Séð yfir íslenska básinn á Gautaborgarstefnunni. Bjarney Gunnarsdóttir, ein starfsmanna.
Séð yfir íslenska básinn á Gautaborgarstefnunni. Bjarney Gunnarsdóttir, ein starfsmanna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BÓKASTEFNUNNI í Gautaborg lauk fyrir skömmu, en um 107.000 manns, þar af um 1.250 blaðamenn víðs vegar að úr heiminum, sóttu hana frá fimmtudegi til sunnudags.

BÓKASTEFNUNNI í Gautaborg lauk fyrir skömmu, en um 107.000 manns, þar af um 1.250 blaðamenn víðs vegar að úr heiminum, sóttu hana frá fimmtudegi til sunnudags. Anna Einarsdóttir hjá Máli og menningu hefur um árabil haft umsjón með þátttöku Íslendinga í bókastefnunni, en þetta var 18. árið sem hún er haldin. Í ár voru finnskar bókmenntir í sviðsljósinu og segir Anna Finna hafa staðið sig sérstaklega vel í að kynna rithöfunda sína.

"Það sem sló hins vegar algjörlega í gegn þetta árið og sló öll aðsóknarmet á dagskrá stefnunnar var fyrirlestur Noams Chomskys. Hann átti að tala í einum fyrirlestasalnum, en það þurfti að færa hann yfir Skandinavium, því það voru 4.000 manns sem komu að hlusta." Noam Chomsky er einn kunnasti og virtasti hugvísindamaður Bandaríkjanna. Í fyrirlestri sínum gagnrýndi hann utanríkisstefnu Bandaríkjastjórnar sem hann sagði felast í hernaðar- og árásarstefnu, og gagnrýndi ennfremur að Bandaríkjastjórn hunsaði stefnu Sameinuðu þjóðanna í málefnum Mið-Austurlanda. Chomsky skrifaði metsölubók um atburðina 11. september í fyrra og kynnti á messuni nýja bók sína og Davids Barsamians um vald áróðursins. Anna segir að Gautaborgarpósturinn hafi slegið því upp um vinsældir Chomskys að ljóst væri að hrukkóttar rokkhetjur væru ekki einu gamlingjarnir sem tækist að fylla svo stór hús.

Fyrirlestrar um Halldór Laxness og Drauma á jörðu

Anna segir að mikil traffík hafi verið að íslenska básnum á bókastefnunni, - en hann er á sama stað á sýningarsvæðinu ár eftir ár. 35 lönd áttu fulltrúa á bókastefnunni að þessu sinni, alls 739 bókaforlög og einstaklingar, en auk þessa voru 533 fyrirlestrar, pallborð og fundir haldnir á stefnunni. Dagskráin er því viðamikil og ákaflega fjölbreytt. "Halldór Guðmundsson og Lars Lönnroth héldu mjög skemmtilegan fyrirlestur um Laxness í tilefni af 100 ára afmæli hans og Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur og Einar Már Guðmundsson rithöfundur tóku þátt í pallborðsumræðum, og Einar Már kynnti bók sína, Drauma á jörðu."

Anna segir að bækur Halldórs Laxness hafi fengið sérstaka kynningu á íslenska básnum; Steinunn Jóhannesdóttir, rithöfundur og leikkona, var á staðnum og kynnti bók sína Reisubók Guðríðar Símonardóttur, en að auki voru nýjar og áhugaverðar bækur síðasta árs kynntar á íslenska básnum. "Þetta eru barnabækur og skáldsögur og allt mögulegt annað. Nú eigum við til dæmis orðið svo gott úrval af bókum fyrir ferðamenn. Svavar Gestsson sendiherra og Guðrún Ágústsdóttir kona hans voru með móttöku á íslenska básnum og í hana mættu um 130 manns."

Anna segir áhugann á Íslandi mikinn og sem dæmi nefnir hún að allir þeir kynningarbæklingar og pésar sem hún tekur með sér gangi út. Fjölmargar bókapantanir eru lagðar inn strax á stefnunni sjálfri en fleiri bætast við þegar líður á haustið. "Fyrri tvo dagana er þarna fólk frá bókstaflega öllum bókasöfnum á Norðurlöndunum. Það fólk kaupir ekki á staðnum, það skoðar og tekur með sér bæklinga, og pantar svo síðar, því þau kaup þurfa oftast að fara í gegnum opinbera aðila. Það er því ómögulegt að segja til um það nákvæmlega hve mikið er keypt af íslenskum bókum eftir stefnuna, en áhuginn á íslenskum bókum er mjög mikill. Íslensku bækurnar þykja líka sérstaklega fallega unnar. En það eru ekki allir komnir til að kaupa bækur, síðustu 15 árin hefur það færst mjög í vöxt að messuna sæki útgefendur sem eru að leita að bókum til að þýða og gefa út. Það hefur til dæmis aukist mjög á síðustu árum að íslenskar bækur séu þýddar yfir á sænsku."

Á fimmtudag og fram á hádegi á föstudag er bókastefnan eingöngu opin fagfólki, og ekki fyrr en þá að almenningi gefst kostur á að sjá sýninguna. "Þá er hér allt eins og í síldartunnu, og það er gaman að sjá fólk ganga hér um klyfjað af bókum. Þá verður maður óneitanlega bjartsýnn; - það er svo oft talað um að bókin eigi undir högg að sækja á okkar tímum. Maður er auðvitað óskaplega glaður að sjá hvað bókin nýtur enn mikilla vinsælda, bókastefnan í Gautaborg er sannarlega bókaveisla."

Ljósmyndabækur vekja athygli

Anna segir að það séu ekki aðeins íslensku bækurnar sem gestir stefnunnar spyrji um, heldur sé almennur áhugi á Íslandi mjög mikill. "Það koma margir og segja ýmist: Einu sinni kom ég til Íslands og það var ofsalega gaman; - eða: Mig hefur alltaf langað svo að koma til Íslands. Ég tek alltaf með mér bækur á erlendum málum um Ísland, og í ár kynntum við sérstaklega bókina hans Sigurgeirs Sigurjónssonar ljósmyndara: Lost in Iceland, en við vorum auk þess með tvær aðrar bækur eftir hann, hinar tvær á sænsku. Við vorum líka með bók á sænsku um Alþingi á Þingvöllum og fleira slíkt; ég dreifi hér til dæmis líka kynningarbæklingi fyrir ferðamenn. Þetta efni vekur alltaf mikla athygli."