FRAMKVÆMDASTJÓRN flokksvals Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi hefur ákveðið að fram-lengja frest til að skila póstatkvæðum í kjöri félagsmanna í tvö efstu sætin á lista flokksins í kjördæminu fyrir alþingiskosningarnar næsta vor um tvo daga. Öll atkvæði teljast gild sem póststimpluð eru í síðasta lagi hinn 6. nóvember nk.
Ástæðan fyrir framlengingunni er sú að prenta varð fleiri kjörgögn
en upphaflega var áætlað, m.a. vegna þess að mikill áhugi er fyrir inngöngu í Samfylkingarfélög í kjördæminu.
Eins og fram hefur komið gáfu sjö frambjóðendur kost á sér í tvö efstu sætin á lista flokksins í kjördæminu. Niðurstaðan í póstkosningunni um tvö efstu sætin er bindandi en kjörnefnd raðar í önnur sæti listans.
Þau sem gefa kost á sér eru: Cecil Haraldsson, sóknarprestur á Seyðisfirði, Einar Már Sigurðsson, alþingismaður Neskaupstað. Kristján L. Möller, alþingismaður Siglufirði, Lára Stefánsdóttir, kennari Akureyri, Þorgerður Þorgilsdóttir, sjúkraliði Akureyri, Þorlákur Axel Jónsson, kennari Akureyri, og Örlygur Hnefill Jónsson, lögmaður og varaþingmaður, Laugum í Reykjadal.