Jón Ragnar Ólafsson, bifreiðarstjóri hjá Guðmundi Tyrfingssyni, bíður eftir viðskiptavini Bónuss.
Jón Ragnar Ólafsson, bifreiðarstjóri hjá Guðmundi Tyrfingssyni, bíður eftir viðskiptavini Bónuss.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FJÓRTÁN íbúar Eyrarbakka og Stokkseyrar nýttu sér tilboð Krónunnar síðastliðinn fimmtudag um rútuferð frá þorpunum við ströndina, á Selfoss til að versla í Krónunni.

FJÓRTÁN íbúar Eyrarbakka og Stokkseyrar nýttu sér tilboð Krónunnar síðastliðinn fimmtudag um rútuferð frá þorpunum við ströndina, á Selfoss til að versla í Krónunni. Bónus fylgdi í kjölfarið og bauð upp á rútuferð í gær, föstudag, og þáði einn íbúi það tilboð.

Þeir sem nýttu sér aksturstilboðið voru eldra fólk sem kvaðst ekki hafa yfir bíl að ráða og leist vel á það að eiga þess kost að komast í verslanir sem bjóða lægra verð. "Ég mun örugglega koma aftur, þetta er gott þótt ekki sé nema til að hreyfa sig," sagði Guðrún Júlía Elíasdóttir, 86 ára, frá Stokkseyri þar sem hún skoðaði í hillurnar í Krónunni.

Skemmtiferðir samhliða verslun

Verslunarferðir frá Eyrarbakka eru ekki einsdæmi. Fyrir rúmum áratug tóku konur á Eyrarbakka sig saman og fóru í nokkrar verslunarferðir í Fjarðarkaup í Hafnarfirði. Ferðirnar voru ef til vill að öðrum þræði skemmtiferðir, en allar voru þær farnar á kostnað kvennanna sjálfra.

Þessar ferðir í Krónuna og Bónus eru vikulega frá Eyrarbakka og Stokkseyri, viðskiptavinum þeirra að kostnaðarlausu. Bónus býður einnig ferðir frá Þorlákshöfn. Krónuferðin er á fimmtudögum og Bónusferðin á föstudögum.

Í fréttum af verslunarmálum á Eyrarbakka og Stokkseyri hefur verið sagt að verslun hefði lagst af í þorpunum þegar Kaupás hf. hætti þar verslunarrekstri. Svo er þó ekki, því t.d. í söluskála Olís á Eyrarbakka, Ásnum, má fá flestar þær vörur, sem hvert heimili þarf daglega á að halda. Sú þjónusta kom til eftir að Kaupás lokaði verslunum sínum á liðnu sumri.