"Coats of Asbestos spangled with Mica" eftir Liam Gillick, einn þeirra sem að þessu sinni eru tilnefndir til Turner-verðlaunanna.
"Coats of Asbestos spangled with Mica" eftir Liam Gillick, einn þeirra sem að þessu sinni eru tilnefndir til Turner-verðlaunanna.
Menningarmálaráðherra Breta, Kim Howells, hefur fordæmt verkin sem að þessu sinni hafa verið tilnefnd til Turner-verðlaunanna sem "kalt, vélrænt konsept-rusl.

Menningarmálaráðherra Breta, Kim Howells, hefur fordæmt verkin sem að þessu sinni hafa verið tilnefnd til Turner-verðlaunanna sem "kalt, vélrænt konsept-rusl." Howells skildi eftir skilaboð í Tate-safninu, þar sem verkin eru höfð til sýnis, og sagði breska list vera "glataða" ef þetta væri það besta sem hægt væri að sýna.

Turner-verðlaunin eru oft umdeild, en meðal verkanna sem tilnefnd eru í ár má nefna auglýsingaskilti þar sem klámmynd er lýst og plastloftplötu sem hengd hefur verið í loft safnsins.

Howells er þekktur fyrir að vera berorður og á minnismiða hans, sem skilinn var eftir í herbergi sem sérstaklega er ætlað fyrir athugsemdir sýningargesta, segir m.a.: "Tilraunirnar í átt að konsept-list eru sérstaklega ömurlegar og einkennast af skorti á sannfæringu."

"Þetta eru frekar leiðinleg verk," hafði netmiðill BBC-fréttastofunnar eftir Howells.

"Ég get varla kallað fram í hugann listaverk sem skapað hefur verið sl. tuttugu ár sem hefur með nokkurri festu náð vitund almennings. Frábærir listamenn eiga sinn stað í sögunni, en hin ráðandi öfl í menningarheiminum í dag skortir gjörsamlega öll tengsl við veruleikann," sagði Howells.

"Það sem okkur vantar eru nokkrir alvöru uppreisnarseggir og byltingarsinnar sem geta kastað þeim á haf út."

Jeu de Paume fyrir ljósmyndir og margmiðlun

FRANSKA menningarmálaráðuneytið skýrði nýlega frá því að til stæði að breyta Jeu de Paume-safninu í sýningarstað fyrir ljósmyndir, myndbönd og margmiðlun. Greint var frá þessu í dagblaðinu Le Monde, en Jeu de Paume hefur frá 1991 verið sýningarstaður fyrir samtímalist.

Ástæða breytinganna er að sögn blaðsins m.a. sú að fráfarandi safnstjóri Daniel Abadie hafi lagt of mikla áherslu á liststefnu módernista, þ.e. list frá því á árunum fyrir 1960. Abadie hefur engu að síður fengið 15 mánaða framlengingu á samningi sínum sem stjórnandi safnsins, en til stendur að breytingarnar taki gildi 2004.

Le Monde segir starfsfólk safnsins almennt sátt við væntanlegar breytingar þótt því hafi ekki verið kunnugt um þær áður en þær voru tilkynntar fjölmiðlum. Og telur blaðið enn fremur að í dag skorti sýningaraðstöðu fyrir ljósmyndasýningar í París, þótt tvö ljósmyndasöfn, borgar- og þjóðarsafn, séu nú þegar starfrækt í borginni.