"ÞAÐ er allra sálna messa í dag og þetta eru allt trúarleg verk. Við ætlum að syngja verk eftir meistarana Bach, Haydn, Mendelssohn, Schubert og líka eftir núlifandi tónskáld eins og Hjálmar H. Ragnarsson." Vox feminae, fjörutíu kvenna kór, helgar tilefni dagsins, allra sálna messu, tónleika sína í Hallgrímskirkju í dag kl. 17. Ágústa Jóhannsdóttir er fjölmiðlafulltrúi kórsins: "Ein okkar, Þórey Sif Brink, syngur einsöng, og við ætlum líka að brjóta upp hefðbundinn kórsöng með því að syngja í smærri hópum. Það er til komið af því að við erum með geggjaðan kórstjóra, Margréti Pálmadóttur, sem er mjög metnaðarfull og telur okkur trú um að við getum allt. Eftir að við unnum annað sæti í Palestrina-kórakeppninni í Róm í hitteðfyrra, höfum við meira og minna allar verið í söngnámi. Við sem erum í eldri kantinum höfum kannski tekið fjögur, fimm stig í söngnum, en ungu stúlkurnar í kórnum, sem hafa vaxið upp úr kórum Margrétar, Barnakór Grensáskirkju og Stúlknakór Reykjavíkur, eru líka meira og minna allar í söngnámi eða tónlistarnámi."
Með tónleikunum í dag hefjast hátíðahöld í tilefni af tíu ára starfsafmæli kórsins. Ágústa segir að kórinn ætli sér að halda dampi allt næsta ár og syngja mikið. Hátíðahöldunum lýkur að ári með tónleikum á degi verndardýrlings tónlistarinnar, heilagrar Sesselju. Til að fagna afmælinu verður einnig sungið í húsi kórsins, Domus vox, í desember, og í vor ætlar kórinn að syngja Liebeslieder Waltzer - eða Ástarsöngvavalsa eftir Jóhannes Brahms. Ágústa segir að þessi mikli metnaður kórfélaga hafi haft góð áhrif á kórinn. "Verkin sem við syngjum núna eru sum þess eðlis, að þegar ég leit á þau fyrst í haust hugsaði ég með mér hvort ég gæti þetta. Við æfum tvisvar í viku, og við eyddum heilli helgi í Skálholti að hljóðrita geisladisk.
Þetta er ekki bara spurningin um að læra erfið verk, heldur þarf röddin líka að vera í góðu formi. Þetta er eins og í öllu öðru - til dæmis fótboltanum. Maður byrjar í fimmta flokki, en það er ekkert gaman að vera alltaf þar. Maður vill alltaf verða betri og maður verður betri með því að taka á. Eftir að við fórum í keppnina, þar sem við stóðum okkur vel og sungum þessi yndislegu verk eftir John Speight og Hjálmar H. Ragnarsson, þá verður maður bara að halda áfram að reyna að verða betri.
Og nú erum við að stefna að því að taka þátt í Schubertkeppni, sem ég held að verði í Salzburg." Ágústa segir að Vox feminae hafi verið að sérhæfa sig æ meir í trúarlegri tónlist og að hún virðist höfða sterkt til kvennanna. "Ég hef oft velt því fyrir mér hvort það sé vegna þess að við séum konur. En þessi tónlist bæði höfðar til okkar og virðist henta röddum okkar vel." Tónleikar Vox feminae verða haldnir í Hallgrímskirkju í dag hefjast kl. 17.