Í ÞESSUM dálkum hefur áður verið fundið að þeim enska talsmáta, sem nú virðist vera orðinn gegnumgangandi á fjölmiðlunum, að nefna helst aldrei karl og konu annað en föður og móður ef börnin þeirra koma jafnframt við sögu. Í íslensku hefur það þó ekki verið vaninn að nota þessi orð og önnur, sem sýna hvernig skyldleika eða venslum manna í milli er háttað, nema í réttu samhengi.
Þessi málkækur virðist vera orðinn svo rótgróinn, að í útvarpsfrétt fyrir skömmu var talað um "mæður, sem verða þungaðar í fyrsta sinn". Hvernig hægt er að koma þessu heim og saman er umsjónarmanni alveg lokuð bók. Kona, sem verður þunguð í fyrsta sinn, verður varla móðir fyrr en hún hefur alið af sér barnið. Það er að segja, nema nota eigi móðurnafnið um alla kvenþjóðina frá vöggu til grafar og hvort sem konan hefur alið af sér börn eður ei. Það sama hlyti þá að gilda um karlmennina. Þá má þá líka kalla feður allt frá barnsaldri. Svo má kannski búast við, að farið verði að tala um mæður, sem hafa aldrei verið þungaðar.
Kristján Bersi Ólafsson, fyrrverandi skólastjóri í Hafnarfirði, hefur sent þættinum nokkrar línur þar sem hann vekur athygli á ákveðinni málfarsbreytingu:
"Heldur hvimleitt þykir mér þegar góð og gegn íslensk orð komast í tísku í annarri merkingu en áður. Þetta hefur á síðari árum orðið hlutskipti orðsins ávirðing. Í orðabók Blöndals er merking orðsins talin aðeins ein: Forseelse, en í Orðabók Menningarsjóðs eru merkingarnar taldar tvær og er önnur þeirra sú sama og hjá Blöndal, yfirsjón, en hin nokkru sterkari: Misgerð. Til frekari skýringar er í Orðabók Menningarsjóðs einnig tekin upp hending úr gömlum sálmi: Ávirðing mín er mörg og ljót.
Núna virðist orðið jafnan haft í fleirtölu, ávirðingar, og það einna helst látið merkja ásakanir eða áburð um eitthvað misjafnt. Mörg önnur orð og orðasambönd eru til í íslensku máli, sem ná þeirri merkingu á skýran og ótvíræðan hátt, og því virðist mér óþarft að endurvekja þetta gamla orð og klæmast á því, eins og mér sýnist að háir jafnt sem lágir ástundi þessa dagana."
Umsjónarmaður þakkar Kristjáni Bersa bréfið og vill um leið hvetja þá, sem áhuga hafa á meðferð móðurmálsins, að láta í sér heyra og benda á það, sem betur má fara.
Í íslensku eru til mörg orð og orðatiltæki, sem tákna uppgjöf, til dæmis að gefast upp, leggja upp laupana, leggja árar í bát, að heykjast á einhverju og margt fleira. Í íþróttafrétt var það hins vegar haft svona: "Ég verð mjög hissa ef Guðjón Þórðarson hefur ákveðið að henda inn handklæðinu á þessari stundu."
Sá, sem benti umsjónarmanni á þetta, kannaðist ekki fremur en hann við þetta orðatiltæki þótt báðir hafi að vísu þóst vita við hvað væri átt. Við nánari eftirgrennslan var upplýst, að það væri sótt í enskt hnefaleikamál, "to throw in the towel", og þýddi uppgjöf, að annar keppandinn veifaði handklæði framan í hinn eða dómarann til marks um, að hann væri búinn að fá sig fullsaddan af barsmíðunum.
Íslendingar hafa á öllum öldum þýtt eða kannski öllu heldur fært í íslenskan búning erlend orðatiltæki og málshætti en hráar þýðingar, sem eiga sér litla stoð í íslenskum veruleika, eru ekki til fyrirmyndar. Hnefaleikar hafa ekki verið stundaðir hér á landi áratugum saman þótt sú breyting hafi vissulega orðið á, að nú eru ólympískir hnefaleikar leyfilegir.
Í umræddri frétt var þetta að vísu haft eftir öðrum en það er lítil afsökun. Ef fréttamenn hefðu allt eftir orðrétt, er hætt við, að margar fréttir yrðu með öllu óskiljanlegar.
Annað þessu skylt er fyrirsögn í einu dagblaðanna og var hún á þessa leið: "Féll úr leik gegn óþekktu andliti." Þar sagði frá því, að bandaríska tennisstjarnan Venus Williams, sem er önnur á styrkleikalista Alþjóðatennissambandsins, hefði tapað fyrir lítt þekktum keppanda, Magdalenu Maleevu. Hér er ekki um neitt annað að ræða en hráa þýðingu úr ensku, "unknown face". Íslenskir blaðamenn hljóta að geta gert betur.
Áður hefur verið minnst á það, sem heitir frumlag, andlag og umsögn eða með öðrum orðum hvað það er, sem ræður mynd sagnarinnar hverju sinni. Í spurningaþættinum "Gettu betur" eru keppendur jafnan beðnir að leiðrétta rangt mál í einhverri setningu og nú ætlar umsjónarmaður að klykkja út með því sama. Hvað er rangt í eftirfarandi setningum:
"Fjöldi fíkniefnamála hafa aldrei verið fleiri"; "...að mikið af niðurstöðum tilraunanna hafi verið falsaðar" og "Meirihluti þeirra vilja eins til tveggja herbergja íbúðir".
svs@mbl.is