KOMIÐ hefur upp tilfelli heilahimnubólgu hjá einum nemanda í Brekkuskóla á Akureyri. "Þetta er heilahimnubólga af völdum meningokokka, týpu C, en það er sú týpa sem byrjað er að bólusetja fyrir," sagði Magnús Stefánsson yfirlæknir barnadeildar FSA í samtali við Morgunblaðið.
Magnús sagði að þessi týpa hefði verið ráðandi í þeim heilahimnubólgutilfellum sem eru að koma upp hér á landi annað slagið. Hann sagði að drengurinn úr Brekkuskóla, sem er 9 ára, væri á batavegi og að búið væri að gera ráðstafanir til að þetta tilfelli smitaði ekki út frá sér. Hann sagði að komið hefði upp annað tilfelli á svæðinu fyrir um mánuði og að þar væri mjög líklega um sömu týpu að ræða.
"Þetta er ekkert óvenjulegt, það eru um tvö ár síðan við sáum þetta síðast og er hvorki meira eða minna nú en venjulega. Fólk þarf samt að vera vakandi eins og alltaf," sagði Magnús.
Katrín Friðriksdóttir hjúkrunarfræðingur í Brekkuskóla sagði að Heilsugæslustöðin hefði ákveðið að flýta fyrirhugaðri bólusetningu í skólanum, við heilahimubólgu C, sem hefði annars orðið eftir hálfan mánuð og var hluti nemenda bólusettur í gær.