HÉR er um að ræða listmenntunarverkefni sem verið hefur tæp þrjú ár í undirbúningi. Verkefnið er skipulagt af Listasafni Rovaniemi í Lapplandi, Barnalistaskólanum í Rovaniemi og Háskóla Lapplands í samvinnu við Listasafnið á Akureyri og Verkmenntaskólann á Akureyri, ásamt ýmsum aðilum í Narsaq á Grænlandi og Norræna húsinu í Reykjavík.
"Hugmyndin var að tengja saman og kynna menningu þessara norðlægu svæða; að nemendur og listamenn kynntust og störfuðu saman. Þannig fóru til dæmis nemendur af Listnámsbraut Verkmenntaskólans til Rovaniemi í vinnubúðir og unnu með finnskum listamönnum," sagði Guðmundur Ármann þegar Morgunblaðið ræddi við nokkra aðstandendur sýningarinnar.
Hugmyndin að samvinnuverkefninu er frá Finnum komin. Fulltrúar áðurnefndra stofnana komu til Akureyrar á sínum tíma, hittu listamenn og fóru í skóla í leit að samstarfsaðilum, að sögn Guðmundar Ármanns, brautarstjóra myndlistarsviðs við VMA en 10 nemendur skólans taka þátt í verkefninu. Meginmarkmiðið er að tvinna saman sérstaka menningu hinna norðlægu landsvæða í starfi barna og unglinga, starfandi listamanna og myndlistarkennara í Lapplandi, á Akureyri og á Grænlandi.
Við verkefnið unnu unglingarnir saman í vinnuhópum með finnskum, íslenskum og grænlenskum listamönnum. Þar var jöfnum höndum unnið við myndlist, nútímadans, gjörninga og ljósmyndun. Íslenskir myndlistarmenn kenndu finnskum nemendum í hraun-vinnuhópi á Akureyri sumarið 2001 og í skógar-vinnuhópi í Rovaniemi haustið 2001 kenndu finnskir myndlistarmenn íslenskum, grænlenskum og finnskum unglingum. Loks tóku ungir grænlenskir og finnskir myndlistarnemar þátt í ís-vinnuhópi á Narsaq á Grænlandi vorið 2002 með aðstoð tveggja grænlenskra listamanna.
Á sýningunni, sem lýsir fjölbreytileika norðursins, má sjá árangur þessarar samvinnu. Fulltrúar Íslands á sýningunni, auk fjölda ungmenna, eru: Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Gústav Geir Bollason, Sigríður Ágústsdóttir, Stefán Jónsson og Veronique Legros. Finnsku listamennirnir eru John Court, Titta Court, Markku Heikkilä og Ilona Kivijärvi og grænlensku listamennirnir eru Buuti Petersen og Kirsten Larsen Egede.
Sýningin var sett upp í Rovaniemi í sumar og verður í Norræna húsinu í Reykjavík í júlí á næsta ári.
Ekkert nema tré
"Við lögðum upp með að þau myndu kynnast landinu, náttúrunni og litunum og hráefninu sem við getum unnið úr hérna í náttúrunni, t.d. hrauninu," segir Aðalheiður S. Eysteinsdóttir um heimsókn Finnanna til Íslands, en m.a. var farið með hópinn í Mývatnssveit.Edda Rós Þorsteinsdóttir er einn nemendanna úr VMA sem fóru til Finnlands. "Það var dálítið öðru vísi að vera þar en hér heima. Maður sá aldrei himininn almennilega fyrir trjám. Svo var mjög erfitt að koma þarna vegna þess að það voru engar sturtur þar sem við gistum! Bara sauna."
Þau dvöldu í sumarbúðum úti í sveit. En skyldi sturtuleysið hafa haft áhrif á listsköpunina? "Já, örugglega. Við vorum svolítið pirruð framan af út af því. En við fengum að fara í sund," segir Edda.
Hún segir íslensku nemendurna hafa kynnst þeim grænlensku mjög vel en hóparnir voru saman allan tímann.
En hvað höfðu þau svo fyrir stafni í Finnlandi. Elva Hrönn Hjartardóttir úr VMA svarar því: "Við byrjuðum á því daginn eftir að við komum að fara í 10 kílómetra göngu inni í einhverjum skógi. Við áttum að kynnast skóginum, fá hugmyndir og upplifa náttúruna." Hópurinn ferðaðist um Lappland með finnsku listamönnunum "og við upplifðum náttúruna einhvern veginn á annan hátt en venjulega; lærðum til dæmis að þæfa og notuðum eld." Jóga var stundað að morgni hvers dags og stundum voru framdir gjörningar. Unnið var í anda þeirra listamanna sem tóku á móti hópnum.
En hvað skyldi fólk hafa lært á samstarfinu?
"Við upplifðum öll eitthvað sérstakt og höfum örugglega lært eitthvað þó maður sé ekki endilega meðvitaður um það strax," segir Elva Hrönn.
"Við stoppuðum til dæmis fjórum sinnum til að horfa á sömu ána því hún var svo mismunandi á litinn," segir þá Margrét Vera Benediktsdóttir.
Edda nefndi sturtuleysið og Sigríður Ágústsdóttir segir það athyglisvert atriði. "Það er mjög þarft að nefna þetta af því að við tökum vatnið sem svo sjálfsagðan hlut á Íslandi, meira að segja sjóðandi heitt."
Og Aðalheiður bætir við: "En við áttuðum okkur á því að þeir voru ekkert að spara pappírinn í Finnlandi." Þar er nóg af trjám.
Guðmundur Ármann segir það líklega ekki alltaf meðvitað hvað menn læri á svona löguðu. "En kannski skilar það sér eftir einhvern tíma þegar maður áttar sig á því að maður hefur aðeins víkkað út sjóndeildarhringinn."
Mjög skemmtileg sýning
Finnsk stúlka, Pia Mettalä, sem er í framhaldsnámi á Akureyri vann við að setja sýninguna upp í Rovaniemi í sumar og var mjög hrifin. "Safnið þar er á tveimur hæðum. Uppi voru verk listamannanna en niðri, þar sem eru tveir salir, voru annars vegar verk nemendanna og hins vegar sýning á vinnubúðunum; myndbönd, ljósmyndir, dagbækur. Áherslan sem sagt lögð á að sýna hvernig starfið fór fram, hvernig verkefnið gekk fyrir sig og hvernig menn fengu innblástur."Hún segir sýninguna vera mjög skemmtilega og verk fólks frá löndunum fara einstaklega vel saman. "Þegar við tókum upp úr kössunum í sumar vissum við ekki á hverju mátti eiga von. En svo kom í ljós að hugmyndir fólks eru ekki ósvipaðar, burtséð frá því hvaðan það kemur."
skapti@mbl.is