KEPPNIN um fyndnasta mann landsins var haldin í fimmta sinn í haust og fóru úrslitin fram á Sport Kaffi á fimmtudagskvöldið. Fullt var út úr dyrum og komust færri að en vildu. Til keppni voru mættir Sigurvin "fíllinn" Jónsson frá Dalvík, Bifrastarneminn Björn Hjaltason, Snorri Hergill Kristjánsson, bassaleikari og forritari og unglambið Birgir Hrafn Búason sem að sögn beið í tvö ár eftir að fá að keppa en hann er ekki nema átján ára.
Leikar fóru þannig að Fíllinn sigraði, sem kom nokkuð á óvart að sögn Kristjáns Jónssonar, Kidda Bigfoot, sem var einn aðstandandi keppninnar.
"Þetta var mjög jöfn keppni, miklu jafnari en áður hefur verið og satt að segja var búist við því að einhver annar myndi taka þetta," segir Kiddi. "En Fíllinn mætti bara og jarðaði salinn, sprengdi hann nánast og fólk náði vart andanum á milli brandaranna."
Fíllinn er nú farinn til Edinborgar og segir Kiddi að hann ætli að launa Skotunum pilsfaldaæðið sem gekk yfir landið fyrir skömmu. "Hann hótaði því að fara þangað í skautbúningi með blokkflautu að vopni og hann sýndi og sannaði á fimmtudaginn að honum er fúlasta alvara með því," segir Kiddi og skellihlær.
Engum sögum fer af því hvort þessi ófýlugjarni maður hafi mútað dómnefndinni með fílakaramellum og fílabröndurum. En hann er þó sagður "fíla" það vel að hafa verið kosinn fyndnasti maður landsins.