
"Ég var með þrjár aðrar bækur í vinnslu 11. september og henti einni þeirra um leið og turnarnir hrundu," segir Mikael spurður um þetta. "Hún tengdist að vísu hluta af þemanu í Samúel. Gerðist hérna í Danmörku og fjallaði um íslenska innflytjendur. En þessi "málefni" í Samúel hafa samt verið mikið áhugamál hjá mér eftir að ég flutti hingað sumarið 2000. Svo að því leytinu til voru allar þessar hugsanir fljúgandi um heilann á mér áður þótt ég hafi ekki hugmynd um hvernig eða hvenær ég myndi nota þær. Ellefti september breytti því og allt í einu byrjuðu púslin sem ég hafði verið að safna um þessi mál öll sömul að passa saman.
"Bókin lýsir því hvernig mörkin milli hins rétta og ranga, sannleika og lygi, raunveruleika og óraunveruleika eru að leysast upp. Fannst þér 11. september vera stund sannleikans með einhverjum hætti? Leiddi hann eitthvað í ljós sem við vissum ekki, til dæmis um þessi óljósu mörk sem þú ert að fjalla um í bókinni?
"Maður hefði nú svo sem getað sagt sér það áður en gerði það ekki af einhverjum ástæðum sem ég skil ekki alveg. Sjálfur reyndi ég meira að segja að vera ofsalega hneykslaður og reiður og pirraður um tíma. Horfði á fréttirnar með gæsahúð og hneykslaðist í hljóði á vinum mínum sem sögðu: "Þeir hefðu nú getað sagt sér þetta sjálfir, þessir helvítis Ameríkanar." Og svo þegar ég sneri mér frá sjónvarpinu og að tölvunni fór Samúel að tala.
Hann sagði allt sem mann langaði til að segja en þorði varla að hugsa hvað þá færa í orð. Því þetta hringsnerist allt í hausnum á mér um tíma. Þetta með að mynda sér afstöðu sem er góð, rétt og æskileg eða hugsa þetta eins og ég var að hugsa þetta daginn áður, 10. september. En ég var strax byrjaður að ofsækja vini mína í tölvupósti og samræðum um raunveruleikan og alla lygina sem honum tengist um það leyti sem ég var að klára Heimsins heimskasta pabba og setti tilvitnun í Baudrillard fremst í bókina. Ég skrifaði síðan pistla í Fókus um efnið og hafði verið með þetta á heilanum löngu áður en ég vissi að Samúel yrði maðurinn sem kæmi þeim hugsunum skikkanlega frá mér. En stund sannleikans hjá mér voru einmitt viðbrögð mín við þessu öllu. Þau voru ekkert frábrugðin hjá restinni af veröldinni. Ég er ekkert öðruvísi en aðrir. Hugsaði það sama þótt ég vissi innst inni hvurs lags sjálfsblekking það var. Vegna þess að ég er gegnsósa af sömu lyginni og allir aðrir. Og eina ástæðan fyrir því að mér tókst að snúa aðeins út úr fyrir henni í gegnum Samúel er að ég bý í landi þar sem ríkisstjórnin ríkir í skjóli systurflokks Le Pens. Að búa hérna og horfa upp á alla vitleysuna sem hér viðgengst breytir heimssýn jafnvel þröngsýnasta fólks og 11. september var eins og að vera sleginn utanundir. Allt í einu vissi ég nákvæmlega hvað ég vildi segja."
Við höfum nú hingað til haldið að Danmörk væri mikið fyrirmyndarríki. Í bókinni kraumar rasisminn þar og ýmiss konar spilling og lágkúra. Þú ert sem sagt að lýsa Danmörku eins og þú sérð hana sjálfur sem íbúi eða innflytjandi síðustu misseri?
"Já. En auðvitað í gegnum mann sem sér hlutina með öðrum augum en ég þar sem hann er ekki ég. Engu að síður hefur hann margt til síns máls og ég get svo sem kvittað upp á allt sem hann segir um Dani og Danmörku í þessari bók.
Ég hef lent í ólíklegustu hlutum hérna úti. Einu sinni var ég á veitingastað með vinnufélögum konunnar og er að tala ensku við þýskan hermann sem var þarna og þá byrjuðu einhverjar háskólastúlkur að skammast í mér fyrir að tala ekki dönsku. Óttinn og fordómarnir í garð útlendinga ná út fyrir almenna umhyggjusemi. Ég hef líka horft upp á Dani öskra á lítil útlendingabörn í strætó og lesið viðtöl við hámenntaða útlendinga sem eru keyptir héðan af atvinnuleysisbótunum yfir til Ameríku af því að þar virðist markaðurinn ekki spyrja að því hvort þú heitir Múhameð eða John. Sem breytir því ekki að stjórnkerfið í Danmörku býður upp á að þegnarnir hafi það ágætt. Kerfið virkar vel fyrir þá hvítu og nöfnin okkar Íslendinga sleppa við verstu fordómana. Þar að auki er veröldin, sem betur fer, ekki alveg svarthvít og tæplega helmingurinn af þjóðinni virðist vera jafn mikið á móti þessari þróun og við Samúel."
Róttæknin úrskurðuð geðveik
Maður má vara sig á að rugla saman skáldskap og veruleika. Mörkin þar á milli hafa reyndar verið mjög vinsælt umfjöllunarefni í íslenskum skáldsögum síðustu ára og eins og áður sagði ertu að glíma við svipað efni í þessari bók, nema hvað Samúel trúir því að veruleikinn sé í raun horfinn, að hann sé bara blekking frá rótum, tóm lygi og það sem meira er, hann hefur einn af framsæknustu fræðimönnum samtímans fyrir þessu, Jean Baudrillard. Mig langar til að spyrja þig hvers vegna þú ákvaðst að hafa Samúel geðsjúkan?"Það kom einhvern veginn af sjálfu sér. Málið er að mér finnst hann ekkert svo veikur. Ekki mér persónulega. Þegar ég skrifa svona mann, því maður skrifar ekki um fólk í fyrstu persónu heldur neyðist maður til að skrifa það, þá verð ég að vera hann og trúa honum til þess að ég eigi einhvern möguleika á því að fólk muni trúa honum. Svo ég trúði honum á meðan ég skrifaði hann, ég trúði sannleika hans en þessi geðsýki hans helst í hendur við það að hann getur hafnað veruleikanum. Það er svo rosalega stórt skref að þú getur varla gert það af sama krafti og sömu trú og Samúel nema þú sért algerlega búinn að yfirgefa allt það sem mögulega getur haldið aftur af þér, meðal annars eigið geðheilbrigði. Svo þessi geðveiki hans Samúels kom mjög eðlilega og um leið og ég byrjaði að krassa í stílabók fór ég strax að lesa mig til um geðveiki og hafði samband við nokkra Íslendinga sem ég þekki hérna úti og eru annaðhvort í sálfræðinámi eða að læra að sinna þessu fólki sem iðjuþjálfar eða eitthvað því um líkt. Ekki má heldur gleyma því að jafn róttækur maður og Samúel verður alltaf úrskurðaður geðveikur hvort sem hann er það eða ekki. Fólk mun reyna að hafna honum líkt og hann sé hver annar brjálæðingur. Það gerist líka í bókinni og þetta kallast á við hvert annað; það að hafna veruleikanum "á la" Baudrillard og vera geðveikur. Hvort það er orsök eða afleiðing verður lesandinn eiginlega að gera upp við sig. Fyrir mér stendur þetta allt jafnfætis og er hvorki orsök né afleiðing."
Það er rétt, Baudrillard hefur oft verið hafnað vegna þess að hann segir hluti sem flestir hafa haldið að væri ekki hægt að segja en það sem hann er í raun að lýsa er sambandsleysi við það sem við höfum kallað veruleika, það er eins og eitthvað hafi komið upp á milli okkar og veruleikans og þess vegna sjáum við hann ekki lengur. Baudrillard er auðvitað fyrst og fremst að lýsa áhrifum aukinnar fjölmiðlunar. Heldurðu að hann sé ekki bara að lýsa reynslu mjög margra?
"Jú, hann er í það minnsta að lýsa reynslu minni. Sérstaklega hvað varðar fjölmiðla. Veruleikasjónvarpsþættir eru gott dæmi en þeir eru stór hluti af dagskrá kvöldsins í dönsku sjónvarpi. Einn af þessum þáttum hérna heitir til dæmis Pop Stars en þar eru uppgötvaðar eða fundnar upp stjörnur morgundagsins. Síðast unnu nokkrar stelpur sem voru látnar mynda stúlknabandið Eye-Q og í dag getur maður rekist á eftirmyndir af þeim úti á götu. Þá ganga þær fjórar saman, smástelpurnar, ein með sixpensara, önnur á brjóstahaldara, sú þriðja með buxurnar á hælunum og fjórða í jakkafötum. Og þær eru svona til fara vegna þess að þessi tilbúna fyrirmynd þeirra Eye-Q - sem er í raun ekkert annað en eftirmynd af erlendum stúlknaböndum sem eflaust eru eftirmyndir af einhverju sem einhvern tíma var raunverulega til - ganga um þannig klæddar. Svo unglingsstúlkugreyin spássera um bæinn jafn margar og alveg eins klæddar og tilbúin fyrirmynd. Ódýr eftirlíking af eftirlíkingu. Þetta er of öfugsnúið til að vera satt og hljómar eins og eitthvað upp úr vísindaskáldsögu."
Foreldrarnir bregðast
Í öllum bókum þínum hafa konur fengið æði vonda útreið, mæður í sögum þínum hafa ekki síst verið dregnar dökkum dráttum og það á við þessa nýjustu bók. Þú hefur verið gagnrýndur fyrir þetta. Hvað ertu að fara með þessu?"Ekki neitt. Þessar konur hafa hentað sögunum mínum og ég flæki þetta ekkert frekar fyrir mér. Þetta er líka bara nöldur í einhverju ákveðnu fólki og þau finna víst ekki meira á mig en þetta. Lesa bókina og finnst ég einhver leiðindaunglingur sem það verði að þagga niður í og þá grípur það til þess ráðs að segja mig hafa eitthvað á móti mæðrum sem slíkum. En ef þessir bókmenntafræðingar tækju pennann úr auganu á sér og læsu almennilega yfir textann myndu þeir fljótt fatta að móðirin er oftast að kallast á við aðalpersónuna, sem yfirleitt er karlmaður, og fær yfirleitt miklu settlegri "útreið" en hann. Ég meina, titillinn á síðustu bók er Heimsins heimskasti pabbi! En bækurnar mínar eru heilsteyptar og þessi þjáning móðurinnar helst oft í hendur við þjáningu barna hennar á meðan faðirinn finnur ekki fyrir neinu. Og fyrirgefið ef ég get ekki séð neitt athugavert við það og finnist í raun sinnuleysi föðurins alvarlegri ásökun. Í Fölskum fugli eru til dæmis aðeins tvær manneskjur sem fara algerlega í keng og eru að brenna inni út af því að bróðirinn/sonurinn framdi sjálfsmorð og það er Arnaldur og mamma hans. Pabba Arnaldar er alveg sama. Hvar er hægt að finna einhverja sérstaka "útreið" móðurinnar í þessu samhengi? Vá! Er verið að skamma mig fyrir að skrifa ekki allar konur eins og þær séu aftan úr Íslendingasögum? Ég vil líka minna á það að í bókunum mínum er ekki bara einhver ein kona heldur man ég ekki betur en konan hans Marteins hafi verið hörkukelling. Ég verð samt að horfast í augu við það að á þetta hefur verið minnst en mér finnst þetta svo kjánaleg umræða að ég næ varla upp í nefið á mér. Að konur eða mæður fái einhverja sérstaka útreið í bókum eftir mig. Hvað með Arnald sjálfan í Fölskum fugli? Hvað með Martein í Heimsins heimskasta pabba? Fá þeir enga útreið? Ekki heyrðist í grátandi karlkynsgagnrýnendum að skamma mig fyrir að Marteinn sé lélegur faðir! Nei, eina sem ég man í svipinn var að Úlfhildur Dagsdóttir bullaði eitthvað um að bókin kenndi mömmunni um allt. Guð minn almáttugur! Aðra eins vitleysu hef ég ekki heyrt og ég hlusta ekki á svona bull. En sem betur fer átta sig flestir á því að í mínum bókum bregðast foreldrarnir og kannski fá þeir einhverja útreið. Ég meina samt ekkert með því annað en það hentar sögunni sem ég er að reyna að segja."
Er að drepast úr hræðslu um að ég drepi einhvern úr leiðindum
Þetta er mjög pólitísk bók, pólitískari en fyrri bækur þínar þótt þú hafir iðulega verið með puttann á einhverjum hlutum sem fólk vill kalla vandamál í samfélaginu. Hefurðu einhverjar hugmyndir um hlutverk rithöfunda?"Ég hef stundum séð viðtöl við höfunda þar sem þeir halda fallegar ræður um að höfundar eiga að rassskella samfélagið, vera samviska þjóðarinnar og allt það en auðvitað er það bara bull. Þeir hljóta fyrst og fremst að hafa eitthvað að segja og vilja til að ná til fólks. Mér er alveg sama hvort þeir rassskelli þá eða ekki en ég vil að það fólk sem hafi eitthvað að segja geri allt til að pranga bókunum sínum inn á fólk. Bæði á meðan það er að skrifa þær og þegar það kemur að því að kynna bækurnar. Því þetta gerist ekkert af sjálfu sér og það er ekkert mál að segja "rassskella" og "samviska" og svo framvegis en þú verður það ekki nema þú segir eitthvað í bókunum þínum og að þær séu skrifaðar þannig að fólk hafi áhuga á að lesa þær. Hérna í Danmörku er til dæmis hlutverk rithöfundar, ef hann ætlar að fá góða dóma og vera hluti af elítunni, að hann sé svo helvíti leiðinlegur að hans nánustu ættingjar nenna ekki einu sinni að tölta út í næstu bókabúð og kaupa gripinn. Það þykir eftirsótt að vera svona höfundur en ég trúi því að maður geti jafnvel verið óþægilegur og óþægur og samt komist undir skinnið hjá fólki rétt eins og með hverri annarri ástarsögu. Og það er líka staðan heima á Íslandi. Þar þykir fólki ennþá vænt um bækurnar okkar og kaupir þær og les.
Hlutverk rithöfundanna er að standa vörð um það sem við höfum en síðan þykir mér ekki verra ef höfundur endurspeglar samfélagið sem hann lifir í og gefur lesendum sínum tækifæri á því að spegla sig í bókunum. Hvernig það er útfært er auðvitað smekksatriði en Dostojevskí sagði að rithöfundurinn mætti svona hér um bil hvað sem er svo lengi sem hann væri ekki leiðinlegur."
Ertu að boða félagslegt raunsæi? Á sínum tíma þótti sumum það reyndar með leiðinlegri bókmenntum.
"Nei. Ég er alls ekki haldinn neinum messíasarkomplexi þótt ég sé oft spurður að því hvað ég sé að boða. Og já, félagslegt raunsæi getur verið, og er ábyggilega, hundleiðinlegt. Nema til dæmis í dönskum bíómyndum. Festen er mjög klassískt félagslegt raunsæi en skemmtileg kvikmynd. Hver er munurinn á henni og þessum leiðinlegu skandinavísku sófaverkum sem maður ólst upp við í Ríkisútvarpinu? Svari hver fyrir sig en það er hægt að telja upp endalaust af dæmum. Af hverju er Höfundur Íslands góð bók? Eða hin dökka Fight Club? American Phsycho? En þótt ég sé ekki hrifinn af stefnum og ismum hef ég samt ákveðinn smekk. Uppáhaldsrithöfundurinn minn er Philip Roth og ég veit ekki hvort hann er félagslega raunsær og er alveg sama. Eina sem vakir fyrir mér er að menn séu ekki að drepa okkur úr leiðindum. Ef þú býrð í vita og heldur kindur og langar ofsalega til að skrifa bók um það ættirðu að bíða þar til þú finnur einhvern skemmtilegan flöt og getur gert það án þess að ég verði hálfdottandi yfir bókinni ef frænka mín gefur mér hana í jólagjöf.
Heimspeki mín er ekki miklu flóknari en það og ég verð verri og verri hvað þetta varðar. Er að drepast úr hræðslu um að ég drepi einhvern úr leiðindum.
Þú mátt hætta við að lesa bækurnar mínar út af hverju sem er öðru en að ég sé ekki að segja nógu vel frá. Þetta er kannski bara vinnusiðferði einhvers konar sem ég hef komið mér upp. Ég veit það ekki. Veit ekki hvað þetta kallast og langar eflaust ekki til að vita það."
Gjörsamlega úti á jaðrinum en geta samt náð til lesenda
Þú hefur greinilega orðið fyrir áhrifum af höfundum á borð við Bret Easton Ellis, höfundi American Psycho, og Chuck Palahniuk, höfundi Fight Club. Það er líka ákveðinn skyldleiki með þér og Hallgrími Helgasyni. Hvernig myndir þú staðsetja þig sjálfur? Og hvernig myndirðu lýsa skrifum þínum, bæði efnislega og stíllega?"Eins meðvitaður og ég er á ég samt í svolitlum erfileikum með að lýsa því sem ég geri. Mér þótti voða vænt um það þegar Jón Yngvi sagði í gagnrýni að Heimsins heimskasti pabbi væri einhver ný blanda af skandinavískum realisma og amerísku sóðaraunsæi. Þá fannst mér eins og bakgrunnur minn og svo áhrif og fyrirmyndir væru kominn í einn graut. Ég er til dæmis hrifnari af Chuck Palahniuk en Paul Auster, sem mér finnst reyndar hundleiðinlegur á köflum.
Svo ég verð voða ánægður ef einhver segir mig líkan Palahniuk. Enda líka eina ástæðan fyrir því að maður á erfitt með að svara svona spurningum að maður vill ekki hljóma of hrokafullur. Kannski er maður að reyna eitthvað sem manni tekst ekki og þá er viturlegra að vinna meira og tala minna. En mig langar til að vera höfundur sem á ekkert erfitt með að vera gjörsamlega úti á jaðrinum en geta samt náð til lesenda. Og ég ætla mér að verða betri í því í framtíðinni. Ég legg allt í sölurnar því það er mikið í húfi. Við getum svo auðveldlega klúðrað þessu. Misst okkur út í eitthvert rúnk og það endar með því að lesendur hætta að vera lesendur og hækka í sjónvarpinu. Vegna þess að við erum ekki að vinna vinnuna okkar. Það kom mér til að mynda á óvart þegar ég gaf út strákabókina Falskan fugl að ég hitti endalausar raðir af strákum sem höfðu ekki lesið bók svo árum skipti en fengu þarna allt í einu eitthvað við sitt hæfi. Enn þann dag í dag, þegar ég fer niður í miðbæ Reykjavíkur á föstudags- eða laugardagskvöldi, ráðast blindfullir guttar á mig og vilja bara ræða Falskan fugl. Um leið og það gleður mig óskaplega verð ég að viðurkenna að ég var mjög hræddur um það á tímabili - sérstaklega í tengslum við útgáfu Sögu af stúlku - að ég væri að mála mig út í horn og farinn að þykjast vera alltof mikill listamaður."
Hvernig getur maður orðið "of mikill listamaður?" Ertu ekki bara að snobba niður á við?
"Lykilorðið er kannski að "þykjast". Því ég held að ég sé enginn listamaður og langar ekki til að vera það. Og þessi hræðsla mín má alveg vera snobb mín vegna en ég held að það sé meira í ætt við fordóma. Ég þoli ekki þessa eilífu sjálfsfróun listamanna. Það er ekki af ástæðulausu að almenningur nennir ekki í galleríin. Ekki þegar stór hluti listamanna fjallar bara um sjálfan sig, fyrir sjálfan sig, og vill helst selja það einhverjum ímynduðum listaverkasöfnurum. Ég var einmitt að lesa viðtal við Hannes Sigurðsson, forstöðumann Listasafns Akureyrar, um daginn og hann komst vel að orði þegar hann fjallaði um þessi mál. Er hann að snobba niður fyrir sig með því að lokka fólk inn í Listasafn Akureyrar? Eflaust. Hverjum er ekki sama? Ef það er að snobba niður fyrir sig að vilja ekki mála sig út í horn og byrja að skrifa bækur um sjálfan sig, fyrir sjálfan sig og vera í endalausri sjálfskoðun sem enginn skilur, ekki einu sinni maður sjálfur, þá er ég sekur um að snobba niður fyrir mig og bara nokkuð stoltur af því."
Ég er í raun ótrúlega dagfarsprúður ungur maður
Sumir skynja málfar bókanna þinna sem uppreisn gegn hefð, sumum finnst það dónalegt, ég hef heyrt fólk lýsa því sem ofbeldisfullu og gegnsýrðu af reiði. Ertu reiður? Ertu dóni? Ertu uppreisnarseggur?"Ég er í raun ótrúlega dagfarsprúður ungur maður. Kannski er ég reiðari en annað fólk, svona innst inni. Þegar ég var yngri fór ég til sálfræðings og tók svona próf sem átti að mæla reiðina. Ég skoraði 16 stig af 20 mögulegum, sem mér skildist að væri helvíti reitt. Síðan þá hef ég ekki haft neitt til að vera reiður yfir, að undanskildum fréttatímanum. Ég hef heldur ekki hugmynd um yfir hverju ég var reiður á sínum tíma. Unglingsárin fóru bara frekar illa í mig en varðandi dónaskapinn þá er ég ekkert dónalegri en þegar Þórbergur lýsti því þegar hann reið stelpu á bak við skúr. Það er samfélagið sem hefur á undanförnum árum orðið gegnsýrt af rétttrúnaði og tepruskap.
Eflaust er ég að gera uppreisn gegn því, enda kominn tími til. En þetta er ekki svo einfalt í höfði mínu að ég hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að vera uppreisnaseggur. Ég hugsaði það ekki þannig þegar ég gaf út fyrstu bókina mína og ritskoða sjálfan mig ekki með þeim hætti að ég bæti dónaskap í bækurnar mínar ef þær eru ekki nógu krassandi. Þetta er eitthvað sem ég hugsa lítið sem ekkert um. Ég reyni bara að vera trúr viðfangsefninu mínu hverju sinni og yfirleitt hefur það verið ungt fólk. Og ég veit ekki betur en ótrúlegur fjöldi ungs fólks á Íslandi hafi eytt undangengnum vikum í að vera slefandi yfir komu klámstjörnunnar Ron Jeremy til landsins. Svo er ég talinn vera eitthvað dónalegri en aðrir! Nei. Ég er bara hluti af því samfélagi sem ég bý í og neita mér um að kóa með því samfélagi þótt ég þætti eflaust fínni pappír ef ég færi að ritskoða sjálfan mig og gæfi út settlegri bækur."
Þetta endar allt með ósköpum
En er Samúel samt ekki talsvert persónuleg bók? Þú og Samúel eigið það að minnsta kosti sameiginlegt að hafa verið með fjölskyldu ykkar í sértrúarsöfnuði þegar þið voruð krakkar. Hafði sú reynsla jafnmikil áhrif á þig og hún hafði á Samúel?"Jú, þetta er mjög persónuleg bók. En ég var yngri en Samúel þegar við pabbi höfnuðum guði og hans kumpánum. Sögðum okkur úr því samfélagi sem ég hafði fæðst inn í og höfnuðum því líkt og foreldrar mínir höfðu áður hafnað samfélaginu sem þau fæddust í svo þau gætu gengið í sértrúarsöfnuð. Og bara hugsunin sem slík hefur haft gífurleg áhrif á mig. Flestir ganga í gegnum lífið án þess að hafna nokkurn tíma þeim veruleika sem þeir búa við. Það er það sem mér þykir stærst í þessu. Þú fæðist inn í einhvern heim sem þú dæmir síðan lygi og uppspuna. Eða í mínu tilfelli fékk ég hjálp og ákvörðunin var ekki algjörlega mín því ég var bara krakki. Þessu er öðruvísi farið með Samúel því þótt bókin sé persónulegt uppgjör mitt að einhverju leyti er mjög erfitt að koma auga á það. Ég veit ekki einu sinni sjálfur hvort það hafi ekki skrifast allt í burtu þegar Samúel varð heilsteyptari persóna sem ég fór að vinna með af alvöru. Maður leggur oft á stað með eitthvað sem snýst algerlega í höndunum á manni og þá beygir maður þangað og skrifar þennan kafla og fær svo alveg frábæra hugmynd sem leiðir mann mjög nálægt upprunalegu hugsuninni en er samt einhvern veginn í algjörri andstöðu við hana. Mér finnst ég líka hafa grætt ótrúlega á því að hafa kynnst þessum heimi eins og öðrum þeim sem ég hef kynnst í gegnum tíðina. Er einhvern veginn reynslunni ríkari, og svo situr maður uppi með gífurlega vitneskju um Biblíuna. Eitthvað sem kemur bara sjálfkrafa og er þannig séð ágætis veganesti fyrir rithöfund."
En verðum við ekki bara að sætta okkur við þann veruleika sem við búum við? Mun byltingin sem Samúel boðar nokkurn tímann eiga sér stað?
"Ég vona að hún muni einhvern tíma eiga sér stað en ég held að byltingin verði hægfara og ekki eins og Samúel vill að hún verði. Eða það er einlæg von mín að svo verði. Að hægt og hægt muni hugsunarháttur okkar breytast.
Alveg eins og okkur tókst að losna við guð mun okkur takast að losna við þennan djöfullega veruleika sem við búum í og murkar lífið úr saklausu fólki og ég veit ekki hvað og hvað. Guð var okkur helvíti sterkur raunveruleiki á sínum tíma og hann er bara til hjá Gunnari í Krossinum og við flissum jafnvel yfir þessu bulli öllu saman á sjálfum jólunum. En ástæðan fyrir því að ég vonast eftir einhverri breytingu er að þetta gengur auðvitað ekki mikið lengur. Við verðum að breyta því hvernig við horfum á heiminn, veröldina. Þetta endar allt með ósköpum en auðvitað fyllist maður algjöru vonleysi um að þetta muni nokkurn tíma lagast. Sérstaklega núna. Um daginn voru til dæmis fréttirnar fullar af gíslatökum í Moskvu. Lesendabréfum rigndi inn á dönsku blöðin sem ég les. Fólk náði ekki upp í nefið á sér, það var svo óttaslegið. Þetta var allt að fara til fjandans og allt í einu er fólk hvergi öruggt. Verst að þegar sagt er "fólk" er bara átt við okkur hérna á Vesturlöndum. Meirihluti heimsins hefur aldrei búið við öryggi og allt í einu núna er fólk að deyja úr hneykslan af því að nokkrir glæpamenn tóku almenna leikhúsgesti í gíslingu. Sama fólk skrifaði engin lesendabréf og skipti jafnvel um stöð eða hringdi upp á fréttastofu og kvartaði yfir því að það væri verið að birta lifandi myndir af sundurtættu fólki í fréttatímanum þegar Rússarnir jöfnuðu heilu borgirnar við jörðu í Tétsníu. Börnin vakandi og allt það. Að horfa á þennan viðbjóð. Hugsið ykkur? En það kom auðvitað engum við að einhver helvítis múslimabörn væru myrt! Við erum svo illa farin á geðinu hérna á Vesturlöndum að stundum trúi ég því að okkur sé ekki viðbjargandi."
throstur@mbl.is