Pascal Quignard.
Pascal Quignard.
FRANSKI rithöfundurinn Pascal Quignard hlaut Goncourt-bókmenntaverðlaunin sem afhent voru síðastliðinn mánudag.

FRANSKI rithöfundurinn Pascal Quignard hlaut Goncourt-bókmenntaverðlaunin sem afhent voru síðastliðinn mánudag. Goncourt eru helstu bókmenntaverðlaun Frakklands og hlaut Quignard þau fyrir bókina Les Ombres errantes (Sveimandi skuggar) sem inniheldur safn spakmæla, minninga og hugleiðinga um hið liðna. Bókin er sú fyrsta í fyrirhuguðum þríleik höfundarins undir yfirskriftinni Dernier Royaume (Síðasta konungsríkið). Í viðtali á LCI-sjónvarpsstöðinni sagði Quignard að það kæmi sér á óvart að bókin skyldi verðlaunuð, þar sem hún væri óræð hvað form varðaði, og lýsti hann henni sem keðju byrjana á skáldsögum, smásögum, landslagslýsingum og endurminningabrotum.

Goncourt-verðlaunin voru fyrst veitt árið 1903 og hafa þau fallið í skaut höfundum á borð við Marcel Proust, Simone de Beauvoir og Andre Malraux. Hlaut Quignard atkvæði sex dómnefndarmanna af tíu, önnur atkvæði féllu í skaut rithöfundunum Olivier Rolin, fyrir bókina Tigre en papier eða Pappírstígurinn, og Gerard de Cortanze fyrir bókina Assam .

Harold Bloom kortleggur snilligáfuna

Bandaríski bókmenntafræðingurinn Harold Bloom hefur sent frá sér ritið Genius: A Mosaic of One Hundred Exemplary Creative Minds (Snilligáfa: Mósaíkmynd hundrað snjallra hugsuða). Harold Bloom hefur skipað sér sess sem ein af leiðandi röddum í bókmenntafræðum. Fræg er t.d. bók hans The Western Canon , sem út kom árið 1994, en þar sker höfundurinn upp herör gegn því sem margir hafa skilgreint sem póstmóderníska fjölmenningarlega rétthugsun, og áréttar hlut hinnar sígildu hefðar í vestrænum bókmenntum. Margir gagnrýndu þó bókina fyrir að vera karllæg og einblína á ákveðna höfunda sem sagan hefur gefið vægi stöðu sinnar vegna. Í Genius telur Bloom til hundrað hugsuði og höfunda sem hann telur hafa mótað hugmyndasögu og tíðaranda í nútíð og fortíð. Líkt og einn gagnrýnandi bendir á eru þar aðeins taldir til látnir höfundar og eru flestir karlkyns. Val Blooms á höfundum kemur þó mörgum á óvart og gefur hann sér þar mjög rúmar forsendur. Meðal snillinga sögunnar að hans mati eru kanónuhöfundar á borð við Shakespeare, Dante, Cervantes, Hómer, Virgil og Plató. En einnig nefnir Bloom höfunda á borð við Freud, Ellison, Emerson, Lady Murasaki, Iris Murdoch og Ocatvio Paz. Bloom ver um 6-10 blaðsíðum í umfjöllun um hvern höfund, og er sérstöku púðri eytt í nokkur nöfn, s.s. Samuel Johnson, Ralph Waldo Emerson, Victor Hugo, Isaac Babel, Virginiu Woolf, Wallace Stevens og nokkra fleiri.

Harold Bloom býr í New York og New Haven í Connecticut. Hann er þekktur rithöfundur, bókmenntarýnir og ekki síst kennari, en hann kenndir við Yale-háskólann og háskólann í New York.