Hreyfing og almenn líkamsrækt er líklega einfaldasta og ódýrasta leið til bættrar heilsu sem völ er á. Áhugi á hreyfingu er vaxandi og er það vel, enda veitir ekki af, m.a. í ljósi þess hve offita er vaxandi meðal landsmanna.
Með þessu hefur réttilega verið mjög haldið á lofti nauðsyn hófsemi í mataræði. Því miður virðast margir halda að leiðin að sannleikanum í þessu efni sé í gegnum fæðubótarefni hvers konar. Þar eru ekki einungis kölluð til sögunnar vítamín og steinefni, sem hafa verið notuð áratugum saman, heldur einnig ýmiss konar prótín og jafnvel amínósýrusamsetningar. Merkilegt er til þess að vita að margir hillumetrar í apótekum eru lagðir undir vörur þessar, þær eru til sölu í verslunum sem kenna sig við heilsu og í sumum heilsuræktarstöðvum. Mikil auglýsingastarfsemi er þessu tengd og óstaðfestar fregnir hafa borist af því að þeim sé ýtt að ungu fólki sem nauðsynlegum til árangurs í almennri líkamsrækt svo ekki sé talað um í keppnisíþróttir.
Engar vísindalegar upplýsingar liggja fyrir um að efni af þessu tagi bæti heilsu hjá hraustu fólki. Fæðubótarefni geta verið til gagns hjá fólki með alvarlega sjúkdóma á borð við alnæmi og krabbamein og ýmsa þarmasjúkdóma og hugsanlega hjá fólki sem leggur stund á mjög miklar og erfiðar keppnisíþróttir. Fullyrða má að gildi fæðubótarefna fyrir alla aðra er ekkert. Í venjulegri fæðu, hvort sem hún er unnin úr íslenskum landbúnaðarafurðum, sjávarfangi eða ekki, eru öll þau fæðuefni sem við þurfum. Fæðubótarefni eru yfirleitt mjög dýr. Í flestum tilvikum er fólk að borga fyrir vörur sem í besta falli gagnast þeim ekki og í versta falli skiljast óbreyttar út um ýmis líkamsop.
Fæðubótarefni sem eru hér á markaði eru ekki skaðleg. Hins vegar hefur borið á smyglvarningi með ýmiss konar örvandi efnum á borð við efedrín. Þau eru ólögleg hér og geta verið mjög skaðleg. Gildi þeirra til hreysti, árangurs og betra lífs er jafnlítið og hinna.
Sigurður Guðmundsson landlæknir. Frá landlæknisembættinu.