BJÖRGUNARMENN héldu í gær áfram að grafa í rústum barnaskóla er hrundi í jarðskjálfta á Suður-Ítalíu, en haft var eftir þeim að þeir teldu enga von um að finna fleiri á lífi í rústunum í bænum San Giuliano di Puglia. Síðdegis í gær hafði verið staðfest að a.m.k. 26 börn, þ.ám. heill bekkur sex ára barna, og tvær konur hefðu farist í skjálftanum. Margir þeirra er bjargað var úr rústunum eru alvarlega slasaðir á sjúkrahúsi.
Mikil sorg ríkir í bænum, en spurningar hafa vaknað um hvers vegna kennsla hafi ekki verið felld niður í þessum skóla, líkt og öðrum barnaskólum í nágrenninu, þar sem óttast var að stór jarðskjálfti væri yfirvofandi vegna þess að fjölda smáskjálfta hafði orðið vart. Ennfremur hefur verið spurt, hvers vegna skólahúsið, sem nýlega hafði verið gert við, hrundi, en önnur hús í nágrenninu ekki.
Fréttaritari breska ríkisútvarpsins, BBC, kvaðst hafa séð 26 litlar, hvítar kistur í íþróttahúsi bæjarins, sem breytt hefur verið í líkhús til bráðabirgða. Fjölskyldur barnanna sem fórust sátu hjá kistunum og héldu á leikföngum sem börnin höfðu átt, fötum af þeim og myndum.
Í dögun í gær var átta ára gömlum dreng, Angelo, bjargað úr rústum skólans, 16 klukkustundum eftir að skjálftinn reið yfir. "Hann hrópaði í sífellu: Hjálpaðu mér, hjálpaðu mér. Það var hræðilegt," sagði björgunarmaðurinn Arturo Pierro. "En smám saman tókst okkur að losa hann. Að lokum glöddumst við mikið."
Jarðskjálftinn mældist um 5,4 stig á Richter og fannst víða á svæðinu norðaustur af Napólí, en San Giuliano di Puglia, þar sem um 2.000 manns búa, varð harðast úti. Skólahúsið skemmdist mest. Það var byggt fyrir um 50 árum, og fyrir skömmu hafði steinsteyptri hæð verið bætt ofan á það. Fjöldi bygginga í bænum er mörg hundruð ára gamall og þau hús stóðu skjálftann af sér.