I Og enn einu sinni er bókavertíðin hafin, þetta tæplega tveggja mánaða úthald sem einkennist af mikilli gleði yfir því að hérlendis skuli vera til mikið af hæfileikaríkum rithöfundum, og faglegir, vandvirkir og kjarkmiklir útgefendur, en einkennist líka af miklum taugatitringi yfir því hvernig þetta muni nú allt saman fara, hvernig dómarnir verði, hvernig salan verði. Og auðvitað er fjölmiðlafólk gagntekið af spenningi og vill heyra ofan í höfunda um bækurnar og reyna að rýna í samhengi hlutanna svo að það og lesendur verði ef til vill einhverju nær um það hvað íslenskar bókmenntir snúast um einmitt núna þessa stundina.
II Og þetta fer allt voðalega vel og kröftuglega af stað. Að vísu var hin árlega umræða um gagnrýni ræst fullharkalega á vefritinu Kistunni í vikunni þar sem Mikael Torfason hafði uppi ómakleg orð um Úlfhildi Dagsdóttur, ritdómara Kastljóssins, og á það sennilega ekki eftir að styrkja málefnalega og vandaða umræðu um gagnrýni. Slík umræða þyrfti hins vegar nauðsynlega að fara fram enda er bókmenntagagnrýni sem og önnur listgagnrýni í nokkrum vanda stödd. Hugsanlega þarfnast gagnrýnendur gagnrýni en þá þarf sú gagnrýni vitanlega að vera af einhverjum öðrum toga en þeim stóryrðaflaum sem lesa mátti á Kistunni í vikunni. Það er kannski útópískur draumur að einhvern tímann muni samræðan milli gagnrýnenda og listamanna alfarið einkennast af yfirveguðum og uppbyggilegum orðum um það hvernig listin á að vera. Hugsanlega er það ekki ákjósanleg skipan mála.
III En athyglin skal þó umfram allt vera á bókunum sjálfum og þar er varla að greina neina kreppu. Við fyrstu sýn er það einkum tvennt sem vekur athygli í bókmenntaútgáfu haustsins. Annars vegar virðist geysilegur fjöldi skáldsagna vera að koma út þetta haust en ljóðabækur eru fáar. Hins vegar má vænta þess að þetta haust verði ekki síst áhugavert vegna þess að nú er kynslóð ungra höfunda - rétt um þrítugt - sem er ekki aðeins óvenju fjölmenn heldur einnig mjög verseruð að senda frá sér hvert verkið á fætur öðru. Hér er um að ræða höfunda á borð við Andra Snæ Magnason, Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Mikael Torfason, Sigurbjörgu Þrastardóttur, Sigtrygg Magnason, Stefán Mána og Steinar Braga. Allt eru þetta höfundar sem þrátt fyrir ungan aldur eiga að baki tvö eða fleiri verk sem hafa vakið athygli og sum hver átt þátt í að breyta íslensku bókmenntalandslagi. Og allt eru þetta höfundar sem hafa með einum eða öðrum hætti tekist á við samtímann í verkum sínum, oft á mjög djarfan og ögrandi hátt. Gera má ráð fyrir að verk þeirra setji mikinn svip á flóðið að þessu sinni en við einn þeirra, Mikael Torfason, er rætt í Lesbók í dag. Í framhaldinu er svo ætlunin að ræða við fleiri af þessum ungu höfundum hér í Lesbók. Ekki er ólíklegt að í þeim samtölum verði hægt að sjá glitta í ný og áhugaverð viðhorf til bókmennta og samfélags.